22.11.2011 21:49

Að rækta garðinn sinn. - nú eða búpeninginn.


   Í sveitinni þurfa ótal hlutir að ganga upp svo allt leiki í lyndi.

 Einn af grunnþáttunum er ræktunin sem er ákaflega margbreytileg, allt frá hundum til akuryrkju.

 Í gömlu góðu dagana tók maður þessu létt í sauðfjárræktinni. Setti á undan uppáhaldskindunum og eftir allskonar huglægu mati, litum og nefndu það bara.

 Svo tók alvaran við og sett voru allskonar mörk, lágmörk á plúsana og hámörk á mínusa þess sem líflömbin þurtu að hafa til brunns að bera. Í den var nú kjötmatið svo einfaldara og látlausara,  enda  datt engum í hug að éta fitulaust kjöt og annan óþverra sem menn jukka í sig í dag með tilheyrandi heilsuleysi.

 Ein af fyrstu kröfum bóndans við ásetninginn var að ekki yrði settur á einlembingur.
Þetta var gert að slíku grundvallaratriði að það er fyrst nú, síðustu árin að einlembingar eru skoðaðir við ásetninginn enda fljótlegt verk.
Það er svo gaman að skjóta því inn að nú er rætt i fullri alvöru um að hætta að setja á fleirlembinga. (þrí og fjórleminga.)



 Þegar tölvutæknin gat farið að meta kindurnar saman á búinu var farin að færast harka í bóndann ( og lífsbaráttuna)  og lömb þeirra sem voru undir meðaltali í afurðum voru sett út í kuldann.

 Sem betur fer er fjárbóndinn í mun betri stöðu en kúabóndinn við að ná nokkuð skjótum framförum í ræktuninn þar sem hann setur yfirleitt ekki á nema 20 - 30 % gimbranna.

 Kúabóndinn býr við afar þröngan kost í þessum efnum vegna lágs meðalaldurs kúnna og margir verða að setja á hverja kvígu hvort sem móðirin er nothæf eða ekki.
 Sem betur fer hafa  stórstígar framfarir í fóðrun og meðferð kúnna bjargað þvi sem bjargað verður í afkomunni þar. 



Til að særa ekki stolt kollleka  minna í landnámskúatrúflokknum ræði ég þetta nú ekki frekar.

 Sauðfjárræktin er hinsvegar orðin bráðskemmtilegt áhugamál hjá ótrúlegum fjölda fólks og framfarirnar miklar frá ári til árs. Styttist  hratt í að maður þurfi að nota smjör með kótelettunum.

 Á dögunum var sest við tölvuna og hún látin raða upp ám búsins eftir kjötgæðum lambanna( gerð og fita). Síðan var skoðuð frjósemi og mjólkurlagni.

 Þær 25 ær sem komu best út úr þessu, voru síðan samstilltar og munu verða sæddar með úrvalshrútum á öðru gangmáli eftir samstillinguna.



 Þær láta ekki mikið yfir sér þessar toppær búsins, líkar húsbóndanum í fádæma hógværð og lítillæti.

Best að hafa ekki fleiri orð um það.

 
 

19.11.2011 22:26

Fjöllin,féð og bongóblíðan.

  Loksins komst ég uppfyrir túngarðinn og var það orðið ákaflega tímabært.

 Amman og ömmustelpan upplifðu það hinsvegar í gær með lofsverðum árangri.



 Þetta átti að verða lokakikkið á Núpudalinn.

Hér er Seljadalurinn 1 af fimm sem ganga inn í Hafursfellið
.


Norðan hans er Þórarinsdalurinn sem endar í Núpuskarðinu  sem er norðurmörk Hafurfellsins.



 Og svona líta þeir félagarnir út saman séðir ofanaf Hvítuhliðarkollinum.        

 

Þegar ég sneri mér í hina áttina blasti þetta við.



 7 kindur á beit. 3 af einhverri óprenthæfri forystubastarðslínu og ein hvít sem 3 lömb fylgdu.    



 Ég kannaðist vel við þessar heilaskertu frá fyrri haustum  og vissi að þær ættu enga samleið með lömbunum ef ætti að koma þeim til byggða, enda á því að þeir sem eiga svona fé og sleppa því til fjalls hljóti að vera tilbúnir að kosta sérferðina sem þarf eftir þeim.



 Hér tókst Dáð að stoppa þau hvítu af og síðan var tekin góð pása  því tvö lambanna voru farin að letjast verulega en langt eftir niður.     
 Það dugði til að þetta komst til byggða ásamt tveimur ám sem bættust við á leiðinni.

Já, vorblíðan þessa dagana er ágætis uppbót á haustið.

16.11.2011 22:39

Rebbaveiðin og grenjavinnslan í sveitinni.

Það er hátt til lofts og vítt til veggja fyrir rebbaflóruna í Eyja og Miklaholtshreppi.

 Þar eru þekkt tæplega 70 greni og þó þau sem oftast eru í ábúð séu ekki mörg, er samt farið á um 40 greni árlega.


 Í umræðunni skiptum við þeim í fjalla og láglendisgren og á tímabili voru fjallagrenin alveg dottin út en nú eru þau að koma inn aftur.

 Á þessu ári fækkuðum við sem erum ráðnir í grenjavinnsluna um 45 dýr í refastofni sveitarfélagsins.  
 Það flækir stöðuna hjá okkur að nokkur óþekkt gren eru á svæðinu og það er skýring þess að af þessum 45 dýrum var 31 fullorðið.


 Stundum fær maður fyrirvaralaust fréttir af hlaupadýri og einstaka sinnum gengur dæmið upp.

 Eftir að hafa lifað og hrærst í þessum málaflokk árum saman held ég því fram að hér sé ágætt jafvægi í villtu flórunni  þó mófuglinn sé ofnýttur á afmörkuðum  svæðum þar sem óþekkt gren komast upp árlega
.

 
      Þessi rjúpa hefur vafalaust verið tekin á hreiðrinu og eggin nýtt á staðnum.

Nú er mikil umræða í gangi um tilgangsleysi þess að halda úti skipulagðri refaveiði.
  Í þeirri umræðu finnst manni kannski dapurlegast þegar hámenntað fólk í þessum málaflokkum heldur fram skoðununum sem maður veit að eru alrangar og í besta falli barnalegar.
 Sláandi og dapurleg dæmi um slæma fjárfestingu skattpeningsins.

  Það verður  einfaldlega þannig, þar sem skipulögð refaveiði leggst af að það harðnar á dalnum hjá rebbanum þegar fjölgar í stofninum. Þá eru það harðskeyttustu dýrin sem taka völdin og sjá um viðhald stofnsins. Þau dýr sem stöðugt hafa verið grisjuð út af veiðimönnum.
 Það er þessi " náttúrulega " og væntanlega umhverfisvæna  ræktun sem mun skapa dýrbítana og öflugustu skaðvaldana í náttúrunni.

 Það er laukrétt að refurinn er einn af frumbyggjunum og á að sjálfsögðu sinn skýlausa rétt í landinum. Hann verður samt að sjálfsögðu að lúta því lögmáli eins og aðrir byggjendur á skerinu að rétturinn er ekki takmarkalaus.


                                                                                                  Mynd Keran Ólason.
 Að vitna í það að hér hafi verið náttúrulegt jafnvægi  í upphafi byggðar og takmarkalaus viðgangur refastofnsins hafi verið í góðu lagi er rökleysa.
 Einfaldlega vegna þess að það umhverfi  er löngu horfið og umhverfisumræðan er allavega ekki komin á það stig, að farið sé að ræða um að snúa klukkunni afturábak til þess tíma.
Öll skynsamleg umræða um vernd og hóflega nýtingu lands og sjávar er alltaf jafn þörf en öfgaöfl,  sem því miður hafa nú um stundir of mikil áhrif með þjóðinni fá vonandi sem fyrst völd við hæfi.

Já, svo mörg voru þau orð.

Flettingar í dag: 1158
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579851
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:26:40
clockhere