09.05.2008 04:17

Ekki blíðan og rebbinn.

 Þegar vaktin byrjaði varð það mitt fyrsta verk að sækja kuldagallann í bílskúrinn um leið og ég hugsaði með mér að ég hefði átt að lofa veðrið meira í gær. Gamla góða norðanáttin er n ú mætt á svæðið og ekki orð um það meira.

  Þegar ég var að ljúka vaktinni i gærmorgun leit ég einu sinni sem oftar á rebbaætið mitt sem er í sirka 700 m. fjarlægð ofan túngirðingar. Þegar eitthvað dökkt sást skjótast þar um móana helltist adrenalínkikkið yfir mig sem aldrei fyrr. Ég fann samstundis á mér að þarna var þrjóturinn mættur sem tvívegis í vetur hafði storkað mér með því að koma á fullri ferð að ætinu um miðja nótt . Þjóta þar fram og aftur og láta sig svo hverfa á örskotshraða áður en hægt væru að koma honum í riffilkkíkirinn svo gagn væri að.  Nú var brugðið við hart, vopnast og brunað áleiðis á bílnum að hæð sem skildi milli bíls og ætis. Þegar gægst var yfir síðustu þúfuna á hæðarbrúninni var komin styggð að Móra sem trúlega hefur heyrt eitthvað í logninu. hann var á mikilli siglingu í burt en eins og ættingjar hans gera oft  stoppaði hann á holtinu rétt áður en hann slyppi í hvarf. Leit fullur tortryggni til baka eftir að hafa stillt sér fallega upp með hliðina að mér. Hann fór ekki lengra, en færið var það langt að það rifjaðist upp fyrir mér sagan af vinunum sem voru saman á veiðum. Sá með riffilinn sagði jafnan eftir feilskot að nú þyrfti að stilla kíkinn. (Þeir sem skjóta innan við 100 skotum á ári eins og hann og ég, þurfa stundum að stilla kíkinn eftir löngu færin.)  Þeir vinirnir sáu einn mórauðan sem steinlá síðan á einhverju gígannísku færi. Þá varð vininum að orði. Hann er skemmtilega vitlaus kíkirinn hjá þér núna.

08.05.2008 03:54

Vorstemmingin.

 Við létum samstilla sæðisærnar þrátt fyrir annmarkana sem fylgir því, sem eru fleiri uppgöngur , minni frjósemi o.fl. Þær voru síðan sæddar 14 des. Sama dag var hrút sleppt í gemlingana. Hrútunum var síðan sleppt í féð 19 des. Þannig að núna eru síðustu sæðisærnar að bera (einlemburnar) og hinar að byrja.  Það er því fylgst með þeim allan sólarhringinn og vaktir skipaðar. Þegar akrarnir eru svona seint til verður þetta dálítið meira puð en annars og fullt að gera. Tíðarfarið er svo alveg meiriháttar þessa dagana. Það er ekki nóg með að grasið sjáist spretta, heldur heyrist það spretta. Það eru nú að vísu ekki nema útvaldir sem heyra það. Síðan er ekki ónotalegt að rölta hér á milli húsanna í rjómalogni og ótrúlega fjölbreytilegum fuglasöng þegar fer að birta af degi og kyrrðin að öðru leiti algjör. Í þessu annríki kemur sér vel fyrir bóndann að hafa safnað upp smá aukamassa yfir veturinn því nú gengur á forðann og óvíst að hægt verði að ná stórbændaþyngdinni upp fyrr en næsta vetur, því sumarið verður örugglega alltof stutt fyrir allt það skemmtilega sem á að gera þá ásamt hinu.(þessu leiðinlega).
  Ég velti því svo stundum fyrir mér hvernig maímánuðurinn væri nú, ef ég væri  að vinna 5 daga  vikunnar frá 9 til 5. Skyldi ég fíla það???

07.05.2008 03:53

Border Collie ræktun, Týri og áhættufíkillinn.

  Stundum hringir í mig fólk í hvolpakaupahugleiðingum og spyr mig ýmissa spurninga. Það er kannski með ákveðið got í huga eða spyr hvort ég viti af góðu goti einhversstaðar. Ég er löngu hættur að gefa comment á got nema ég þekki vel til foreldranna og er oftast með staðlað svar um að ef foreldrar hvolpanna séu góðir í vinnunni sé líklegt að hvolparnir verði nothæfir. Mat hundseigendanna á því hvort hundurinn þeirra sé nothæfur eða góður er síðan svo misjafnt að þetta er í raun ekkert svar.
 Ég þverbraut hinsvegar þessa góðu reglu þegar ég ákvað að halda Össu minni undir algjörlega ótaminn hund, Týra frá Daðastöðum. Þetta var samt ákvörðun tekin með einbeittum brotavilja, eftir að hafa farið yfir málið með ræktanda hundsins, sem ég tek mark á í ræktunarmálum. Faðirinn , Dan er innfluttur en ég hef séð tvær tíkur undan honum í tamningu og litist vel á. Þó hundurinn væri alveg ótaminn og stjórnlaus fór ég samt með hann í kindur áður en " ræktunarbrotið " var framið og hef síðan farið aftur með hann  eftir að hafa náð nokkurri stjórn á dýrinu. Týri er kominn með gríðarlegan vinnuáhuga og fer nokkuð vel að hlutunum. Hann er með meiri fjarlægð en ég átti von á, reyndar mjög góða fjarlægð og hélt hópnum ákaflega vel saman. Ákveðnin er frábær og þegar ein kindanna gekk að honum til að kanna stöðuna (styrk hundsins) beið hann átekta og óð síðan í hausinn á henni á hárréttu augnabliki. Ég hef reyndar aldrei séð slík tilþrif hjá hvolpi áður. Hann stökk aldrei í hópinn eða beit í öðru tilviki í þessi skipti hjá mér. Mér fannst hann hinsvegar dálítið ör í daglegri umgengni.  Reyndar tók mig tvo daga að ná góðu sambandi við hann sem er mjög óvanalegt. Eftir að það náðist var hann fljótur að læra grundvallaratriðin í góðum hundasiðum .    Þetta er hundur sem ekki er mikið hafður laus og oft finnst mér að þeir séu trekktari en hinir sem aldrei eru bundnir. (Mæli samt ekki með því.)  Rétt er þó að hafa í huga að 3 lóða tíkur á hlaðinu hafa ekki róandi áhrif kröftuga hunda.
 Það stefnir síðan í metár í hvolpaframleiðslu og ég hef aldrei vitað af jafnmörgum gotum í gangi í mínum " hundavinahóp" eða a.m.k. sjö. Nú þarf því að tala upp kaupendahópinn svo menn fari í að endurnýja miðlungsdýrin og fái sér eitt "alvöru" svo ekki verði verðhrun á markaðnum.
 
       En ég er semsagt kexruglaður áhættufíkill í ræktunarmálunum.
 
Flettingar í dag: 446
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 953
Gestir í gær: 86
Samtals flettingar: 436081
Samtals gestir: 40255
Tölur uppfærðar: 12.5.2024 10:22:47
clockhere