Færslur: 2011 Október

31.10.2011 08:13

Keppnisrennsli- Magnaðar myndir.

 Ég held því löngum fram að vel ræktaður, vel taminn hundur eigi að ráða við allar aðstæður sem koma upp í keppnisbrautinni og vinnunni.

 Það reyndi vel á þessa skoðun á Kaldármelum í gær, þar sem nokkrir áhugamenn í faginu leiddu saman hunda sína.
 Þarna voru erfiðar aðstæður, veðurhæðin í hærri kantinum og kindurnar samfættar í því að gera hundum og smölum lífið leitt.

Spáð var mikilli úrkomu þegar liði á daginn sem setti nokkra tímapressu á mótshaldara.
 Í þremur tilvikum varð það til þess að kindur sem var verið að fara með frá vellinum eftir rennsli trufluðu hunda sem voru komnir af stað í úthlaupi.


 Adrenalínið var komið á fullt og hnúturinn í maganum á sínum stað þegar ég sendi Dáð af stað í um 500 m. langa brautina. Hún var ekki búin að koma auga á kindurnar þar sem sleppararnir skildu við þær en ég vonaði að hún sæi þær áður en hún færi langt úrleiðis.

 Úthlaupið sem getur gefið 20 stig  er undantekningarlitið gott hjá henni og það eina í keppninni sem kindurnar hafa lítil áhrif á.

 Hún var komin um þriðjung leiðarinnar þegar hún fer að sveigja til vinstri en úthlaupið var á hægri hönd.

 Ég áttaði mig strax á því að hún sæi til síðast reksturs sem hafði lent uppí í hrauni og var verið að koma með til baka, þó hann væri utan míns sjónarhorns.
 Við Dáð höfðum verið í að koma kindunum af vellinum fram að þessu og þessvegna hefur úkikkið hjá henni verið í þessa áttina.
 Sem betur fer er ég með skipun sem stoppar hana og sendir í kindaleit aftan við sig og þetta virkaði en úthlaupið myndi ekki vigta mikið í stigagjöfinni.


 Hér koma þær gegnumfyrsta hliðið. Þessi aftasta var að byrja að dragast afturúr sem getur þýtt botnlaus vandræði ef ekki tekst að hægja á hinum.

 Henni gekk nokkuð vel að koma kindunum af stað og halda línunni til mín en á þessum hluta brautarinnar er gríðarlega mikilvægt að halda réttum hraða og missa hundinn ekki of nálægt viðfangsefninu.


 
Hér koma þær aftur fyrir mig og þessi gula aftasta fyllti mig grunsemdum um komandi vandræði.

 Ég vissi að um leið og hópurinn kæmi aftur fyrir mig  myndu þær leita útúr brautinni og þrátt fyrir að Dáð gerði sitt besta var það þar sem vandræðin byrjuðu fyrir alvöru.


 Hér nær hún að stoppa þær af en var komin of nálægt þeim og nú fór allt í klessu.

 Þegar hún reynda að koma þeim inná brautina aftur stóðu þær hinar forhertustu framan í henni og þarna fóru alltof margar dýrmætar mínútur til spillis því tímamörk rennslisins eru 12 mín.

 Þessi myndasería hennar Iðunnar hér á eftir er einstök, en þarna horfði ég aftan á kindurnar og gat ekkert annað en sagt Dáð að taka í,  þrátt fyrir að ég sæi hana ekki.

 Sterkt augnsamband sem aðeins kemst á milli Border Collies og forhertrar sauðkindar =( Austurbakkarollu).


 Dáð hefur oft lent í svona aðstæðum áður en þarna er nú ekki farið að síga í hana fyrir alvöru. Það tókst að koma þeim af stað í þríhyrninginn eftir nokkrar endurtekningar á þessu og ljúka honumi  og að skipta hópnum gekk þokkalega vel. Það var akkúrat á þessu augnabliki sem við féllum á tíma en hér vantaði herslumuninn á að koma kindunum í réttina. 10 stig töpuð þar.

Við Dáð enduðum í 63 stigum af 100 mögulegum og 4 sæti af 7 sem segir kannski nokkuð um ganginn í keppninni.

  Í a.fl. voru að mæta til keppni hundar /tíkur sem eru komin á heimsmælikvarða í getu og reyndar voru þessi 14 sem mættu þarna hvert öðru betra þó þau séu vissulega komin mislangt í tamningunni.

 Það er nú ekki alltaf stigafjöldinn eða einhver mistök í brautinni sem raða hundunum upp í gæðaflokk hjá brekkudómurunum.  
  Ef gamli reynsluboltinn ætti að taka eitt dýrið útúr þessum góða og eða efnilega hóp er það Dot í Móskógum, ( frá Wales) sem gladdi augað mest þessa keppnina. Mýktin í vinnunni ásamt mjög góðri yfirvegun og fyrirmyndar vinnufjarlægð fannst mér vera í nokkrum sérflokki í þessu brasi þarna, en það eru eimitt þessir eiginleikar sem eru alltaf svo mikils virði í allri kindavinnu.

 Dáð mætti hafa meira af vinnufjarlægðinni hennar í genunum.

28.10.2011 21:15

Tinni. Kominn á hinar eilífu smalalendur. 15 mán. saga sem byrjaði og endaði illa,


 Nei hugsaði ég, nei andsk. ég er steinhættur þessu.

 Ég sat fyrir framan tölvuna og horfði á póst frá dótturinni þar sem hún spurði hvort ég vildi taka ársgamlan hund og vita hvort eitthvað vit væri í honum. Ræktandinn sem var nýbúinn að taka við honum aftur frá kaupandanum (þéttbýlisbúa sem höndlaði hann ekki), hafði ekkert með hundinn að gera en vildi ekki svæfa hann að svo stöddu.
 Ég ákvað þó að spyrja um ættina aðallega vegna þess að ég hafði séð góða hunda hjá ræktendunum, Birnu og Agnari í Staðarhúsum.

 Þegar ég sá að föðurmóðirin var úr sama goti og Skessa mín og afinn Garry sjálfur, ákvað ég þó að skoða málið en það yrði örugglega í síðasta sinn sem ég léti plata mig í svona dæmi. Þetta var í júlí 2010 og Tinni var kominn til mín nokkrum dögum seinna.

 Hann virkaði sem frekar kaldlyndur einfari og það náðist ekkert samband við hann til að byrja með.
 Svona eins og hann væri dálítið einn í heiminum. Og á tímabili hélt ég að hann væri mjög alvarlega heyrnaskertur.
 Ég hef hundana umdantekningarlítið lausa og ven þá við að þeirra svæði sé ákveðinn radíus kringum bæinn og þetta gengur yfirleitt mjög vel . Tinni vildi hinsvegar skoða landið talsvert útfyrir ósýnilegu línuna og þar sem honum datt ekki í hug að hlusta á mig kostaði hann mig talsverð heilabrot til að byrja með.

 Þar sem mér leist nú ekki meira en svo á gripinn fór ég fljótt með hann í kindur til að komast að því hvort hann væri þess virði að púkka uppá hann. Þar kom hann mér strax skemmtilega á óvart sýndi mikla yfirvegun og frábært vinnulag. Aldrei áður hafði ég farið með hund í kindur sem safnaði þeim saman  stoppaði hinu megin við þær og kom síðan hæfilega langt á eftir þeim til mín í á hárréttum hraða.  Og rétt að taka fram að á þessum tíma hlýddi hann ekki neinu sem ég bað hann um.

  Það var því umsvifalaust ákveðið að reyna að ná sambandi við malbikshundinn.

 Ég var nú eiginlega enn að velta fyrir mér vænlegum samningsleiðum þegar allt small  í gírinn og Tinni var allt í einu kominn með frábæra heyrn og fljótur að skilja um hvað málin snérust.

 Það fylgdi honum þó alltaf að vera seinn til við skipanir, enda með fádæmum rólegur og yfirvegaður.

Mér hafði  fundist eins og hundirinn stingi aðeins við á framfæti og þegar átti að fara að taka á því við kindavinnuna, fór heltin hratt versnandi svo öll þjálfun var lögð á hilluna í bili.
 Við myndatöku komu í ljós skaddaðar vöðvafestingar í bóg, að öllum líkindum eftir mikið högg framan á bóginn.
 Björgvin dýralæknir vildi ekkert segja um hvort hann myndi ná sér af þessu, en eina vonin væri að taka Tinna á bólgueyðandi lyf og sjá til þess að hann hreyfði sig sem allra minnst meðan meðferðin stæði. Hafður í búri og í bandi við að fara út til að sinna líkamlegu þörfunum.

 Nú fór erfitt tímabil í hönd hjá okkur Tinna og ég veit ekki hvor tók þetta nær sér. Engin batamerki sáust eftir að 15 daga kúrnum lauk og samkv. Björgvin var ekki nema um tvennt að ræða, halda meðferðinni áfram eða heltin héldist.
 Þessum skelfingartíma lauk þó með fullum sigri/bata og seinnipart janúar sl. var sett á fullt í tamningunum.


 Tinni var einstaklega auðtaminn með skemmtilegt meðfætt vinnulag. Hann var mjög ákveðinn og sterk útgeislun ásamt mikilli vinnufjarlægð gerði mjög sjaldgæft að hann lenti í átökum.

 Hann var gæddur þeim dýrmæta eiginleika líkt og Vaskur föðurbróðir hans að sýna mikið öryggi við að stoppa hóp af ,  halda honum saman og koma með hann.
 100 % öryggi í því er ómetanlegt þegar verið er að senda hunda úr augsýn eða kallfæri, oft við erfiðar aðstæður.

  Upphaflega var ég ákveðinn í að láta hann frá mér eftir  grunntamningu, en annarsvegar sjúkrasagan og hinsvegar þessir frábæru vinnuhæfileikar  sló það algjörlega út af borðinu og um miðjan sl. vetur var ljóst að Tinni var kominn til að vera .

 Þetta var dálítið stór ákvörðun því fyrir margt löngu ákvað ég að halda mig eingöngu við tíkur í ræktun og vinnu. Að halda hund með kúlurnar í lagi, þýddi allskonar vandamál en ekki kom til greina að fjarlægja þær í þessu tilviki.

 Haustvinnan byrjaði á því að vinna unghundaflokkinn á Landsmóti fjárhunda  sem var mjög sterkt mót að þessu sinni, ekki síst í unghundunum enda var slagurinn harður þar.

 Síðan tóku leitirnar við og þar mætti Tinni afar öflugur til leiks, orðið mikið taminn.  Með svo ungan og óslípaðan hund er það sérstakt að lenda aldrei í að klúðra neinu í þeim átta alvöruleitum sem hann mætti í.  Í þessum leitum flestum  var ég ekki með hann, heldur  tengdasonurinn sem lýsir enn einum eiginleika hjá Tinna sem er mikils virði.


 Hér er hann norður í Bitrufirði ásamt frænku sinni Lukku frá Hurðarbaki að koma kindum í rétt.

  Það er stundum ótrúlegt að upplifa það þegar tilviljanirnar taka völdin hver á fætur annarri með afleiðingum sem engan órar fyrir.

 Tinni sem hafði fyrir löngu hætt  að fara út fyrir sína ósýnilegu línu á hlaðinu fékk skyndilega þá hugdettu á þriðjudagskvöldið að reyna að ná fundi vinkonu sinnar sem hann grunaði að væri á næsta bæ.
 Hún fannst ekki þar, en þetta var hans fyrsta og síðasta ferðalag á eigin vegum því á heimleiðinni var keyrt yfir hann.

 Þrátt fyrir ungan aldur liggja samt eftir kappann 2 got og það bjargar geðheilsunni minni algjörlega að vonandi er Dáð, tík ekki einsömul og ef allt gengur upp kemur eitthvað spennandi þar eftir tæpar 9 vikur eða svo.

 Já þessir 15 mánuðir hjá okkur Tinna voru ekki tilbreytingalausir.
 
Takk fyrir þá.

24.10.2011 22:56

Fjárhundakeppni Snæfellinga.                                                   
Hin árlega keppni Smalahundadeildar Snæfellinga verður haldin að Kaldármelum sunnudaginn 30 okt nk.

Reiknað er með að keppni hefjist kl. 1 en verði góð þátttaka mun byrjað fyrr.
 (skýrist á fimmtudag)

Keppt verður í þrem flokkum.

Flokki unghunda, yngri en þriggja ára.

B flokki fyrir eldri hunda sem ekki hafa náð 50 stiga rennsli í B.fl.

A flokki. Opinn flokkur og fyrir þá sem hafa fengið yfir 50 stig í rennsli, í B fl.

 Skrá þarf hundana fyrir n.k. föstudag hjá Svan í s. 6948020 eða á netfangið [email protected]

Reiknað er með sterku og skemmtilegu móti þar sem ekki einungis allir núverandi íslandsmeistarar  mæta til leiks, heldur muni mæta þarna til keppni hundar/tíkur sem hafa alla burði til að veita þeim harða keppni .

 Allir áhugamenn og konur um ræktun og tamningar Border Collie fjárhunda hefðu gaman af að kíkja á þessa keppni.
 
 Þarna munu sjást í krefjandi og erfiðri vinnu, nokkur af bestu ræktunardýrum landsins, hver með sín sérkenni og vinnutakta.

 Fésararnir sem kíkja hér inn mega svo alveg vera duglegir að like þetta fyrir mig.
Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 101
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 151377
Samtals gestir: 7041
Tölur uppfærðar: 27.11.2022 12:41:49
clockhere