Færslur: 2009 Janúar

30.01.2009 22:42

Stjórnin???


   Frammararnir mega passa sig á að eyða ekki of miklum tíma  í að reikna út á puttunum hvað á að gera, því allir vilja fá stjórn sem fyrst.

  Það er nógur tími til að karpa um málin þegar á að fara að leggja þau fram.

Nú þegar ráðherralistinn liggur (trúlega ) fyrir, verður spennandi að sjá hvernig unnið verður úr hlutunum og peningaskortinum mætt.  Og mér líst bara vel á að Steingrímur taki landbúnaðar og fjármálin. Hann var allavega eins og arfhreinn framsóknarmaður þegar hann var landbúnaðarráðherra hérna um árið.  
 
 Það er svo spurning hvað  er hægt að salta mikið af vandamálunum framyfir kosningar.

 Ég hef trú á því að rannsóknin á hruninu og hugsanlegum brotum þeim tengdum verði hraðað verulega og ef breytingin á seðlabankanum gengur, mun krónan eflaust styrkjast enn frekar og það er hlutur sem er æpandi eftirspurn eftir, ekki síst fyrir bændaskarfana sem þurfa að fara að snara út fyrir áburðinum hvað líður. Maður þorir ekki einu sinni að hugsa um verðið á byggfræinu. Og við þurfum að fara að sjá olíulækkunina erlendis fara að virka hér.

  Já það er rétt að lofa nýju stjórninn að spreyta sig áður en maður fer að commenta á hana, þó ýmisskonar efasemdir skjóti upp kollinum.
 En ég get þó lýst þeirri skoðun minni að það eigi aldrei að setja öfgafólk í valdastóla. Hvort sem um frjálshyggju eða afturhald er að ræða. Sama gildir um öfga í  virkjunargræðgi eða náttúruvernd.

  Ég hef þó ekki áhyggjur af því nú, því þeir flokkar sem slíkt gera  munu væntanlega axla ábyrgð á því áður en líkur.



Og morgundagurinn verður svo spennandi fyrir hundaræktunardeildina í Dalsmynni.



    Því þessi snilldarræktun sem hér horfir lotningafull á húsbónda sinn og þáverandi leiðtoga er nú senn að komast á tamningaraldur.  emoticon

 

 Gangið svo hægt um gleðinnar dyr um helgina.emoticon

28.01.2009 23:23

Gúrúinn minn, og kreppan er leyst.



   Gúrúinn minn sem hringdi í mig í kvöld, er ekki sá munaðarlausi sem ég var að vitna í um daginn.

    Þessi er einn af þessum gegnheilu framsóknarmönnum sem bregður hvorki við sár né bana ef því er að skipta.

    Hann sagði mér það í óspurðum fréttum að hann væri með lausn á öllum vandræðunum.

  Ríkið ætti nú að einhenda sér, nú eða tvíhenda sér í það að taka alla lífeyrisjóði landsins yfir,  rétt eins og galtóma bankana. Eignir lífeyrissjóðanna myndu svo duga til að borga upp allar skuldir landsins og gott betur.
  Þó nú styttist óðfluga í að ég komist á aldur, leist mér ágætlega á þetta , enda lífeyririnn sem beið mín hjá mínu stéttarfélagi ekki til þess fallinn að láta mig hlakka til elliáranna. Ég benti honum þó á, að þetta gæti farið illa með suma og hafði þá í huga aflagða stjórnmálamenn, sérstaklega  þá  sem stendur nú til að hrekja úr öruggum vígum sínum og gera atvinnulausa.
   
 Gúrúinn blés þessar mótbárur útaf borðinu. Í framhaldinu myndi ríkið að sjálfsögðu annast eftirlaunapakkann og það yrði gert með jöfnum greiðslum til ALLRA.  Ég fengi jafnmikið og Dabbi, eða jafnlítið réttara sagt. 

  Þessu er hér með komið á framfæri við þá sem nú eru að taka við stjórnartaumunum.

   Hann kvað svo fast að orði,þegar að útskolunin úr Seðlabankanum barst í tal og mér fannst illa farið með peninga, að splæsa 200 millum í það verk. Hann fullyrti að væri sú langbesta fjárfesting sem væri í spilunum í dag, og ef þessi peningur hefði verið settur í verkið fyrir nokkrum misserum hefðum við séð ævintýralegri ávöxtun en svikumyllugreifarnir hefðu séð í sínum villtustu draumum.

  Ég óskaði honum svo auðvitað til hamingju með erfðaprins þeirra framsóknarmanna sem vill ólmur hasla sér völl í fásinninu hér í NV kjördæmi.  Ég lét þó í ljósi nokkrar áhyggjur af skoðunum kandidatsins á ESB inngöngunni.

Honum er þá illa í ætt skotið ef hann getur ekki talað sig frá því, sagði gúrúinn en var greinilega ekkert áfjáður í að lýsa nánar skoðunum sínum á því máli.

Nú er bara að bíða eftir að næsti gúrú hringi, í leit að góðum hlustanda.emoticon

27.01.2009 21:59

Hækkandi sól.

 



   Þó ég leggist nú ekki í neitt svartnætti í skammdeginu læt ég það stundum fara í pirrurnar á mér.

 Nú þegar daginn tekur að lengja, lifnar yfir manni og þegar síðan kemur hver góðviðrisdagurinn á fætur öðrum þá finnst manni allt vera á réttu róli.

      
  Nú er svo ný ríkisstjórn að taka við og þó hún taki nú örugglega ekki flugið svona glæsilega og hafi takmarkaða tiltrú undirritaðs, verður fróðlegt að sjá hvernig þeim gengur að vinna saman, þessum ólíku flokkum.

  Í dag er alhvítt yfir, stillur,  frostlítið og ný ríkisstjórn sem ætla að redda málunum, og daginn lengir ört. Hvað er hægt að biðja um meira eftir þetta myrkastra skammdegi sem elstu menn muna.

  Þótt það hafi nú verið af mannavöldum.



  Svona leit sólin út fyrir rúmum mánuði síðan um hádegisleitið.




  Þessi mynd er nú reyndar líka tekin núna í skammdeginu með tungl  á lofti um hádegisbil.,




    Horft norður Stóra Langadalinn í fyrravetur. Skyldi koma svona færi í vetur?






 Já það þýðir ekkert að barma sér, en allt í lagi að tuða dálítið öðru hvoru. emoticon



 

 




 

Flettingar í dag: 105
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581568
Samtals gestir: 52774
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 01:52:34
clockhere