06.09.2008 21:36

Um þjóðbraut þvera.


  Þeir sem bruna um vegi landsins á löglegum hraða eða ólöglegum velta því örugglega ekki fyrir sér hvernig samgöngukerfið kemur við þessa bændaskarfa sem enn eru að hokrast við búskapinn kvartandi og kveinandi yfir afkomunni.

 Hér í Dalsmynni sker þjóðvegurinn sundur  tún og beitilönd og þó hann sé nauðsynlegur veldur hann margvíslegum og vaxandi óþægindum. Kýrnar sækja sumarbeitina niður fyrir veg lungann úr sumrinu og lambféð fer niðurfyrir á vorin og til baka í sumarhagana o. sv.frv. Og umferðin er sívaxandi og rétt að vera ekki að tjá sig um hraðann né umburðarlyndi ökuþóranna sem er dálítið mikið misjafnt svo ekki sé fastar að orði kveðið.
  Þessa dagana eru við góðbændurnir að rífa niður ónýta veggirðinguna og setja nýja upp.  Girðingin var komin vel á aldur og löngu hætt að þjóna hlutverki sínu rétt eins og fjölmargar stallsystur hennar um sveitir landsins.  Eitt af því sem blessuð bændaforystan gerði okkur umbjóðendum sínum til miska í den var samningur við ríkið/vegagerðina um að bændurnir tækju yfir viðhald veggirðinganna fyrir" hóflegt" gjald. Ég man enn hvað Ari vinur minn Teitsson varð hissa þegar hann var að lýsa þessum "góða" samningi á bændafundi og ég vissi ekki hvert ég átti að komast af vandlætingu yfir málinu. Ég var þeirrar skoðunar þá og er enn, að veggirðingar séu hluti vegarins og eigi að vera á könnu veghaldara.
 Nú er semsagt verið að snara upp tæplega km. langri girðingu ofan vegar en áætlaður kostn.pr.km. er um 800.000 kr.
 Girðingin neðan vegar verður að bíða fjárveitinga næsta árs.

   Já, alltaf jafn dj. skemmtilegt að girða á góðu landi.

 

04.09.2008 23:20

Félagsmál og fjárbúskapur.


  Fyrir margt löngu þegar ég var ungur og ábyrgðarfullur var ég stundum kosinn til hinnar ólíklegustu ábyrgðarstarfa. Oftast var ég svo heppinn að uppgötva það á undan kjósendunum að ég væri kannski til lítils gagns í þessum hlutverkum og náði oftast að draga mig útúr þeim áður en illa færi í kosningum. Í nokkur ár mætti ég t.d. á stéttarsambandsfundi þar sem ég skipaði mig umsvifalaust í órólegu deildina með Gústa í Sauðanesi og Dóra heitnum á Laugalandi. Síðan hefur óhemju magn af vatni runnið til sjávar og kjarabaráttan í sauðfénu komin í heila hring. Kvótinn sem settur var á til að koma böndum á framleiðsluna, horfinn yfir móðuna miklu( blessuð sé minning hans) og nú mega rollubændurnir framleiða eins og þeir mögulega geta á ný, en ríkið er hinsvegar hætt að tryggja þeim  fullt verð fyrir útflutninginn.

 Eins og þá, er náttúrulega enn agnúast eins og mögulegt er út í félagsmálatröllin sem af mikilli ósérplægni eru að slíta sér út í félagsmálavafstrinu. Sumir virðast t.d. ekki hafa neinn skilning á því hversvegna fulltrúar bænda í stjórn afurðafyrirtækjanna hækka ekki orðalaust afurðaverðið til sín og hinna bændanna eins og þörf er á.

  Ég skil hinsvegar ákaflega vel að á aðalfundi sauðfjárbænda hafi stjórnarmenn afurðasölufyrirtækjanna góða yfirsýn og fullan skilning á hækkunarþörf afurðanna og greiði öllum tillögum í þá átt atkvæði sitt.
 Ég skil auðvitað líka að þegar þeir eru komnir á stjórnarfund í afurðafyrirtækinu þar sem allt er á heljarþröm og vaxtabyrðarnar og hækkandi kauptaxtar og allt hitt er að kafsigla dæminu, þó þeir greiði atkvæði með því að ekki sé hægt að hækka verðin frá því í fyrra nema um 15 - 20 %.

  Það sem ég skil ekki er hvernig þeir nenna að standa í þessu.



              Við Ingimar á Jaðri nennum þessu ekki lengur.

03.09.2008 20:28

Góður dagur í Byggsölunni.


  Byggræktin er og verður alltaf dálítið mikið lotterí og það er sama hve tilkostnaðurinn er mikill, það er innflutta byggið sem ræður verðinu.
 Til þess að dæmið gangi upp þarf lágmarksuppskeru á ha.. og þurrkunin þarf tiltekið magn í gegnum sig svo reksturinn á henni verði í lagi. Þetta hefur þýtt að öll vinna og kostnaður við sekkjun völsun og yfirhöfuð við  afhendinguna hefur helst ekkert mátt kosta.
  Það var því stór dagur í byggræktarsögu Eyhreppinga þegar fóðurflutningabíll birtist á hlaði þurrkunarinnar og dældi .þar í sig 14 tonnum af óvölsuðu (úrvals) byggi og ók því til væntanlegs stórkaupanda.

  Ef við verðum síðan samkeppnisfærir í verði og gæðum má reikna með að samningar takist um sölu á öllu því byggi sem við verðum aflögufærir um ( 200 tonn +).

 Þetta býður líka uppá það að byggræktendur í kringum okkur geta afsett umframbygg í gegnum þurrkunina með nokkru öryggi um ásættanlegt verð.


 Horft inní móttökuna , en þarna er bygginu sturtað inn til þurrkunar. Þarna er það síðan valsað og sekkjað og í þessu tilviki sett aftur í móttökuþróna og dælt upp í bílinn.

 

  Hann hlýtur að hafa séð fram í tímann, hobbýrollubóndinn á Hellissandi sem hringdi í mig í júlí, til að tryggja sér einn stórsekk af byggi fyrir sínar 30 kindur.

Flettingar í dag: 1649
Gestir í dag: 128
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 580342
Samtals gestir: 52688
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 17:55:03
clockhere