01.11.2009 00:25

Villifé í Hafursfellið !

 Þetta var alveg firnagóður dagur í dag.

Fyrir það fyrsta gjörtæmdum við haughúsið svo nú geta Dalsmynnisbændur verið áhyggjulausir eitthvað fram í apríl hvað skítmokstur varða.

 Í öðru lagi virðist blessuð ríkisstjórnin komin fyrir vind í efnahagsmálunum og hefur því ákveðið að snúa sér að fjárleitum vestur á fjörðum en þar gengur eitthvað brösuglega að ná nokkrum rollum af erfiðu leitarsvæði.

   Trúlega er komin einhver uppgjöf í ráðherrana að ná því fé sem komið er til Tortolaeyja og vilja því huga að því sem hendi er næst.

 Ef ég skil hlutina rétt stafar verkefnaskortur þeirra af því að nú er búið að slá endalegri skjaldborg um bankana og gulltryggja að sparifjáreigendur tapi engu í krísunni. Jafnframt er búið að tryggja það að skuldarar þessa lands muni borga það sem þeir mögulega geta meðan á jarðvist þeirra stendur, af lánunum sem ýmist eru búin að tvöfaldast eða eru á öruggri leið með að gera það í verðbólgunni. Nema kúlu og barnalán afskrifast eins og mögulegt er.

 Í þriðja lagi las ég það á netinu að ágætur þingmaður/kona okkar norðvestlendinga er þeirrar skoðunar að séu smalar í hættu við smölun fjár vegna erfiðra aðstæðna, sé skynsamlegast að láta féð bara eiga sig.
 
 Þetta fannst mér frábært og reyndar það skynsamlegasta sem ég hef nokkurtímann heyrt eða lesið eftir krataþingmann.

Hef ég þó fylgst með pólitík af miklum áhuga síðustu 50 árin.

 Það þarf að binda þessa snilldarskoðun í lög sem fyrst og óðara myndu spretta upp öflugir villistofnar víðsvegar um landið.

 Ég sem hef marga fjöruna sopið í leitum og eftirleitum og eftireftirleitum hef bara aldrei hugleitt þennan möguleika, enda  upplifað það meðal annars að sjá fé hrapa til dauðs við erfiðar aðstæður oftar en ég vil muna. 

Í dag heitir þetta víst að reka fé fram af björgum.

 Nú þegar ég hef séð ljósið, er þungu fargi af mér létt, sérstaklega vegna þess að ég veit af kindum á þremur stöðum í Hafursfellinu. Þessar kindur eru án nokkurs vafa afbragðs upphafsstofn fyrir
 " villifé " ,  erfiðar viðureignar, ágætlega klettsæknar og styggðin er í góðu lagi.

 Vinir mínir á austurbakkanum eru svo að sérhæfa sig í allskonar ræktunarlínum og sumar þeirra henta síðan ágætlega í þetta.



  Það er síðan morgunljóst að Hafursfellið hentar mun betur fyrir " villifé" en þessi útnári þarna í Vesturbyggð. Af samtölum við heimamenn má ráða að aðstæðurnar séu fénu svo erfiðar þarna að það nái ekki nema 2- 4 vetra aldri og stofninn hafi aldrei náð nema nokkrum tugum, sem stemmir illa við lýsinga annarra heimamanna um skjólgott og grasgefið fjallendi.

Þessar voru seint á ferðinni úr Hafursfellinu og ekki nógu erfiðar til að duga  í villifjárstofn.

 Hér í kringum Hafursfellið eru lunknir fjármenn sem vita nokkuð um hverjar þarfir sauðkindarinnar eru, þó þeir komist að vísu bara með tærnar þar sem margfróðir bloggarar um sauðfjárhald hafa hælana. Hvað þá heldur þingmenn.

 Þar sem við viljum þó sjá 7-10 ára aldur á alvöru villifé þyrfti að ná af þeim ullinni a.m.k. annaðhvert ár.

 Sú aðgerð myndi geta skapað verulegan ferðamannabísniss fyrir ævintýrafólk því auðveldlega væri hægt að taka nokkrar vikur í þetta yfir sumarið með tilheyrandi sigæfingum fyrir björgunarsveitir.

 Þegar færi að sverfa að í fjallinu að vetrinum myndi féð laumast niður á láglendið þar sem aldrei tekur fyrir beit en að sjálfsögðu mun þessi villifjárumræða verða til þess að gerðar verði lagabreytingar sem létta smalaskyldum af sveitarfélögum. 

 Jafnframt yrði veittur afsláttur á dýraverndunarlögum sem heimilaði afdráttarlaust að við svona aðstæður mætti setja fé á guð og gaddinn eins og þar stendur.

 Já, með því að ná ullinni reglulega af fénu og laumast til að fóðra það á harðindaköflum er ljóst  að því myndi fjölga hratt og og þá þyrfti að grisja stofninn. 

 Þar höfum við fyrirmyndina úr hreindýraveiðunum og þar sem þetta er villifé þýðir það öruggleg allt aðra meðhöndlun við meðferð og nýtingu kjötsins.

Ekkert ESB kjaftæði þar.

 Og skógræktarbændurnir við Hafursfellið verða kátir þegar þeir lesa þetta.emoticon 

 

 

31.10.2009 08:10

Gæsaveiðilokin og veiðimennirnir.

 Nú fer gæsaveiðin að styttast í seinni endann hér, enda byrjað að plægja akrana þó enn sé mikið af fugli.



 Þetta er fyrsta haustið sem veiðin er skipulögð í alvöru og faglega staðið að málum af hendi okkar sem settum 3 samliggjandi jarðir með um 50 ha. af byggökrum í púkkið.

 Þó þetta hefði verið sett upp þannig, að fugl hefði verið 1-2 daga á akrinum áður en veiði var reynd gekk veiðimönnunum misjafnlega. Sem betur fer er aldrei neitt öruggt í veiðinni og menn voru að fá allt frá engu og upp í 79 fugla ( 2 byssur)  í morgunfluginu.

 Þegar staðið er í þessu er manni ekki sama hvernig veiðimaðurinn er, sem fer með skotvopn um svæðið.

 Sem betur fer er til fullt af alvöru veiðimönnum sem fara eftir reglunum með fjölda skota í byssunni, láta blesuna vera og eru að ná góðri nýtingu á skotin.  Sannir veiðimenn.

 Hinir eru samt óþarflega margir sem byrja á því að renna skotpinnanum úr haglaranum þegar komið er í skurðinn og setja of mörg skot í magasínið.

 Það fer síðan  saman hjá þeim sem þurfa á þessu að halda, að skotnýtingin mætti oft vera betri.

Það er oft hljóðbært á svæðinu og við heyrum  í skothrinunum þegar flugin koma inn.

 Við heyrum líka hvort skotin eru óeðlilega mörg miðað við byssufjöldann.

Það gerist síðan óþarflega oft að veiðitölurnar eru ekki í neinu samhengi við skothrinur og skotfjölda sem þýðir að menn eru of gikkbráðir og tæma byssurnar út í loftið í einhverju óraunsæi.


 Flugið að koma inn og betra að fara ekki á taugum. Góð skytta hefur ekkert að gera með fleiri en þrjú skot í byssunni.

 Þó ég sé ekki heilagur líkar mér þetta ekki og þar sem ég veit að tuð við veiðimenn muni ekki breyta þeim, fara þeir grunsamlegu aftast á biðlistann og haldast þar. . En það hefur verið almenna reglan í haust að menn biðja um að fá að koma aftur, í sumum tilvikum þó ekkert hafi veiðst. 

 Og nú er spurt um rjúpuna en hún er alfriðuð hér á nokkrum samliggjandi jörðum.



 Rétt eins og þessi höfðingi hér.

Nú munu veiðileyfasalar setjast niður, fara yfir reynslu haustsins og velta fyrir sér framhaldinu.emoticon 

29.10.2009 00:02

Villifé og villuráfandi jarmandi malbikssauðir.


 Það er talið að elsta kindin sem náðist í Tálknanum í gær hafi verið 4 vetra.

 Hinar hafi verið eins til þriggja vetra.

 Þetta segir meira en mörg orð um það, við  hvaða aðstæður þetta fé býr þarna í útiganginum.

 Það er nefnilega þannig að íslenska sauðkindin er húsdýr og hefur frá upphafi Íslandsbyggðar verið ræktuð í tvennum tilgangi, Annarsvegar til kjötframleiðslu og hinsvegar til ullarframleiðslu.

 Og það er ullarframleiðslan sem er hluti af þeim skelfingum sem  bíður þeirra lamba sem komast upp þarna, því þetta fé er ekki, eðli málsins samkvæmt rúið árlega eins og það er ræktað til.

 Í einhverjum tilvikum losnar einstaka kind við ullarreyfið en hinar sem eru komnar með 2, 3 eða 4 ullarreyfi hvert yfir annað eru ekki í góðum málum hvorki sumar né vetur. 

Enda virðast þær samkvæmt þessu ekki verða eldri.

 Eins og fyrri daginn verður umræðan alveg ótrúleg. Einn af mestu þungavigtarmönnunum  í umhverfisumræðunni toppaði þetta rugl samt alveg gjörsamlega þegar hann tók sem dæmi að engum dytti í hug að útrýma skógarbjörnunum þó þeir væru orðnir horaðir á vorin.

 Á meðan skógarbjörninn liggur í hýði sínu yfir veturinn er sauðkind á útigangi náttúrulega að berjast við að halda lífinu, í þessu tilviki á ísuðum klettasyllum norður við dumbshaf við skelfilegar aðstæður ef vetur er harður.

 Þessir " velunnarar" íslensks útigangsfjár ættu vita hvernig er að koma að kind uppi á fjöllum á miðjum vetri, klökugri   svo hún stendur varla í lappirnar, vafrandi um á rótnöguðum bletti sem stendur uppúr snjónum.

 Og nú verður eflaust fljótlega til undirskriftalisti í feisbúkk þar sem hvatt er til að sett verði lög, sem banni smölun á útigangsfé svo það geti dáið drottni sínum eftir tveggja til þriggja ára kvalræði.emoticon 
 
Flettingar í dag: 1551
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 580244
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 17:34:00
clockhere