20.06.2010 05:42

Veisla á Vatnsnesi.

 Eins og dyggir lesendur heimasíðunnar vita er ég ákaflega vel kvæntur.

Reyndar mun betur en ég á skilið.

Það sama verður því miður ekki sagt um konuna mína, en það er náttúrulega hennar vandamál.

 Stundum reyni ég þó að vera eins og góðir eiginmenn eiga að vera, bjóða henni út í mat eða eitthvað.
Það er þó alltof sjaldgæft.

 Nú bauð ég henni semsagt út að borða og til að hafa þetta almennilegt var farið í fjöruhlaðborðið í Hamarsbúð á Vatnsnesi.


Hamarsbúð stendur við eina glæsilegustu fjárrétt landsins sem að auki er í alveg einstöku umhverfi.



Það var byrjuð að myndast biðröð við Hamarsbúð um sexleytið þegar við mættum, en húsið opnaði kl. 7.



 Þetta var eiginlega ólýsanlegt veisluborð og sama hvað var tekið á diskinn, allt hvað öðru betra.



 Það var þröngt setinn bekkurinn í tjaldinu þegar kom fram á kvöldið en þar var lifandi músik og söngur allan tímann.



 Öll bílastæði gjörnýtt og rúmlega það.

 Og Steini frá Svelgsá  ( t.v.) nú í Hippakoti í Fitjárdal sem er teinréttur enn, virðir fyrir sér allskonar lostæti á fiskitrönum staðarins. Mín heittelskaða hafði nú óþarflega mikinn áhuga á því líka.

 Húsfreyjurnar á Vatnsnesi eru algjörlega að standa sig í þessu sem öðru.

Matseðillinn o.fl. .Hér

Það gæti svo alveg verið að maður kíki við hjá þeim aftur.emoticon

18.06.2010 21:49

Grenstrípur og Geithellir.

 Ég lagði hjólinu, skannaði svæðið vel með kíkinum og gerði svo riffilinn kláran.

 Það var verið að fara á Geithellisgrenið og mér var minnisstætt þegar síðast var á því, að þá mætti ég refnum á blindhæð  rétt eftir að ég yfirgaf hjólið.

 Hann var mun viðbragðssneggri en ég, og við sáumst ekki aftur fyrr en um þrjúleitið um nóttina.



  Ég leit í kringum mig þarna innst á Núpudalnum þar sem ég þekkti hverja þúfu og stein og það kom smá depurð í hugann þegar öll örnefnin sem eru flest horfin úr notkun blöstu við.



 Hvítuhlíðarkollurinn og Hvítuhlíðargilið munu þó endast meðan leitir eru framdar á svæðinu því öll skipulagning er miðuð við þau sem kennileiti.



 Hér glyttir í Geithellirinn hægra megin undir klettinum en af honum er nafnið á Geithellistungunum dregið. Þær ganga að vísu aldrei undir öðru nafni en Tungurnar í daglegu tali þó grenið á svæðinu sé aldrei kallað annað en Geithellisgren.



 Þessi klettur fyrir miðri mynd heitir því furðulega nafni Grenstrípur.



 Hér er svo eina grenið sem vitað er um í Núpudalnum og í mínum huga flottasta grenið sem ég fer á .

 Nokkurnveginn hlutlaust álit.

Það hefur ekki verið á því í nokkur ár og ég var hæstánægður þegar svo reyndist líka nú.

Sem betur fer er til ýtarleg örnefnaskrá yfir dalinn og glöggur maður getur rakið sig eftir þeirri lýsingu ef áhugi er á.



 Ég hafði snúið undir mér löppina fyrir nokkrum dögum og var feginn þegar ég kom að hjólinu aftur.

Ekki skemmdi útsýnið suður Núpudalinn þá ánægju.

Það gengur mikið á í grenjavinnslunni þessa dagana og spurning um hvað af því kemst á netið.emoticon






17.06.2010 16:50

Folald að fæðast. - Myndir.

Nú koma folöldin í heiminn hvert á fætur öðru.



 Hér er aðalhryssan mín hún Von frá Söðulsholti að koma með sitt folald þetta árið.



Ég var búinn að panta rauða hryssu en Von hefur hefur haldið sig við hestfolöd þessi 4 skipti sem hún hefur kastað.



 Þetta var allavega ekki alveg eins á litinn og það átti að vera. Dökk dökk rautt eins og pabbinn, Sigur frá Hólabaki.


 
Neibb, ekki var það nú hryssa.

  En þetta er nú samt bara þokkalega flottur hestur. emoticon



Flettingar í dag: 636
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579329
Samtals gestir: 52634
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 09:43:02
clockhere