12.06.2012 22:10

Að gelda grísi og drekkja minkum.

 Sem betur fer eiga málleysingjarnir sér víða öfluga málsvara því þó meðferð og aðbúnaður dýra eigi að fara sífellt batnandi er stundum pottur brotinn..

 Í auglýsinga og sýndarmennsku nútímans mega velunnarar  dýranna þó gæta sín í hita leiksins, ef umræðan á ekki að snúast upp í andhverfu sína og spilla fyrir málstaðnum.

Það er  betra að lágmarksþekking á umræðuefninu sé fyrir hendi.  Þegar er svo verið  að tala um einstakar aðgerðir eða aðferð við aflífun sé bent á betri kosti en þá sem fellur ekki viðkomandi í geð.

 Gelding er orð sem vekur óhugnað hvers manns en þegar talsmenn dýraverndar eru farnir að setja geldingu nokkurra daga grísa upp sem mál málanna í dýravernd, gætu þeir sem til þekkja, haldið að nú sé ástand dýraverndar á Íslandi orðið harla gott.

  Þessi aðgerð er nefnilega sáraeinföld og tekur örstuttan tíma. Tvær skinnsprettur með flugbeittum hníf , kúlurnar fjarlægðar og spreyað sótthreinsandi yfir.
  Þeir sem vilja láta taka mark á sér í þessu krefjast þess að grísinn verði tekinn upp, staðdeyfður, settur niður aftur þar til deyfingin fari að virka og síðan tekinn upp aftur og aðgerðin framkvæmd. Þeir sem ég hinsvegar tek mark á í málaflokknum, segja mér að aðalkvalræðið fyrir grísinn sé meðhöndlunin sem honum líki ákaflega illa og er helmingi meiri í seinna tilvikinu.

Á Íslandi eru mörkuð um 850 - 900.000 lömb á ári. Auk  marksins er sett plastmerki í eyra lambanna.. Ég er gamalreyndur í þessu og dýralæknirinn sem ég ræddi málið við taldi  að taka upp lamb, marka það og númera  væri kannski ámóta aðgerð og gelding á nokkurra daga grís.
 
Það ágæta fólk sem sem startar umræðunni þessa dagana og fer býsna bratt, snýr sér kannski næst að þessari ósvinnu. Það stefnir kannski í  að sauðfjárbændur fái svæfingalækni  til aðstoðar við að marka og númera. Verst að lömb þola illa svæfingu svo reikna má með talsverðum afföllum.

Nú er í sjónmáli lyfjagjöf sem leysir grísageldingu vonandi af hólmi svo þá missir sá glæpurinn sig. 

  Og það er vitnað í  1 gr. dýraverndarlaganna sem er svohljóðandi.

 
Markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og  sjúkdóma.

Svo mörg voru þau orð.

 Ef túlka á þessa grein jafn þröngt og elítan virðist ætla sér að gera, lenda menn óðara í margskonar krísum sem ekki sér fyrir endann á.

 Staðreyndin er sú að enginn kemst gegnum lífið hvorki tví eða fjórfætlingur án þess að verða fyrir sársauka og óþægindum.

Svo ég haldi mig við sauðkindina þá eru t.d. smalamennskur og réttir ágætt dæmi um daga sem eru sauðkindinni hrikalega erfiðir. Ekkert mál fyrir " sjálfskipaðan " lögfræðing og álitsgjafa fjölmiðla í dýraverndarmálum að benda á að," vanlíðan, hungur, þorsti, sársauki, ótti og þjáning " fylgi oft haustraginu.

 Minkurinn hefur mikla sérstöðu í íslenskri náttúru.

 Annarsvegar er hann aðskotadýr þar, en það er þó fyrst og fremst yfirgengileg grimmdin sem setur hann í algjöran sérflokk.

Allir þekkja dæmi þess þegar hann kemst inní hænsahús og drepur allan hópinn.

 Að sjálfsögðu á frekar frumstæðan og grimmilegan hátt enda trúlega illa lesinn í lagabálkum um dýravernd.

Nákvæmlega þannig gengur hann síðan um lífríkið úti í náttúrunni.

Það er nokkur  samstaða um það hjá þeim sem enn halda áttum í dýra og náttúruvernd að halda honum sem mest í skefjum og sér þess t.d merki í lögum um verndun og veiðar villtra spendýra.

 Á umræðunni nú, virðist sem fólk haldi að hægt sé að ganga að minkum og aflífa þá samkvæmt bókinni á  sársaukalítinn hátt. 

Án þess að sjálfskipaðir álitsgjafar í málinu tíundi hvað af þeim aðferðum sem notaðar séu falli undir þessar væntingar þeirra.

 Minkurinn er afar lítið sýnilegt sem veiðidýr . Það er því miður sjaldnast  í boði  að aflífa hann á skjótan og öruggan hátt eins og til dæmis refinn.

 Hann er mikið veiddur í gildrur sem eru með ýmsu móti. 
Algengastar í dag eru Glefsurnar sem ef vel tekst til drepa hann strax. Þær eru samt ekki öruggar með það.
Önnur algeng og áhrifarík veiðiaðferð er að leita hann uppi með sérræktuðum hundum. 
Rétt að hrella ekki ofurviðkvæmar  kaffi latte unnendur nánar með því.

 Í nokkur ár hafa svokallaðar minkasíur verið að hasla sér völl við veiðarnar. Þær eru lagðar á kaf í vatni og lendi minkurinn í þeim kemst hann ekki til baka og drukknar.
 
Ég er þeirra skoðunar að ef  þessar gildrur eru  rétt lagðar, séu þær kannski öruggasta og mannúðlegasta veiðiaðferðin. Ég myndi allavega frekar vilja drukkna í rólegheitum einn með sjálfum mér frekar en vera hundeltur og grafinn út úr einhverrri holu eða þjást í glefsu eða kassagildru.

Sætur er sjódauðinn var haft eftir þeim sem voru lífgaðir við eftir að hafa komist yfir í annan heim í sjávar eða vatnaslysum.

En ég hef náttúrulega ekkert vit á þessu.


 
 

10.06.2012 06:01

Gamla gróðurhúsið.

Einhverntíma í árdaga eða fyrir hroðalega löngu tókum við okkur til ég og eldri bræður mínir og komum upp heljarmiklu gróðurhúsi fyrir móðir okkar.

 Ég er ekki frá því að Göslarinn hafi verið hönnuðurinn en þetta var aldalsmynnskt hús þar sem bogagrindin var beygð í höndunum og soðin saman á staðnum og annað eftir því.



 Í framhaldin hófst mikil saga gróðurhússins því það fór illa saman vindhraði svæðisins og ending plastsins sem átti að veita viðkvæmum uppvextinum innandyra skjól.

 Til að gera langa sögu stutta verður sú þróun ekki rakin hér en að lokum var sett net yfir bogana og ofurplast frá Jötun Vélum eða forvera þess yfir það. Yfir þetta var síðan sett annað net.

 Eftir þessa aðgerð skiptir engu hvort vindhraðinn fer í 10 eð100 m/sek.

 Síðan hefur húsið staðið af sér jarðskjálfta, eldgos og hvern vestanhvellinn af fætur öðrum auk norðaustanáttarinnar þegar hún fer hamförum hér.
 
 Ekkert mál.

Húsið svignar að vísu mjúklega í allar áttir en stendur þetta allt af sér að öðru leyti.

 Nú er móðir mín flutt að heiman og nýting hússins hefur verið í lágmarki í mörg ár.

Húsfreyjur svæðisins eru hinsvegar orðnar mjög áhugasamar um allskonar grænfóður og voru farnar að hafa orð á því að rétt væri að nýta þetta húsnæði í ræktuninni.


 Þar var helsti þrándurinn í götu að gegnum áratugina hafði safnast upp í gróðurhúsinu gríðarleg verðmæti af ýmsum toga. Reyndar var það svo að þegar bændurnir  fóru (stundum)  yfir 6 ára áætlunina  og horfðu á þetta dæmi komið er framúr áætlun í nokkur ár, settu sig í herðarnar og ætluða að vaða í verkið féllumst þeim jafnoft hendur þegar í húsnæðið kom.



 Nú var hinsvegar farið í málið af mikilli ákveðni, Sjeffer nágrannans fenginn og öllu mokað út og skafið niður á móbergsklöppina.



 Sett upp vinnuaðstaða innst og besta gróðurmold bújarðarinnar fundin ásamt fornu taði úr haug sem láðst hafði að koma á túnin og var að verða að hól í landslaginu. Þessu var ekið heim og ýmist komið í hús eða að því.

 Svo er það spurningin hvernig verktökunum gengur að þrauka af sumarið þegar grænfóðrið verður búið að yfirtaka matseðilinn??

08.06.2012 15:55

Lykla Pétur og ég.

 Ég er auðvitað alveg klár á því að það verður góður dagur hjá Lykla Pétri þegar ég kem skokkandi í fyllingu tímans. Og hann  verði snöggur að opna og gefa mér einn kaldan meðan ég blæs mæðinni.

 Þessa dagana er ég í nokkurskonar hlutverki hans í hliðinu á fjallagirðingunni lítandi rannsóknaraugum á  kindahópana sem bíða þess í ofvæni að komast í fjallasæluna.



 Reyndar eru þær kannski misáhugasamar um fjalladýrðina því sumar eiga sér þá ósk heitasta að fá að standa í túnunum allt sumarið, Aðrar láta sig dreyma um  að dúllast við kippa upp plöntum úr skjólbeltum og skógrækt minnar heittelskuðu,  nágrannanna eða eitthvað þaðan af verra.



 Rétt eins og Lykla Pétur tek ég mér stundum góðan tíma í að vega og meta þessa misjöfnu hjörð áður en hún sleppur í gegn en samt í talsvert öðrum tilgangi .



   Þessi úttekt á uppskeruhorfum sauðfjárræktarinnar þetta árið er með ánægjulegasta móti og allt útlit fyrir að nú stefni í góðan árgang í þessari framleiðslugrein hér.



 Þessi geislað nú ekkert af áhuga á fjallaferðum en upp fór hún samt og þrælrafmögnuð túngirðingin bíður hennar ef túngrasafíknin verður henni ofviða.



 Það er mun hlýlegra fyrir þær að yfirgefa láglendið núna en fyrir ári síðan þó að allt sé nú reyndar að skrælna nú sem þá.



 Næsta mál á dagskrá er svo grenjavinnslan sem er alveg að bresta á.
Flettingar í dag: 665
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579358
Samtals gestir: 52634
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 10:04:13
clockhere