08.10.2010 09:18

Árhring sauðkindarinnar lokað.

Þó rollustússið sé oft skemmtilegt er alltaf gott þegar sér fyrir endann á því á haustin.

 Eins og sauðtryggir lesendur síðunnar hafa orðið óþyrmilega varir við fór síðasta vika  í það, og á þriðjudaginn var síðan allt sláturfé sem í kaupstað er sent tekið.

 Það voru um 180 kindur enda fjármennskan hér aukahobbý sem er dálítið vafasöm ef menn hugsa í krónum og aurum.


 Þó við karlpeningur Dalsmynnis séu miklir snillingar (ótrúlega fáir sem koma auga á það) fóru hlutirnir ekki að gerast í fjárræktinni fyrr en kvenbændurnir tóku málið yfir.


 Þessi árgangur og seinni mörkuðu tímamót í kjötmatinu.

 Það hefur því orðið ansi skemmtileg breyting á fjárstofninum á nánast örfáum árum og sem dæmi má taka að fituflokkarnir sem voru okkur til mikilla vandræða eru nánast horfnir þrátt fyrir
síhækkandi meðalvigt.

 Og tölurnar úr slátruninni sem komu í hús í fyrradag eru allar betri en tölur fyrra árs.

Meðalþyngdin var  18.04 kg.
Gerðin 10. 06
Fitan     7.07

 Það er hlutlaus skoðun undirritaðs að landnámskindin sé mun gæfulegri til ræktunarstarfs en hinn bústofninn sem ég þori ekki að nefna.emoticon 

 Það er svo óþarfi að taka fram, að þeir sem eru svo heppnir að fá Dalsmynnislömb á diskinn sinn eru ekki að borða vegkanta,grænfóðurs eða túnlömb, heldur algjörlega ekta fjallalömb. emoticon 
Reyndar á það nú við um langstærstan hluta íslenska dilkakjötsins svo ég geri nú engan reiðan. 
 

06.10.2010 21:52

Toppár í bygginu.

Nú sér loksins fyrir endann á byggræktinni þetta sumarið.

 Hjá Yrkjum ehf þar sem byggið rennur í gegn með einum eða öðrum hætti er um langbesta árið að ræða frá upphafi.(2003)


 Þetta er ein af fullkomnustu byggþurrkunum landsins en þó rétt að taka fram að þetta er gömul auglýsing frá fyrstu árunum.

 Bæði er framleiðsla eigendanna meiri en nokkru sinni og síðan er þurrkun fyrir aðra í hæstu hæðum eða talsvert á annað hundrað tonn, en það munu hátt í 400 tonn renna í gegnum þurrkunina þetta haustið. 

Býsna gott mál eftir ýmiskonar þrengingar.

 Það setti hinsvegar nokkuð svip sinn á byggræktun Dalsmynnis sf. að ákveðið var að taka stökkið og nota búfjáráburð á svo til alla akrana.

 Notaður var mismunandi mikill  N áburður með eða  allt uppí 27 N ha.


 Þessir akrar litu svona út síðast í júlí og nokkru seinna fóru að myndast legur ásamt því að þroskastigið var ákaflega misjafnt þ.e. grænir blettir settu svip sinn á þá,  þó hluti þeirra þroskaðist á góðum tíma.

 Þeir voru svo langsíðastir í þreskingu þetta haustið en þeir voru teknir á mánudaginn.

Þrátt fyrir að þeir lægju nánast alveg tókst samt að ná uppúr þeim 4 t. af ha.

 Það á eftir að fínisera tölurna en uppskeran hjá okkur er ágætlega ásættanleg og mun betri en útlit var fyrir um miðjan júní.

 Og í fyrsta skipti í sögu félagsins er útlit fyrir að náðst hafi hellingur af sáðbyggi til næsta árs/ára bæði Lóm, Judith og hugsanlega Pilvíinu líka.

Já, við kornræktendur í Eyjarhreppnum verðum víst að berja okkur yfir einhverju öðru en byggræktinni þetta árið.

03.10.2010 20:58

Lokaleit einnar af öflugustu rolluleitarsveitum landsins.

 Um níuleitið vorum við komin í hnakkana sem ríðandi fórum, og vorum hvergi bangin þrátt fyrir norðan gjóluna og smá rigningarhraglanda.

 Atli , Guðný og Vaskur fóru hinsvegar bílandi vestureftir og innfyrir Hlíðarhornið en þaðan yrði féð sem af innfjallinu kæmi flutt akandi til byggða.

 Það átti að smala Selsfjallið ásamt vestan og sunnanverðu Hafursfelliinu.
 
Við hestafólkið áttum erfiða leið fyrir höndum uppúr Núpudalsbotninum eða vestur úr Núpuskarðinu inná leitarsvæðið.
Leitin sjálf er síðan mjög erfið vegna þess annarsvegar, að landið er bratt giljaskorið og erfitt yfirferðar.
Hinsvegar er þarna samansafn af mjög erfiðu flækingsfé sem stoppar þarna við varnarlínuna sem liggur þvert yfir nesið og veit ekkert hvert það á að fara.

 Sé farið uppúr Núpudalsbotninum er farið hér vestan gilsins uppí yfir 600 m.hæð og er þá komið innarlega á fyrirhugað leitarsvæði.


Ég held að þetta svæði hafi ekki verið leitað af ríðandi leitarmönnum fyrr en ég kom að málinu.

Það er mikið gengið með hestunum líkt og í Svaðilfaraferðum Þórðar á Laugarlandi ( ég á þær eftir)
og hér eru Iðunn og Linda á leið uppí Eyjalágarnar. Linda sem er nýkomin frá Þýskalandi er nú ekki fullgildur sérsveitarmaður enn.



 Þessar komu á móti okkur frá Atla og có sem smalaði dalverpið suðuraf Núpuskarðinu.

 Þetta er eins og áður segir dálítið hrikalegt landslag sundurskorið af giljum bæði langs og þvers.
Hér sést inneftir Laxárgljúfrinu og girðingarstæði varnarlínunnar sem liggur eftir vesturbrún  þess sést nokkuð vel.



Hérna eins og reyndar í öllum smalamennskum sem ég kem nálægt byggist allt á góðum hundum.


Hér er Dáð að rétta kúrsinn af þessum áður en þær ná næsta gili.

Þetta er fjórði dagurinn sem hún fer í erfiða leit með mér og hún mun fá extra blogg seinna fyrir algjörlega frábæra frammistöðu.

 Ég hef óskaplega oft verið betur ríðandi í leitum en þetta haustið, með fullri virðingu fyrir félaga Þrym sem er ágætur en ekki eins rosalega góðir og allir hinir.

Ég setti þessa mynd hér, vegna þess að nákvæmlega þarna gleymdi ég reiðmúlnum hennar Höllu Sifjar. Muna að taka hann næsta ár.


        F.v. Vaskur frá Dalsmynni, Dáð frá Móskógum og Mýra frá Setbergi raða sér kringum safnið.

Hér erum við komin niður úr innfjallinu og hundarnir raða sér kringum safnið á meðan verið er að græja aðhaldið og flutningstækið.



Hér eru Atli og Dóri að gera klárt en þetta voru tvær ferðir með rúmar 50 kindur.


Linda, Dóri,Iðunn og Guðný í matarpásunni með Hlíðarhornið í baksýn.

Þetta var síðasta alvöruleit haustsins og fyrir tilviljun fannst ölkassi í bílnum.


 Og þetta er skemmtilegasta barborð sem ég hef lagt bauk frá mér á.

Síðan voru smöluð vestur og suðurhlíð Hafurfellsins og var féð  ýmist tekið á bílinn á leiðinni eða rekið að Dalsmynni og náðust alls um 125 kindur.

Af þeim voru 18 frá Dalsmynni sf.

Fyrir áhugafólk um leitir og landslag eru fleiri myndir HÉR


Flettingar í dag: 730
Gestir í dag: 75
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579423
Samtals gestir: 52635
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 10:48:38
clockhere