TINNI í tamningu og vinnu .Myndbönd.

Tinni fórst í slysi 25 okt. 2011.

20 okt 2011
Tinni og Dáð .

 Myndband I.með þeim saman í vinnu. Unnið með flautuskipunum
http://www.youtube.com/watch?v=gDmyndInZKs&feature=share

15 feb. 2011.

Myndband II.

Tinni eftir 3 vikur í tamn.

Hér er góður partur af einum kennslutíma hjá okkur Tinna eftir 3. vikna kindavinnu, tekið 10 feb..

Fyrir þá sem þekkja ekki til tamningarvinnunnar er rétt að benda á að þetta er óvanalega þjáll og skemmtilegur hundur sem er með meðfædda góða vinnufjarlægð. Hann er óvanalega yfirvegaður  en samt með mjög góðan vinnuáhuga.
 Þarna er verið að kenna hægri,vinstri og sækja skipunina og aðeins verið að byrja að láta hann reka hópinn beint áfram. (Nær skipunin).
Aðferðarfræðin er sú að stoppa hundinn af ef hann kemur of nálægt eða gerir vitleysu en leyfa honum að vinna þegar farið er rétt að hlutunum.

  Myndbandið er hér. HÉR.

 

Tinni. Kominn á hinar eilífu smalalendur.
15 mán. saga sem byrjaði og endaði illa,


 Nei hugsaði ég, nei andsk. ég er steinhættur þessu.

 Ég sat fyrir framan tölvuna og horfði á póst frá dótturinni þar sem hún spurði hvort ég vildi taka ársgamlan hund og vita hvort eitthvað vit væri í honum. Ræktandinn sem var nýbúinn að taka við honum aftur frá kaupandanum (þéttbýlisbúa) sem höndlaði hann ekki, hafði ekkert með hundinn að gera en vildi ekki svæfa hann að svo stöddu.
 Ég ákvað þó að spyrja um ættina aðallega vegna þess að ég hafði séð góða hunda hjá ræktendunum, Birnu og Agnari í Staðarhúsum.

 Þegar ég sá að föðurmóðirin var úr sama goti og Skessa mín og afinn Garry sjálfur, ákvað ég þó að skoða málið en það yrði örugglega í síðasta sinn sem ég léti plata mig í svona dæmi.



 Þetta var í júlí 2010 og Tinni var kominn til mín nokkrum dögum seinna.

 Hann virkaði sem frekar kaldlyndur einfari og það náðist ekkert samband við hann til að byrja með.
 Svona eins og hann væri dálítið einn í heiminum. Og á tímabili hélt ég að hann væri mjög alvarlega heyrnaskertur.
 Ég hef hundana umdantekningarlítið lausa og ven þá við að þeirra svæði sé ákveðinn radíus kringum bæinn og þetta gengur yfirleitt mjög vel . Tinni vildi hinsvegar skoða landið talsvert útfyrir ósýnilegu línuna og þar sem honum datt ekki í hug að hlusta á mig kostaði hann mig talsverð heilabrot til að byrja með.

 Þar sem mér leist nú ekki meira en svo á gripinn fór ég fljótt með hann í kindur til að komast að því hvort hann væri þess virði að púkka uppá hann. Þar kom hann mér strax skemmtilega á óvart sýndi mikla yfirvegun og frábært vinnulag. Aldrei áður hafði ég farið með hund í kindur sem safnaði þeim saman  stoppaði hinu megin við þær og kom síðan hæfilega langt á eftir þeim til mín í á háréttum hraða.  Og rétt að taka fram að á þessum tíma hlýddi hann ekki neinu sem ég bað hann um.

  Það var því umsvifalaust ákveðið að reyna að ná sambandi við malbikshundinn.

 Ég var nú eiginlega enn að velta fyrir mér vænlegum samningsleiðum þegar allt small  í gírinn og Tinni var allt í einu kominn með frábæra heyrn og fljótur að skilja um hvað málin snérust.

 Það fylgdi honum þó alltaf að vera seinn til við skipanir enda með fádæmum rólegur og yfirvegaður.

Mér hafði  fundist eins og hundirinn stingi aðeins við á framfæti og þegar átti að fara að taka á því við kindavinnuna fór heltin hratt versnandi svo öll þjálfun var lögð á hilluna í bili.
 Við myndatöku komu í ljós skaddaðar vöðvafestingar í bóg, að öllum líkindum eftir mikið högg framan á bóginn.
 Björgvin dýralæknir vildi ekkert segja um hvort hann myndi ná sér af þessu, en eina vonin væri að taka Tinna á bólgueyðandi lyf og sjá til þess að hann hreyfði sig sem allra minnst meðan meðferðin stæði. Hafður í búri og í bandi við að fara út til að sinna líkamlegu þörfunum.

 Nú fór erftitt tímabil í hönd hjá okkur Tinna og ég veit ekki hvor tók þetta nær sér. Engin batamerki sáust eftir að 15 daga kúrnum lauk og samkv. Björgvin var ekki nema um tvennt að ræða, halda meðferðinni til streitu eða heltin héldist.
 Þessum skelfingartíma lauk þó með fullum sigri og seinnipart janúar sl. var sett á fullt í tamningunum.


 Tinni var einstaklega auðtaminn með skemmtilegt meðfætt vinnulag. Hann var mjög ákveðinn og sterk útgeislun ásamt mikilli vinnufjarlægð gerði það mjög sjaldgæft að hann lenti í átökum.

 Hann var gæddur þeim dýrmæta eiginleika líkt og Vaskur föðurbróðir hans að sýna mikið öryggi við að stoppa hóp af ,  halda honum saman og koma með hann.
 100 % öryggi í því er ómetanlegt þegar verið er að senda hunda úr augsýn eða kallfæri, oft við erfiðar aðstæður.

  Upphaflega var ég ákveðinn í að láta hann frá mér eftir einhverja grunntamningu, en annarsvegar sjúkrasagan og hinsvegar þessir frábæru vinnuhæfileikar  slógu það algjörlega út af borðinu og um miðjan sl. vetur var ljóst að Tinni var kominn til að vera .

 Þetta var dálítið stór ákvörðun því fyrir margt löngu ákvað ég að halda mig eingöngu við tíkur í ræktun og vinnu. Að halda hund með kúlurnar í lagi, þýddi allskonar vandamál en ekki kom til greina að fjarlægja þær í þessu tilviki.

 Haustvinnan byrjaði á því að vinna unghundaflokkinn á Landsmóti fjárhunda  sem var mjög sterkt mót að þessu sinni ekki síst í unghundunum enda var slagurinn harður þar.

 Síðan tóku leitirnar við og þar mætti Tinni afar öflugur til leiks, orðið mikið taminn og með svo ungan og óslípaðan hund er það sérstakt að lenda aldrei í því að klúðra neinu í þeim átta alvöruleitum sem hann mætti í.  Í þessum leitum flestum  var ég ekki með hann heldur  tengdasonurinn sem lýsir enn einum eiginleika hjá Tinna sem er mikils virði.


 Hér er hann norður í Bitrufirði ásamt frænku sinni Lukku frá Hurðarbaki að koma kindum í rétt.

  Það er stundum ótrúlegt að upplifa það þegar tilviljanirnar taka völdin hver á fætur annarri með afleiðingum sem engan órar fyrir.

 Tinni sem hafði fyrir löngu lagt af, að fara út fyrir sína ósýnilegu línu á hlaðinu fékk skyndilega þá hugdettu á þriðjudagskvöldið að reyna að ná fundi vinkonu sinnar sem hann grunaði að væri á næsta bæ.
 Hún fannst ekki þar, en þetta var hans fyrsta og síðasta ferðalag á eigin vegum því á heimleiðinni var keyrt yfir hann.

 Þrátt fyrir ungan aldur liggja samt eftir kappann 2 got og það bjargar geðheilsunni minni algjörlega að vonandi er Dáð, tík ekki einsömul og ef allt gengur upp kemur eitthvað spennandi þar eftir tæpar 9 vikur eða svo.

 Já þessir 15 mánuðir hjá okkur Tinna voru ekki tilbreytingalausir.
 
Takk fyrir þá.

26 feb. 2011.
Tinni til undaneldis?

N

 

ú er að baki rúmlega mánaðarvinna með Tinna í kindum og hefur hann komið skemmtilega á óvart.
 Fyrir þá sem eru að leita að góðum hundi til undaneldis er hann mjög skoðunarverður kostur en að baki honum eru mjög sterkir einstaklingar.
                                                               
                                                        
Fm. Heiði frá Hæl.145/98 SFÍ
                                          
                                         
F. Díli frá Hæl. SFÍ 392/02. SFÍ
                                              
                                                  
Ff.  Garry.   2207774 - 153/98 SFÍ    
     . Tinni frá Staðarhúsum.                        
                                                                    
Mmm. Perla frá Vogssósum
                                                                 M
m. Spóla frá Eyrarbakka.                       
                                                                   Mmf.Baukur frá  Eyrarbakka
                                       M. Lísa frá Flekkudal     
                                                              
   Mf. Snati frá Flekkudal    
                                                                    Mff. Tígull frá Eyrarl.    


.

13 feb. 2011.
 Nú er um 3. vikna kindavinna að baki og námið hefur gengið hratt fyrir sig. Tinni er með gott vinnulag, (auga/fjarlægð)  yfirvegaður og nánast með rétta vinnuhraðann í genunum.

 Hættan er sú þegar hundurinn er svona auðtaminn að maður fari aðeins framúr sér í því sem lagt er fyrir hann.

Í dag setti ég út gemlingana í fyrsta sinn til að hundvenja þá. Ákveðið var að skilja Vask eftir inni og treysta á Tinna einan.
Hann er ágætlega ákveðinn og tekur hiklaust á móti sé ráðist á hann. Hinsvegar hef ég stoppað hann af í skæruliðaárásum með NEII og þegar 30 óttalausir gemlingar mynduðu breiðfylkingu á móti honum vissi hann ekki sitt rjúkandi ráð.


 Ég ákvað samt að láta slag standa og setja pressu á hann, staðsetti hann á móti þeim og gaf nærskipunina með auka hvatningu. Þetta væri of snemmt fyrir margan unghundinn en ég er farinn að setja smá pressu á hann í ákveðnum tilvikum og kýldi á þetta.



 Úps, ekki alveg eins og ég hefði viljað en það stendur til bóta.



 Ég set hér inn  video fljótlega af einni kennslustund en þangað til getið þið dáðst að þessari
myndaseríu.


Tinni er sterkari á hægri hönd og til marks um það hvað ég er búinn að vefja ofan af því, krossar hann hér til vinstri í úthlaupinu.





Des.2010


 
Tinni var ársgamall þegar ég fékk hann í hendurnar í ág. sl. Hann hafði alist upp í þéttbýli og nánast ekkert kynnst búpeningi.



 Ég tók aðeins tíma í að kynnast honum og kenna honum stoppskipunina sem er LEGGSTU í hans tilviki. Síðan þurfti ég að leggja nokkra vinnu í að láta hann koma við innkall og yfirhöfuð að hlusta á það sem ég hafði að segja honum.
 Hann stakk aðeins við í framfæti við komuna og þegar ég byrjaði kindavinnuna versnaði þetta, svo það urðu bara þrjú skiptin sem hann komst í kindur í haust.
Við myndatöku kom í ljós að Tinni hafði orðið fyrir e.h. höggi eða árekstri framan á bóg og þar voru bólgur í vöðvafestingum sem ekki löguðust vegna stöðugs áreitis við hreyfingu.
Meðferðin var verkja og bólgueyðandi lyf ásamt algjörri innilokun og enga útivist nema í bandi og sem allra minnst.

Þetta virðist hafa virkað og eftir prufutíma á dögunum er ljóst að nú er ekkert annað að gera en að fara að snúa sér að því að temja dýrið.



 Tinni hefur það algjörlega í sér að fara fyrir og halda hópnum saman. Í slíkum tilvikum fer maður strax með kennsluna út í opið rúmt hólf þar sem hægt er að vinna án þess að missa kindurnar stöðugt utan í vegg eða girðingu.



Kindurnar eru hafðar milli smalans og hundsins og hér læt ég þær sleppa til hliðar og Tinni fer góðan sveig fyrir þær af meðfæddri smalahvötinni. Fljótlega fer maður að gefa hægri/vinstri skipanir í leiðinni og hér er vinstri skipunin gefin.



Þegar hann er kominn fyrir þær er hann stoppaður og smalinn réttir sig af svo kindurnar eru í beinni línu milli hans og hundsins og síðan er gefin skipun um að hundurinn komi. Ég nota skipunina NÆR. Ef hundurinn leitar til hliðar öðruhvoru megin við hópinn er hann stoppaður, LEGGSTU.
 Hann lærði mjög fljótt að koma beint eftir hópnum.

Í upphafi þessa tíma urðu smá átök þegar tvær ær í hópnum ætluðu að sýna þessum nýja vitleysing í tvo heimana. Hann kom skemmtilega á óvart í þeim viðskiptum og hér hlýða ærnar honum mjög vel.

 Það er smá skæruliði í honum og þrisvar sinnum í tímanum stóðst hann ekki að stökkva í hópinn og glefsa í þær.
 Ég lét nægja að öskra NEEEI um leið og ég sá hvað hann hugsaði og þetta verður ekkert vandamál.


Hér gáðum við félagarnir ekki að okkur og lentum utaní girðingu. Þá er ekki um annað að ræða en smalinn verður að aðstoða við að koma þeim frá henni. Þessi hundur mun mjög fljótlega ráða við þetta eða um leið og hann er farinn að skilja  hægri/ vinstri skipanir.

Og það verður byrjað á því þegar kennslan fer á fullt eftir áramótin að koma þeim skipunum rækilega inn í forritið á honum ásamt NÆR og SÆKJA skipuninni.



 SÆKJA skipunin er til að byrja með æfð með því að hafa hundinn hjá sér en láta kindurnar sleppa af stað heim. Síðan er hundinum sleppt og skipunin gefin. Hundurinn stoppaður þegar hann er kominn vel fyrir o.sv. frv.

 

Flettingar í dag: 34
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581497
Samtals gestir: 52773
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 01:08:40
clockhere