04.01.2011 22:58

Móalingur. - Víða um fjöllin drýgðum dáð/djöfull góðir saman.


 Það var um 1960 sem Móalingur kom í heiminn. Hann var dökkur til að byrja með. siðar steingrár og endaði hvítur.

 Hann var nokkurra daga gamall þegar önnur hryssa á bænum missti nýkastað folald og þetta endaði þannig að hann gekk undir báðum hryssunum.

 Þær gerðu ekki endasleppt við hann því undir þeim báðum gekk hann næstu tvö árin.

Þrátt fyrir þetta varð hann ekki nema meðalhestur að stærð, frekar stuttur og bolmikill, hálsstuttur en fangreistur í reið.

 Það var farið að leggja við hann fjögurra vetra því margt benti til þess að hann yrði öflugur og erfiður í tamningu.
 Móalingur var skapharður, ákaflega ör/kvikur og varð strax mjög viljugur. Hann var samt alveg hrekklaus og mesta furða hvað hann hlýddi taumhaldinu enda mikið teymdur í upphafi tamningar eins og löngum var gert heima , sérstaklega ef eitthvað þurfti að hafa fyrir tryppunum.

 Hann var mikill brokkari að upplagi , ferðmikill og mjúkur á brokkinu þegar hann hamdist á því.
 Þegar móðurinn var sem mestur á honum hamdist hann samt ekki á neinum gangi, heldur víxlaðist áfram með miklum gusugangi með makkann í fangi knapans og stutt í rokuna ef taumhaldið var gefið eftir.
 Ég var ekki hestvandur á þessum árum og þó faðir minn ætti þann steingráa kom að því að
ég lagði hann undir mig að mestu.


 Móalingur t.v. Glaumur t.h.                                                                    mynd Elín Þorsteinsd.

 Þessum mikla vilja fylgdi svo alveg óhemju þrek og úthald og hefur hann væntanlega búið að uppeldinu fyrstu 2 árin.
 Þrátt fyrir ýmsa annmarka og skort á reiðhestshæfileikum sem ég geri kröfu um í dag fannst mér nokkuð til hans koma.
Hann var algjörlega hiklaus að fara allt sem ég beindi honum að og ekki þurfti að hvetja hann, aðeins að slaka á taum og það var vaðið út í hvað sem fyrir var.
Eins og aðrir mínir bestu smalahestar vissi ég aldrei af honum í taumi ef eitthvað þurfti að ganga með honum. Hann fylgdi mér eins og skugginn án þess að koma við mig eða taka í taum.
 Ég var stundum dálítið ófyrirleitinn á þessum árum og ekki alltaf farið rólega.
Seinna velti ég því fyrir mér að eitthvað hefði vakað yfir okkur þegar tæpast var farið.

 Móalingur var fyrsti hesturinn sem ég smalaði með í Tungunum og ekki ótrúlegt að hann hafi verið fyrsti hestur í Íslandssögunni að fara þar um í leit. Það átti við um fleiri svæði.
 Það var í smalamennsku á Núpudalnum sem ég sé kindur vera að tapast hátt sunnaní Dalsmynnisfellinu og góð ráð voru dýr.
Þá var hleypt upp hlíðina uppað klettum og síðan skellt sér upp Axlargjána sem ég hafði nú aldrei farið hvorki fyrr né síðar.



  Ég var ákaflega feginn þegar við stóðum á brúninni, blésum mæðinni og kíktum niður gjána.
En ánægjutilfinningin þegar við snerum hópnum af villu síns vegar var hinsvegar nokkuð sterk.
 
  Og þeir eru ekki margir klárarnir sem ég fundið þörf fyrir að kveðja í bundnu máli.


     Móalingur

Aldrei saman sýndum kíf.

Söng oft hátt í grundum.

Þegar okkur lék við líf.

Léttan fórum stundum.

 

Á óveg varstu aldrei kveif.

Oft í smalaskaki.

Þar sem að ég klungur kleif.

Komst þú fast að baki.

 

Ófærð fleyttumst yfir hratt.

Óðfús hroðann renndi.

Þó að eitt sinn færum flatt.

Fátt það okkur kenndi.

 

Taum ei slaka mátti í mund.

Mjum fjöllin drýgðum  dáð,

djöfull  góðir saman.ög þú vildir ráða.

Skaphörku ei skorti í lund,

skjótur varst til dáða.

 

Mörg var tvísýn hildin háð.

Að harkinu var gaman.

Víða 

                             sg.

02.01.2011 09:24

Hross og áramót.

Hross og áramót fara oftast illa saman og miskunnarlaus reynslan hefur kennt Dalsmynnis og Söðulsholtsbændum það rækilega.

 Eftir að hafa smalað þeim hrossum sem ekki eru nú þegar á húsi í gerðið í Söðulsholti,
yfirgáfu hrossahirðarnir sveitina.  Mér  var  falin umsjón og ábyrgð hestamiðstöðvarinnar fram á seinnipart nýársdags.

 Hrossahirðarnir hurfu hins vegar á vit  stórsteika og ofdekurs norður í Bitrufjörð.



 Það var rólegt yfir hópnum við kvöldgjöfina þrátt fyrir að síbyljan í Bylgjunni dyndi í eyrum þeirra og flóðljósin héldu gerðinu albjörtu.



 Reyndar fannst mér á innihrossunum að Bylgjan vekti ekki mikla hrifningu en um morguninn voru þau búin að taka hana í sátt.

 Ég lét mér því nægja að lækka í græjunum í morgungjöfinni svo þau héldu þessum nýfengnu lífsgæðum aðeins inn í nýja árið.

 Hrossunum í gerðinu var hinsvegar komið í gjafahólfin á ný með fyrstu skímu.


                              Folöldin óþreyjufull að komast í hólfið sitt á ný ásamt mæðrunum.

Svo er stefnt að því að nota innreksturinn vegna þrettándans til ormalyfsgjafar/sprautunar.

01.01.2011 00:05

Áramót.


  Lesendur heimasíðunnar nær og fjær fá bestu óskir um gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir innlitið á liðnu ári.






 Ekkert baksýnisspegilgláp heldur setja stefnuna bara áfram og upp úr öldudalnum á nýja árinu.
Flettingar í dag: 331
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 953
Gestir í gær: 86
Samtals flettingar: 435966
Samtals gestir: 40236
Tölur uppfærðar: 12.5.2024 06:25:21
clockhere