18.04.2009 17:50

Harðindi, hundtík og pólitík.


  Það hefur ekki gefið vel í vetur til hundatamninganna.

  Ég sem er allvel settur með verkefni í þeim málaflokki með tvær bráðefnilegar tíkur á tamningaraldri hef því þurft að halda aftur af athafnaseminni. Kunnugir telja eflaust að það hafi ekki orðið mér mjög erfitt.


 Hér er það Dáð frá Móskógum í námstíma í fyrrakvöld. Hún verður ársgömul í sumar og átti að vera komin verulega áleiðis  en er það ekki . Þetta er gott efni og dálítið spes því hún er afar róleg og yfirveguð í vinnunni.
  Hún er að byrja að læra hægri/ vinstri skipanirnar og skipunina NÆR sem segir henni( í bili) að koma með kindurnar til mín. Síðar meir segir þessi skipun henni það, að hún eigi að ganga beint að kindunum hvar sem hún er stödd. 



  Fyrir nokkrum vikum stressaðist Dáð upp í þessari stöðu, gjammaði og var ekki mjög traustvekjandi.  Nú er hún gjörbreytt, sallaróleg og aldeilis óhrædd.

  Allir fjárhundar lenda í þessari stöðu hér. Í besta falli stendur kindin framan í og haggast ekki. Í versta falli ræðst hún á hundinn. Þá reynir á, hvort hundurinn  ræður við aðstæðurnar, eða kindin tekur yfir stjórnina. Hundurinn á  að  taka í snoppuna eða framan í bóginn og gefa eftir um leið og kindin gefur sig. Því miður er þetta ekki öllum hundum gefið og þeir sem lúffa eru ekki mikils virði sem alvöru fjárhundar.
  Ég reyni að láta unghundana komast hjá öllum átökum fyrst í stað, til að tefja ekki hlutina og þarna skarst ég í leikinn.  Þegar fer að líða á sumarið mun þessi nemandi bregðast snöggt við skipun og venja kindurnar af svona framkomu.

 Já, þetta tíkarstúss er alvöru. Pólitíkin er rugl.emoticon

16.04.2009 21:01

Landbúnaðurinn í augum frambjóðenda, mykjudreifingin og vinir mínir á Austurbakkanum.


  
Á framboðsfundinum um landbúnaðarmál í Borgarnesi í kvöld var tvennt nýtt fyrir mér.

 Annarsvegar hef ég aldrei mætt á framboðsfund fyrr án þess að hafa hugmynd um hvað ég ætlaði að kjósa og hinsvegar, að þarna voru aðeins tveir frambjóðendur af 6, sitjandi þingmenn.

  Framsöguræðurnar tóku nokkurt snið af þessu en það voru samt tveir nýgræðinganna sem mér fannst nú komast best frá þeim. Þau Ólína og Guðmundur Steingríms. Þó ég væri ákaflega lítið sammála Ólínu í höfuðmálunum komst hún nú samt mjög vel frá þessu og Guðmundur er gott skáld og ágætur í pontunni. Það er samt himin og haf á milli mín og sanntrúaðra frammara um framtíðarsýnina í landbúnaðarmálum.

  Það vantaði aðeins fjörið í þetta, eins og í gamla daga þegar frambjóðendurnir sem gjörþekktu auðvitað hvor annan og stemminguna á svona fundum, settu upp svona hálfgerð leikrit með hnyttnum athugasemdum um mótherjana sem svöruðu síðan með einhverju smellnu.



  Þarna var ágætlega mætt enda sumir langt að komnir og að loknum framsöguræðunum fengu framsögumenn mikið spurningaflóð til að moða úr.

  Ræðumaður kvöldsins var samt Gunnar í Hrútatungu sem tók sér ríflegan fyrirspurnartíma og var alveg í essinu sínu.

  Það sem bjargaði samt kvöldinu hjá okkur Eyberg á Hraunhálsi, var hann Pétur á Helgavatni sem sagði okkur, að það lægju fyrir vísindalegar niðurstöður um, að mykja áborin í apríl, þegar hitastigið væri undir 10° tapað ekki köfnunarefninu.

 Ég veit að þetta gleður vini mína á austurbakkanum sem voru hryggðir með því á aðalfundi búnaðarfélagsins um daginn, að ég væri í vondum málum að hafa staðið í skítadreifingu svona snemma vors. Ég þarf að komast að því hvort ég geti ekki gengið í búnaðarfélagið hjá þeim. Þeir eiga svo þrælgott dótasafn fyrir utan það hvað þeir eru skemmtilegir.


  Þeir gætu svo kannski ráðlagt mér  hvað sé skynsamlegt að kjósa í stöðunni?emoticon

14.04.2009 21:47

Slakað á um páskana. Eða þannig.


  Eftir að Maggi í Ásgarði hringdi í mig á fimmtudaginn. lá ljóst fyrir að við feðgarnir myndum ekki þurfa að láta okkur leiðast um páskana.

  Nokkrum klukkutímum seinna var skilin eftir á hlaðinu hjá mér  mykjudreifarinn hans, ásamt mykjuhræru sem mig hefur lengi langað til að prófa í haughúsinu hjá mér.

 Já , nú var tekið á því í upphræringunni. Hér voru að sjálfsögðu alvöru dótamerki í vinnu. Fjær Valtra, N141 með Duun mykjudælu sem er ykkur að segja alveg að svínvirka, og nær er það Ferguson við Duun mykjuhræruna. Nú varð  ljóst að þessi skrúfuhræra gengur vel niður í brunnana  hér og ef svo næðist í nokkra hluthafa til að fjárfesta í svona hræru með okkur, færi að verða gaman að þessu. Reyndar þyrfti að fá Óla vin okkar Mýrum til að saga tvö snyrtileg göt á hina hlið kjallarans svo þetta yrði fullkomið, en það væri minnsta málið.

  Þarna í kjallaranum biðu um 1000 rúmm. af eðalmykju  svo það var eins gott að vera með rétta dótið í höndunum. Jafnhliða upphræringunni var legið á bæn og beðið um næturfrost sem var forsenda þess að hægt væri að komast um túnið án þess að tjóna þau.



 Laugardagurinn var tekinn snemma  og það var keyrt og keyrt.   

  Húsfreyjurnar settu nú samt hnefann í borðið þegar sunnudagurinn rann upp svo við fengum ekki að njóta okkur þá, enda gekk þetta vel og næturfrostin klikkuðu ekki, nema hvað.

 Um 10 á mánudagsmorguninn var fullur sigur unninn á stóra kjallaranum og þá var Dælan umsvifalaust færð í gamla fjósið þar sem biðu um 300 rúmm.



 Það eru ekki svo ýkja mörg ár síðan það var nokkurra daga puð að tæma þann kjallara. Nú var búið að þurrvinda hann á 5 tímum.
Reyndar hafði staðið til að fá sunnlendingana (Skarna ehf), sem munu væntanlega koma hér í sveitina með niðurfellingargræjuna, til að koma mykjunni niður í jörðina, en þó við feðgarnir séum fæddir áhættufíklar tókum við ekki sénsinn á því í þetta sinn. 
 Það verður gaman að fylgjast með því hjá sveitungunum hvernig það gengur og vonandi að allt gangi upp þar.

 Ferðamenninrnir sem voru að yfirgefa Nesið seinnipart mánudags hafa ábyggilega dregið djúpt andann þegar þeir brunuðu framhjá Dalsmynnistúnunum dökkum yfir að líta í norðanáttinni.


 Og mikið rosalega er gott að þetta skuli vera búið.emoticon 

 

                                                                         

Flettingar í dag: 1158
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579851
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:26:40
clockhere