28.09.2008 19:55

Laufskálarétt.

Um leið og við félagarnir sveifluðum okkur í hnakkana við Laufskálarétt braust sólin í gegnum skýin og kíkti á okkur af og til allan daginn..

                                 Búið að staðsetja vagninn við réttina og klárarnir klárir í slaginn.

 Hitastigið um morguninn var um 3 gr. og snjóað hafði niður í miðjar hlíðar í vatnsveðrinu daginn áður svo þetta leit út fyrir að verða nokkuð napurt. En þetta varð síðan fínn dagur og ágætlega hlýr.

                  Horft inn Kolbeinsdalinn með snjó niður í miðjar hlíðar.


  Það var síðan riðið yfir ásinn í Kolbeinsdalinn þar sem stóðið beið okkar. Þetta var svona 3 tíma reiðtúr með hæfilegu slugsi og virkilega gaman að þessu.



  Smábrot af reiðfólkinu sem var ótrúlega margt og sumir langt að komnir. Fyrstu sem við hittum við réttina komu með hesta frá Fáskrúðsfirði.

          Það var gaman að sjá stóðið sprautast yfir ána og  hvernig teygðist úr rekstrinum upp og yfir ásinn.

      Réttin var kapítali útaf fyrir sig og ég hélt mig í fjörinu í almenningnum á meðan félagarnir og konurnar héldu uppi almannatengslunum á svæðinu.


  Þeir sem fengu byltu við sundurdráttinn fengu óhjákvæmilega lit á sig. Þeir urðu nokkrir áður en lauk.

  Deginum hjá okkur Snæfellingunum lauk með því, að reka stóðið heim með þeim í Hofstaðaseli og þar beið okkar mikil veisla í vélageymslunni.

    Okkur fannst þetta alveg frábær dagur og okkar betri helmingar voru meir að segja nokkuð sáttar með ferðina. emoticon

25.09.2008 19:54

Byggþurrkun í óþurrki!!

Ég er löngu hættur að grínast með stressið á félögum mínum yfir ótíðinni og nögum við nú neglurnar hver í kapp við annan. Allt orðið forblautt um, stöðug rigningartíð (ótíð) og 100 ha. í ökrum bíða þess að stóra rokið feyki bygginu út á hafsauga eða allavega niður á akurinn. Gríðarlegur fjöldi álfta og gæsa hafa síðan sagt okkur stríð á hendur og sækja hart að ökrunum. Kemur sér nú vel að eiga mikið dótaúrval og er engin skömm að vélasýningunum sem sjá má þar sem loftflotar þessir leggja til atlögu inná akrana.

  Þegar sá til sólar í morgun var þreskivélin óðara sett í flotgírinn og náðist í einn þurrkara áður en flóðgáttir himinsins opnuðust á ný

  Þar sem legurnar þorna seint og illa, var tekinn akur með Lómyrkinu sem stendur af sér haustveðráttuna með mikilli prýði.




  Það var komin ákveðin mýkt í annars glerharða eyrina eftir undangengnar stórrigningar og sterka tógin þreytti frumraunina þetta haustið.


 Og aðalkallarnir héldu síðan neyðarfund og var algjör samstaða um niðurstöðu fundarins .

 Sem sé að fara norður í Skagafjörð um helgina, taka rækilega á  því og hætta að naga
 neglurnar.emoticon

24.09.2008 22:17

Landi, koníak og útafakstur.



  Ég geri ekki ráð fyrir að fjármálaráðherrann hafi verið með landa, svaraði Jón á Högnastöðum blaðamanni DV sem spurði hann hvaða áfengistegund  Árni Matt hefði haft um hönd í réttum  á suðurlandi.( Ég sá fyrir mér hvernig Jón glotti út í annað rétt eins og í gamla daga). Blaðamaðurinn var að gera veikburða tilraun til að gera frétt úr réttarferð ráðherrans með ráðherrabílstjóra og sv. frv. Rétt eins og bændaræflum á suðurlandi væri ofgott að þiggja koníakssjúss hjá ráðherranum á þessum þrengingartímum.

 Við lestur fréttarinnar rifjaðist upp fyrir mér þegar Árni hringdi í undirritaðan fyrir nokkrum árum .
 Það var um hávetur og ég var rétt kominn inn frá kvöldmjöltum . Árni kynnti sig léttur í máli, spurði hvort fjósverk væru búin og hvernig nýja fjósið reyndist. Ég velti fyrir mér hver dj. væri í gangi því mér vitanlega vissi hann ekki hver ég var hvað þá heldur meira. Það kom á daginn að bíll ráðherrans hafði í hálkunni, lent utanvegar rétt sunnan Dalsmynnis og væntanlega hefur Árni hringt í e.h. kunnugan á svæðinu og fengið í leiðinni ýmsar upplýsingar um væntanlegt fórnarlamb.

  Þegar ég mætti á svæðið kom í ljós að bíllinn hafði farið útaf rúmlega meters háum kanti og endað förina í djúpum skurði sem var reyndar fullur af snjó. Með Árna í för var kempan Einar Oddur og var greinilega ýmsu  vanur. Hann stjórnaði aðgerðum , hnýtti bandið og sagði bílstjóra til og allt komst þetta heilt á veginn aftur. Þeir félagar voru á leið á fund í Hólminum og sögðu sem satt var að þar myndi ekkert gerast fyrr en þeir mættu. Þeir kvöddu mig svo með handabandi og þökkuðu greiðann ,Árni fyrst. Handtakið hjá Einari sem var alltaf nokkurra punkta maður hjá mér, var fast og traustvekjandi, Hann þakkað mér vel og sagði um leið og hann sneri frá mér . Þú færð svo sendingu frá okkur.

  Mörgum mánuðum seinna kom svo áritað kort frá þeim félögum ásamt koníaksflösku.

 Þá varð mér hugsað til handtaksins hjá Einari.
Flettingar í dag: 1551
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 580244
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 17:34:00
clockhere