09.09.2008 23:39

Fjölbreyttur dagur.


  Það er ekkert atvinnuleysi sem hrjáir okkur í sveitasælunni frekar en fyrri daginn.
Yngri bóndinn er í fullri vinnu að sinna konu og barni og sá eldri heldur uppi dampi á búgarðinum á meðan, með dyggri aðstoð konu og tengadasonar..
 Fyrsta júgurbólgutilfellið í langan tíma kom svo upp í morgun svo það var hringt í dýralækninn og skammast yfir döprum penicillinlager  búsins. Gamla ræðan sem við Rúnar kunnum báðir um heimskuleg lög  og reglugerðir sem takmarka penicillínlager bændanna var þó ekki flutt í þetta sinn né heldur svarræðan hjá Rúnari um helvítis nöldrið í okkur Svenna í Hlíð. En við Svenni erum ábyrgir bændur og vitum að stöðugur penicillínskortur á búum landsins er ekki góður frá dýraverndunarsjónarmiðum og mörg skepnan hefur örugglega fengið að kveljast út á það.

  Það var síðan komið við á Hvanneyri með hey og bygg í efnagreiningu, á leiðinni upp að Vélabæ en þar beið aðaldráttarvél heimilisins. Eitthvað sambandsleysi í rafmagnsdótinu hafði verið að plaga hana og búið að komast fyrir það.

  Heimkominn var tekin skyndiákvörðun um að koma upp hestahólfi í Hrossholti, staurar vír og græjur teknar til í snatri og vaðið í þetta.
 Það tókst að koma niður öllum hornstaurum (7st.)  draga út vírinn og byrja að reka niður staura á einum leggnum .þegar doksi hringdi, mættur til að kíkja á kúna.
 Að loknum mjöltum var síðan mætt á fund til að jafna  niður fjallskilum. Það er nú 
orðið meiriháttar mál að jafna mörgum tugum dagsverka á .þessa örfáu rollubændur í sveitinni.

    Já það er óþarfi að láta sér leiðast og Týri fékk frí í dag. 

08.09.2008 21:34

Hundatamningarnar og Týri hvolpapabbi.



 Ég er ekki frá því að með aldrinum verði sífellt hærra hlutfall ýmissa ákvarðana hjá mér skynsamlegri en áður fyrr.  Ein af þeim er vafalaust sú ákvörðun að loka á hundatamningalistann seinnipart vetrarins. Það er alltaf aðeins um það, að hringt er í mig víðsvegar af landinu og menn biðja mig að temja fyrir sig hund. Undantekningarlaust hef ég jánkað þessu, en tekið fram að viðkomandi skuli hringja í mig og árétta málið innan tiltekins tíma sem oftast er nokkrir mán. Lengi vel var það gulltryggt að ekki heyrðist meira frá viðkomandi. Á þessu hefur þó orðið nokkur misbrestur í seinni tíð svo til vandræða horfði og því gripið til lokunaraðgerða.

  Og nú er svo gott sem verið að hreinsa upp listann með engum öðrum en Týra (hvolpapabba) frá Daðastöðum.



                       Hér er skipunin" NÆR " að síast inná harða diskinn.

 Þessar myndir eru teknar á fjórða degi tamningar og við félagarnir aðeins farnir að átta okkur hvor á öðrum.

 

                               Hann þarf líka að læra að fara til hægri.



                                   Og náttúrulega til vinstri.

  Hamingjusömum hvolpaeigendum sem kíkja hér inn er bent á fleiri myndir í flokknum, ýmsar hundamyndir .(albúm, Týri frá Daðastöðum.)

  Og þegar ég horfi á þessar myndir hér, átta ég mig á því hvað það er nú auðvelt að temja hunda.

07.09.2008 19:23

Neyðarlínan og lítill afakútur.



  Það var um fjögurleytið í nótt sem hringt var frá Dalsmynni í neyðarlínuna. Þar sem tvö Dalsmynni eru á 311 svæðinu var tekið skýrt fram að um Dalsmynni í Eyja og Miklaholtshrepp væri að ræða.

  Niðurstaða samtalsins var sú að sjúkrabíll yrði sendur að Dalsmynni með hraði.

 Sjúkraflutningamennirnir fengu hins vegar báðir þau fyrirmæli við útkallið að fara að Dalsmynni í Norðurárdal???

  Hvað um það. Klukkan 16:05 í dag fæddist þeim Atla og Guðnýju lítill drengur og heilsast þeim báðum vel.  (Pabbinn nokkuð brattur líka) Þeim litla lá dálítið á að koma í heiminn því 4-5 vikur áttu að vera eftir af meðgöngunni. 

  En allt er gott sem endar vel.
Flettingar í dag: 1158
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579851
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:26:40
clockhere