07.07.2008 21:44

Landsmót og rolluhey!

 
  Það má segja að við hefðum náð í reykinn af réttunum þessa tvo dagparta(og eina nótt) sem dvalið var á landsmóti. Þetta var auðvitað veisla allan tímann. Það t.d. eftirminnilegt að sjá Ingunni litlu á Dýrfinnustöðum sýna stóðhestinn sinn, hann Hágang með afkvæmunum. Það lá ekki við að hún gæti séð yfir hausinn á honum þegar hann óð með hana á flugtölti eftir vellinum. Það var líka skemmtilegt að sveitungi minn hún Guðný Margrét skyldi standa sig svona vel í barnakeppninni.
  Það urðu svo miklir fagnaðarfundir þegar við hittum þarna næstum alla Hornfirðingana sem höfðu verið að lóðsa okkur um  A -Skaftafellssýsluna í sleppitúrnum. Já maður var endalaust að rekast á einhverja kunningja af öllum landshornum.

 Í morgun var svo farið að slá restina af fyrri slætti. Þetta verður  rolluheyið  sem gefið verður um miðjan veturinn.Það er vonandi orðið hæfilega úr sér sprottið svo rollurnar springi ekki alveg. Þetta voru um 4 ha. hér heima og  8 ha . í Seli.

  Þá er eftir að heyja fyrir Hestamiðstöðina og ekki má það hey verða of orkumikið því offita er orðið stóra vandamálið í hestamennskunni.

 Það var svo ekkert vinnuveður í dag,  logn, sól og tuttugu stiga hita.
 

05.07.2008 14:31

Annar göngudagur. Eskifell-Múlaskáli.


Illikambur, ekki neitt skelfilegur svona á myndinni.

Menn vöknuðu bara hressir eftir nóttina í Eskifellsskála. Þetta er nýr skáli og ekki alveg tilbúinn en er mjög skemmtilegur. Þarna er verið að koma upp fínni aðstöðu, skemmtilegt tjaldsvæði. Rotþró komin á svæðið en ekki niður þannig að vatnsklósett er ekki heldur kamar. Það er upplifun út af fyrir sig. Eftir að hafa smurt dagsnesti og gert annan farangur kláran í rútu sem ætlaði að koma honum á Illakamb, var lagt af stað um 10 leytið. Veðrið frábært til göngu, sól öðru hvoru og aðeins gola. Það er greinilega gott að hafa veðurfræðing með í för. Gengið var meðfram Jökulsárgljúfri, leiðin heitir inn Kamba. Þarna var víða gengið í líparítskriðum og þeim oft bröttum. Stundum enduðu þær í klettum neðst í gljúfrinu og get ég alveg viðurkennt að hjartað barðist og hnén urðu svona einhvern vegin mjúk. Best var að horfa stíft á tærnar og passa sig að fara ekki að skoða útsýnið! Þarna fór líparítið að skarta öllum mögulegum og ómögulegum litum og það var oft freistandi að grípa stein og stein en minnug Illakambs lét ég það alveg vera. Það þurfti oft að stansa og taka myndir eða fá sér vatn og næringu þannig að meðalhraðinn var ekki mjög mikill.  Á einum stað skiptist hópurinn í djarfa hópinn og hinn. Ef lesendur rekast á fyrirsagnir á borð við:"Djarfar náttúrulífsmyndir" þá voru þær teknar þarna. Til frekari upplýsinga get ég sagt að þarna kom við sögu einstigi, klettar með skriðu og langt niður. Sem betur fer er ég ekki djörf kona og fór aðra leið. Klukkan var farin að nálgast 6 þegar komið var á Illakamb. Þar var rútan og líka fjallahúsbíll eldri þýskra hjóna. Ég hitti þau reyndar ekki en þau (sérstaklega konan) höfðu mikil áhrif á leiðsögumanninn okkar. Varð hún viðmið kvenlegs yndisþokka það sem eftir var. Þau ætluðu að skilja húsbílinn þarna eftir og fara með rútunni í Eskifell og labba svo sömu leið og við. Þau héldu reyndar að það væri svona 3 tíma labb. Nóg um það.  Nú þurfti að taka allan farangur og hlaða á göngumenn. Lambalæri, dósir, fernur, kartöflur, grillkol og allt annað, kælibox, töskur og pokar, þetta var mikil hrúga. Ég þurfti sem betur fer bara að halda á svefnpokanum, hitt fór á bakið. Dagpokinn á magann og stóri pokinn á bakið. Í hann var troðið rjóma og grænmeti eins og komst. Svo var lagt í hann. Stígurinn er ekki neitt voðalega mjór, klettar og krákustígar efst, þar skellti ég mér tvisvar á rassinn á slæmum stöðum og fór við það  rassinn úr buxunum. Neðar er svo löööööng, snarbrött skriða. Þetta væri ekki svo slæmt ef það væri ekki snarbratt niður, oftast beggja vegna, og klettar og Jökulsáin þegar neðar kemur.  En þetta hafðist allt. Þá tók við u.þ.b. 40 mín. gangur í Múlaskála. Stutt göngubrú er yfir ána og klettar beggja vegna. Búið er að setja kaðal niður að brúnni svo það er tiltölulega auðvelt að klöngrast þar. Brúin fannst mér ekki spennandi þó stutt sé, riðaði öll til þegar komið var út á hana. Þarna eru 2 skálar, annar í eigu Gunnlaugs fararstjóra en hinn Ferðafélagsskáli. Hvor öðrum betri. Svo má ekki gleyma hreinlætisaðstöðunni, vatnssalerni og HEIT STURTA. Hún er hituð með gasi og kostaði 300 kr að bregða sér þangað. Þeim pening var vel varið. . Ég var reyndar peningalaus en leigði handklæðið mitt út og fékk sturtupening í staðinn. Katrín skálavörður veitti tæknilega ráðgjöf við að kveikja á sturtunni, en tæknin var stundum að stríða fólki og nokkrir fengu því kalda sturtu.  Eftir sturtu, kvöldverð og nokkra tappa af hjartastyrkjandi var haldin söngæfing og einnig var öllum úthlutað 3 mínúta skemmtikvóta fyrir kvöldvöku lokakvöldsins. Hófst mikið kvótabrask en þó þannig að menn vildu ólmir gefa og jafnvel borga með kvótanum sínum. Flestir voru komnir í pokana upp úr klukkan ellefu. Sif er svo séð að vera með eyrnatappa og heyrir ekkert þegar þeir eru komnir á sinn stað. Ég vaknaði öðru hvoru og heyrði þá hrotur í ýmsum útfærslum.

Ég var bara mjög ánægð með sjálfa mig eftir daginn, engar blöðrur eða verkir. Við Sif sáum hins vegar fram á miklar birgðir af mat sem við þyrftum að bera upp Illakamb ef okkur tækist ekki að borða meira. Og þó svo að einhverjum sem til þekkja þyki það ótrúlegt, þá tókst okkur ekki einu sinni að klára dagskammtinn af súkkulaði, þá er nú fokið í flest skjól. Þetta var annars frábær dagur, veðrið eins og best var á kosið og hrikaleg gljúfrin og litirnir engu líkt.

04.07.2008 22:46

Þjónustan í lagi.



             Þessir eru næstum nákvæmlega eins og pöntunin hljóðaði upp á í útliti.
                                          Svo er það innrætið???


     Síðast þegar Dalsmynni sf. fjárfesti í dráttarvél var sest niður með Finnboga og merkt við hvaða aukabúnaður ætti að vera í græjunni, enda pöntuð með 6.mán. fyrirvara. Finnarnir klikkuðu svo á einu þungaviktaratriði, sem þeim verður seint fyrirgefið.
    Þegar pantaður var hjá mér hvolpur í nóv.s.l. sem átti að vera afmælisgjöf til eiginmannsins var farið nákvæmlega yfir óskalitinn, ásamt því hvernig væntanlegt dýr ætti svo að vera í fasi og framkomu.
 Þessir guttar hér að ofan eru ekki þrílitir en annars er útlitið samkvæmt ýtrustu óskum kaupandans.
  Og þar sem ég hef að sjálfsögðu tröllatrú á gotinu, hef ég engar áhyggjur af því að þarna verði einhver vandamáladýr á ferðinni, enda stefnan ekki sett á nein ofurdýr.

  Loksins komst svo ró á veðurguðina og hægt var að koma áburðinum á túnin og viðbótinni á rýgresið, en sáðvélin er þeim annmarka háð að geta komið max 400 kg af áburði á ha. með fræinu. Nú er bara beðið eftir rigningunni sem kemur alveg örugglega einhverntíma.

 Ætli verði svo ekki kíkt á alvöruhross á landsmóti á morgun.

 
Flettingar í dag: 60
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581523
Samtals gestir: 52773
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 01:30:56
clockhere