19.03.2011 21:21

Hesthúsvígsla aldarinnar.


 Við mættum 4 úr Eyjarhreppnum í reiðina frá Heimsendahesthúsahverfinu í Hafnarfjörðinn.

Ég velti því fyrir mér í hvern andsk. ég hefði nú komið mér, þegar riðið var af stað í kulda og éljagangi og þurrbrjósta í þokkabót.

Það var verið að flytja í nýtt hesthús í Hafnarfirði og þar sem byggjendur þess tengdust mér með einum og öðrum hætti var ekki heima setið í þetta sinn.



 Hér eru þeir Skjóni og Bliki nokkrum mínútum áður en þeir kvöddu þessa vistarveru sína í síðasta sinn.



 Og hér er Bliki kominn í nýju stíuna sína.


 Þetta leit ekkert illa út hérnamegin.



 Ekki var það verra á hægri hendina enda eigendurnir dálítið svoleiðis.


 Hér eru þeir að setja vígsluna og annar þeirra eilítið þreytulegur enda tekur svona framkvæmd aðeins í. Hljómsveitarmeðlimirnir á bakvið þá félaga eru samt áhyggjulausir  á svipinn.



Það er svo smá reiðhallarhorn í enda hússins þó veðursældin í Hafnarfirði sé óbrigðul  samkvæmt gríðarlega áreiðanlegum heimildum( Auðun). 



 Þetta eru hálm og heyvagn staðarins og fer ekki á milli mála að hönnun er copyuð  frá yngri Dalsmynnisbóndanum sem gerði einn slíkan fyrir Hestamiðstöðina.





 Hluti af vígslunni var að sjálfsögðu að skella hestunum inn  og gefa þeim áður en barinn var opnaður. Jonni og Dóri drifu í því enda orðnir dauðþyrstir.


 En barinn leit svona út.



 Og lagið var tekið fyrir eigendurna og gestina.




Afabörnin spöruðu sig hvergi.




 Hér er svo nýjasta fjárfestingin mín eftir reynsluferðina, hann Stígur frá Íbishól.
Hann svínvirkaði þó hann hefði nú bara verið járnaður 2 dögum  áður.

Þó það hefði verið erfitt að keyra vestur í moksnjókomu og leiðinlegu skyggni í nótt, var ég bara nokkuð sáttur við bílstjórastarfið í dag.

18.03.2011 09:45

Allt á fullu í ótíðinni.

Þegar dagsbirtan fer að verða ráðandi þá líður tíminn hratt og þó tíðarfarið sé ekki til að hrópa húrra er vorið pottþétt, fyrir handan hornið.

 Það er mikil stresshelgi framundan en í dag verður brunað í bæinn þar sem hesthúsvígsla er á dagskrá.



 Á morgun er fjárhundanámskeið á dagskránni og þar sem bæði kollurinn og ganglimirnir þurfa á öllu sínu að halda  eru yfirgnæfandi líkur á því að ég verði hafður undir stýri í dag.

 En ástandið á efri hæðinni og fráleiki fótanna eru orðin með þeim hætti að ekki er hættandi á neitt sem gæti dregið úr afköstum bóndans á þessum sviðum.

Öðruvísi mér áður brá.



 Þar sem það verður mikil hópreið frá eldra hesthúsi í það nýja og milli hesthúsahverfa að fara verður gæðingaflotinn tekinn með úr sveitinni. Ekki dugar minna en þessi græja hér að ofan í ferðina, en hér er  hún stödd við Laufskálarétt.

En allt um þetta eftir helgina.

15.03.2011 22:42

Áríðandi tilkynning. Er okkur sama??


Miðvikudaginn 16. mars munu SamFram skólarnir; Kvennó, MH, MR, MS og Versló, standa fyrir góðgerðatónleikum til styrktar Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur. Tónleikarnir verða haldnir í Hafnarhúsinu undir yfirskriftinni "Okkur er ekki sama!" Þar koma fram margir af flottustu tónlistarmönnum landsins og má meðal annars nefna Agent Fresco, Friðrik Dór og svo mæta Stebbi og Eyfi og taka Nínu.

Miðaverð við hurð verða 1500 kr. en fyrir þá sem ekki komast að en vilja þó styrkja gott ...málefni þá viljum við benda þeim á að Valdi&Freyr standa að baki tveimur símanúmerum, sem hægt er að hringja í og styrkja þar af leiðandi Mæðrastyrksnefnd.

500 kr.: 907-1050
1.000 kr.: 907-1010
Símanúmerin verða opin til miðvikudagsins 22.mars

Frá árinu 1928 hefur Mæðrastyrksnefnd verið til staðar fyrir fólk sem þarf á hjálp að halda. Upprunalega styrktu samtökin ekkjur látinna sjómanna en það hefur breyst. Nú geta einstæðir foreldrar, eldri borgarar og fjölskyldur leitað til þeirra.
Í hverri viku getur fólk komið í matarúthlutun á þeirra vegum. Aðsóknin hefur aukist gríðarlega á síðustu árum en þegar mest var sóttust um 700 heimili eftir hjálp. Þetta vandamál snertir okkur öll og vilja því SamFram skólarnir leggja sitt af mörkum með því að styrkja þetta málefni. Fáránlegt er að hugsa til þess að um 400 fjölskyldur í hverri einustu viku sækja mataraðstoð til þeirra. Okkur er ekki sama!

http://www.youtube.com/watch?v=EnzZFfUzaYc&feature=channel
Flettingar í dag: 1158
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579851
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:26:40
clockhere