19.07.2010 23:28

Hundatamningin.Skemmtileg augnablik. Myndir.

Það er mjög langt síðan að ég áttaði mig á .því að ég yrði aldrei ríkur á hundatamningum.

 Það er svo hinsvegar afstætt hvað gerir mann ríkan  !!

 Í lokatímanum með Terrí kom  Iðunn óvænt með nýju myndavélina sína.



 Og svona lítur hún Terrí Skrámsdóttir út þegar hún tekur flugið.



 Og nú er ekki verið að reka rollurnar í rólegheitum,. Það er tekið á því ef þær eru að sleppa.



Þetta er stelling sem fær allar hundvanar rollur til að haga sér vel. Hinar mega svo biðja fyrir sér ef þær gera það ekki.




 Og þessar þurfa ekkert að biðja fyrir sér, hefja bara virðulegt undanhald.

Og þeir sem voru búnir að panta námskeið  mættu gjarnan senda mér póst svo ég gleymi þeim ekki.

 

18.07.2010 20:59

Dalsmynniskýrnar í íslenskri/rússneskri rúllettu.

  Það er mikils virði að búa við góðar samgöngur.

 Þær stundir koma þó oft að ég fer með eitthvað allt annað en bænirnar mínar þegar þjóðvegurinn sem sker í sundur jörðina skapraunar mér fram úr hófi.

Umferðarþunginn og hraðinn er oft mikill og nú er ekki lengur reynt að keyra búfjáráburð niðurfyrir veg eða heyfenginn til baka um helgar.

 Og kýrnar sem fara daglega niðurfyrir veg lungann úr sumrinu eru í bráðri lífshættu  ásamt vegfarendum.
Þetta er nú í góðu lagi á morgnana enda bændur árrisulir og umferðin lítil um áttaleytið.



 Útlitið er hinsvegar oft verra seinnipartinn og nú sér sá gamli alveg um málið ásamt hundaflotanum.

Hér er allt tilbúið til að opna 4 m. breitt hliðið, með hundana í biðstöðu, klára í að koma hópnum uppfyrir á örfáum mín.



 Það er rétt að taka fram að rekstrarhraðinn er akkúrat eins og kúnum hentar en ekkert óþarfa slugs leyft eða ráp út í loftið.


Þó enginn bíll hefði verið í augsýn í vesturátt voru óðara komir 3 og 8 bíla lest aðeins vestar.

Kýrnar sloppnar, einn bíll stopp í kantinum  og þeir sem á eftir koma bruna framúr á óbrotinni línu.



 Í dag var sunnudagur og umferðarþunginn suður á bóginn. Á föstudögum eru aðalfjörkálfarnir á vesturleið. Þá koma þeir yfir blindhæð og oft stoppar fyrsti bíll nánast inn í hópnum.



 Já, kýrnar sluppu í þetta sinn og ég þarf ekkert að gera nema opna og loka hliðum og loka fjósinu á eftir þeim. Hundarnir sjá um hitt.

Og eins og þið sjáið, átti veðrið nú ekki að stressa ökuþórana, meira að segja logn á Nesinu.emoticon



17.07.2010 20:10

Strútsstígur - örblogg

Nokkrar staðreyndir úr gönguferðinni. Nánari lýsing væntanleg og þá með myndum.
Okkur Sif hefur ekki tekist fyrr að vera með hæfilegt af mat, alltof mikið súkkulaði á Lónsöræfum, flatkökur fyrir heila herdeild á Hornströndum, en núna bara hæfilegt af öllu. Ja, hefði kannski mátt vera meira SvissMiss.
Veðrið gott til göngu, fengum samt einhverja rigningu alla dagana en eiginlega alltaf lóðrétt og mild, svona hálf útlensk rigning.  Hætti fljótlega að fara í hlífðarbuxur því nýju göngubuxurnar virtust vera vatnsfráhrindandi. Rétt aðeins í lok einnar dembunnar að ég varð rassblaut þegar rann af bakinu. Datt í hug vísan sem Einar í Hlíð orti eitt sinn þegar ég kom þar ríðandi, vot inn að skinni:

(Læt fyrripartinn ekki á prent)
Á henni Höllu allt er blautt
að því er hún segir.

Alla daga þurfti að vaða og þá stundum grýttar og vatnsmiklar ár. Fínu vaðskórnir mínir sönnuðu enn og aftur gildi sitt.


Ekki spillir græni liturinn,en hvort þetta er framsóknargrænt eða Vinstri -grænt skal ósagt.

Engar blöðrur og engar harðsperrur, en fljót að sofna eftir löngu dagleiðirnar. Ekki verra að hafa sílikontappa í eyrum.
Góður hópur, 2 fararstjórar og 18 gönguhrólfar. Þarna voru göngufélagar úr fyrri gönguferðum, Ásta Birna og Gunnar voru með á Lónsöræfum og Hornströndum, Inga og Ingvar á Lónsöræfum og Hrefna og Særún á Hornströndum. Þarna voru líka Vestlendingar, Kristín frá Kópareykjum og hennar maður sem er frá Hvammi í Hvítársíðu og heitir Guðmundur. Þetta árið voru leikskólakennarar í meirihluta og enginn veðurfræðingur sem kannski útskýrir rigninguna.
En góð ferð, lítið um fjallgöngur, lítil aska þó við værum þarna norðan Mýrdalsjökuls.
Meira seinna þegar ég hef fengið góðar myndir.

Flettingar í dag: 1496
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 580189
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:48:55
clockhere