14.11.2011 23:02

Píla frá Dalsmynni.

Það eru 11 mánuðir síðan Píla yfirgaf ættaróðalið um átta vikna aldurinn.

Það er gaman að því að þegar hún var skilin hér eftir í vikunni kemur ekkert henni á óvart hér á svæðinu. Hvorki ræktandinn né umhverfið. Rétt eins og hún hefði farið í gær.



 Á þessum 11 mánuðum hafa hinsvegar orðið mikil umskipti í hundahaldinu og þó Pílu komi ekkert á óvart á þeim slóðum sem hún eyddi fyrstu 8 vikum æfinnar er alveg ljóst að hún saknar einskis, því sem betur fer fyrir hundana eru þeir ekki að burðast með þannig heilabrot.

 Hún saknar örugglega ekkert Tinna föður síns sem  var alltaf tilbúinn að bregða á leik með hvolpahópnum og var alltaf mjög gætinn þegar hann þurfti eitthvað að hægja á þeim.

 Og Vask gamla sem sýndi hvolpununum enga linkind, beit fyrst  og urraði svo, og hann beit til að meiða ,hefði hún strax umgengist af mikilli virðingu væri hann enn hérna megin móðunnar miklu..

 Skessa gamla sem umbar langömmubörnin af mikilli þolinmæði myndi trúlega hafa fengið upprifjun á smá áreiti.

 Hvernig hún hefði komið fram við móðurina hana Snilld er svo spurning sem aldrei verður svarað því hún er flutt vestur í Ísafjarðardjúp þar sem hún fer á kostum við að ná eftirlegufénu.

 Já af þeim 5 fullorðnu hundum sem voru hér þegar Píla yfirgaf svæðið fyrir 11 mán eru fjórir horfnir á braut og aðeins Dáð eftir ásamt tveim tíkum í uppvexti.


 Píla hefur vaxtarlag móðurinnar, ekki mjög stór en sterklega byggð og í fyrsta tímanum gekk allt að óskum.

 Hún er komin með fínan áhuga og er ein af þeim týpum sem manni hættir við að vera kannski aðeins of kröfuharður við, vegna þess manni finnst hún vera komin lengra í tamningunni en hún er.



 Hún var í dálitlum skæruliðastellingum til að byrja með en um leið og hún áttaði sig á að það féll ekki í góðan jarðveg, víkkaði hún sig og lítur út fyrir að verða með góða vinnufjarlægð.



 Þegar maður er orðinn ja, ekki barnungur lengur, finnst manni það alltaf svo mikils virði að geta rakið sig áfram vafningarlaust í tamningunni án þess að þurfa að byrja á að vinda ofan af einhverjum vandamálum.
Fyrsti tíminn í nokkurra vikna námsdvöl Pílu hér gat eiginlega ekki gengið betur, hvernig svo sem framhaldið verður.

Já Já. Þetta er algjörlega hlutlaust álit.

08.11.2011 20:44

Veðurlottóið, Sá stóri að hafast?.

 Þó haustið hafi verið hundleiðinlegt eða allavega tíðarfarið, hefur það þotið hjá á ógnarhraða.

Mykjudreifing og plægingar hafa algjörlega setið á hakanum og þessir eldri og lífsreyndari sem hafa ítrekað frosið inni með hvorutveggja gegnum tíðina var hætt að lítast á blikuna.

 Það kom því bráðskemmtilega á óvart að um leið og mykjuhræringu var lokið, bregður allt í einu til betri tíðar og meira að segja hægviðrið sem er enn vinsælla en vanalega þegar að mykjudreifingu kemur, virðist vera komið til að vera.



 Það var byrjað á fullu í dag og stefnt að því að tæma bæði haughúsin hæfilega fyrir helgina svo þau dugi fyrir áburðarframleiðslu vetrarins.



  Í framhaldinu verður svo vonandi hægt að taka góða törn í plægingum áður en harðindin hellast yfir okkur af fullum þunga. Já, það þarf að vísu að þorna aðeins um fyrst og ekki væri verra að ná því sem eftir er af hálminum en ekki hefur gefið í það enn.

 Í fjósinu er að sjálfsögðu alltaf eitthvað að gerast og önnur 40 l. kúin á bænum sem lagðist í doða alveg uppúr þurru, komst sem betur fer á lappirnar aftur.

 Og nýmunstraður dýralæknir okkar Snæfellinga hann Hjalti, var ræstur út í morgun til að ná kálfi í heiminn. Kálfurinn var dauður, trúlega fyrir nokkrum dögum og er sá þriðji í vetur sem kemur burtkallaður, í þennan heim.
Kálfadauði fyrir burð er annars frekar óalgengur hér á bæ.

 Til marks um endalausan fjölbreytileika sveitalífsins var ég svo ræstur út eftir hádegið með miklum látum af Hestamiðstöðvarfólki, til að aðstoða við að ná hryssu uppúr skurði.
 Þarna var vant og harðsnúið lið á ferðinni og björgunaraðgerðir tókust fljótt og vel, Hryssunni náð upp, troðið inn í kerru og beint í gjörgæslu inn í hesthús.

Það var hinsvegar svo af henni dregið, að í þessum skrifuðu orðum er óljóst hvort hún hefur þetta af..

Já, enginn tími til að láta
sér leiðast í dag.

06.11.2011 22:33

Olíujurtin Akurdoðra. Taka 1.

Ég hef fylgst með umræðunni og tilraunum með ræktun á olíurepjunni án þess að hugleiða að taka þátt í því.

 Ástæðan er eingöngu sú að hér hefur verið talið, að ekki kæmi til greina að vera með einæra repju í ræktun þar sem sumarið
dygði ekki til að hún næði þroska.

 Tvíær akurjurt er eitthvað sem er ekki mjög freistandi að mínu mati, ýmissa hluta vegna.

Þegar birtist einær planta ( Camelia eða Akurdoðra) sem talið var líklegt að næði að þroskast á meðalsumri, væri þurftarlítil á áburð og ekki mjög vönd að virðingu sinni hvað jarðveg snerti ákváðu Dalsmynnisbændur að prófa hana.

 Þetta var afgangsstærð í akuryrkjunni og ekki tekinn tími til að sá henni fyrr en byggið var komið niður eða 15 maí.
 Sáð var í  rúman ha. af mýrarakri sem var nýr í ræktun eða aðeins verið sáð í hann byggi árið áður. Þá hafði verið borinn á hann búfjáráburður og var aðeins  notað 100 kg./ha af köfnunarefnisáburði ( 27 % N) á Doðruna. 

 
Doðran fór alveg afspyrnurólega af stað , hér er komið fram í júní og byggakurinn t.v. sem sáð var í um sama leyti kominn á fulla ferð( a.m.k. miðað við tíðarfarið).



 Ekki mjög gæfulegt en það var búið að vara mig við að plantan væri hin rólegasta fram í júni en gæfi svo duglega í þegar hún færi af stað fyrir alvöru.



 Það reyndist orð að sönnu og svona leit akurinn út á myndvænum kafla 13 ágúst og blómblöðin farin að falla.

 Akurinn var hinsvegar ákaflega misjafnlega sprottinn án þess að ég gæti með nokkru móti talið mér trú um einhverjar sennilegar skýringar á því.



 Bæði virtist fræið hafa verið að spíra á misjöfnum tíma og á blettum virtist sáningin hafa algjörlega mistekist. Þar sem akurinn var tiltölulega nýbrotinn og á köflum frekar grófunninn var hallast að því að þar lægi hluti skýringanna.



 Hér er blómið að mestu farið (13 ág.) plantan orðin um 90 cm há og þessi bletturinn allavega nokkuð álitlegur.

Þar sem ekki hafði verið gert ráð fyrir neinni tölu á tekjuhlið tilraunaáætlunarinnar var ekkert verið að stressa sig á uppskeru akursins enda tíðarfarið vægast sagt bíbölvað og byggið látið hafa forgang.
 Einn af nokkrum kostum Doðrunnar átti að vera að hún stæði af sér öll veður og héldi fræinu vel fram á veturinn.
  Þetta hljómaði ákaflega vel í eyrum Snæfellingsins og ekki var það verra að álftir og gæsir hefðu engan áhuga á að nýta sér plöntuna með neinum hætti.

 Þetta með áhugaleysi fiðurfénaðarins reyndist rétt, en móti kom að eftir að ullarpöddurnar komu á svæðið höfðu þær gríðarlegan áhuga á að nýta sér annan gróður akursins með tilheyrandi troðningi.

 Kenningin um að plantan stæði af sér rok og héldi fræinu fram á vetur þó fullþroskað væri, er hinsvegar( því miður ) flökkusaga sem stenst ekki.

Þegar akurinn var tékkaður í nóv.byrjun var allt þroskað fræ fallið af plöntunni.

Og eins og segir hjá alvöru tilraunagúrúum þá liggur nú fyrir að vinna úr gögnum tilraunarinnar og ákveða framhaldið.

Reyndar er ein stærsta spurningin sú hvort ég losna nokkuð við akurdoðruna úr þessum akri næstu árin.

Já, olíuævintýrið er bara rétt að byrja.
Flettingar í dag: 793
Gestir í dag: 78
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579486
Samtals gestir: 52638
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 11:31:18
clockhere