17.03.2017 16:20

Flautuskipanir kenndar.


Það er nokkur stígandi í notkun flautuskipana hérlendis en mætti vera meiri. 

   Er ekki frá því að rétt eins og vel ræktuðum  fjárhundi eru ýmsir góðir taktar í blóð bornir, sé mörgum fjármanninum eðlilegra að þenja raddböndin en flauta skipanir út í loftið. 

  Enda hægara að bæta rækilegar í raddhljóðin þegar leikurinn fer að æsast. emoticon  

  Ég kenni þeim hundum sem ég á eftir að vinna með, flautuskipanir.

   Reyndar eru þeir orðnir nokkrir sem hafa farið frá mér  eftir flautunám en nýtingin á því námi verið allavega eins og gengur.  

  Ég mæli  eindregið með því að menn kenni fjárhundunum sínum allavega  stoppflautið og skipunina að koma með/ ganga að kindum. 

   Þá er nú reyndar lítið mál að bæta hliðarskipunum við emoticon . 

  Þetta geri ég þegar tamningin er vel á veg komin og hundurinn er orðinn nokkuð öruggur á töluðum skipunum. 

  Ef hundurinn er taminn á annað borð er ótrúlega lítil vinna að bæta flautuskipunum við .

   Fyrir mig sem byrja tamningarnar með táknmáli/handahreyfingum meðan fyrstu skipanarnar eru að lærast er þetta mjög auðvelt og fljótgert.  

  Rifja upp táknin sem ég hætti að nota þegar náminu fleygir fram  og kenni síðan flautið með þeim. 

 Ef þau eru ekki fyrir hendi  er flautuskipuninni bætt við þá töluðu um leið og hún er sögð. 

 Táknmálið er einfalt . 

  Hendur upp fyrir axlir þýðir stopp og hendur til hliðar við  hægri og vinstri  skipanir.  

   Hér er sýnt hvernig hvernig gengur í kennslustund no. 2 í flautunni. Þarna eru handahreyfingarnar notaðar til að gulltryggja námshraðann.




08.03.2017 20:05

Að kíkja í hvolpapakkann.

 Það er langt síðan ég komst á þá skoðun að það væri ekki nokkur leið ,- allavega fyrir mig, að spá af einhverri nákvæmi um hæfileika og getu hvolpanna minna . 

Að minnsta kosti ekki í kindavinnunni. 

Fyrir nokkrum árum lenti ég á dagsnámskeiði hjá breskum snillingi, Nij Vyas. 
  í einhverju spjalli í lokin, kom fram hjá honum að hann væri vanur að meta hvolpana hjá sér um 7 vikna aldur. 

   Legði fyrir þá nokkurskonar athyglis og meðferðarpróf sem gæfi mjög ákveðna vísbendingu um hvernig þeir reyndust í framtíðinni.

   Í fyrra eignaðist ég svo kennsludisk með kappanum þar sem hann sýndi þessa aðferð og hvernig þeir hvolpar sem hann hélt eftir úr gotinu urðu síðan  í og eftir tamningu.

  Mér þótti þetta mjög athyglisvert og ákvað að þetta yrði ég að prófa.

 Nú er ég með 7 hvolpa got í höndunum og er í þeirri sérstöðu að frumtemja alla hvolpana í fyllingu tímans eða fylgjast náið með tamningunni. 

  Það var því ákveðið að prófa aðferðina og bera niðurstöðurnar síðan saman við útkomuna í tamningu. 

  Prófið/matið fer þannig fram að fenginn er einhver sem hvolparnir hafa aldrei heyrt eða séð til að fremja matið.

Hvolpunum er síðan sleppt einum og einum í eitthvert rými  til hans.  

  Farið er yfir 10 atriði og eru viðbrögð hvolpsins síðan metin á skalanum 1 - 6. 
1. Kallað er á hvolpinn og á hann þá að koma sjálfviljugur. 
2. Gengið er um rýmið og á hvolpurinn að fylgja vel og jafnvel atast í fótum. 
3. Hvolpur lagður á hliðina og haldið niðri. Hann á ekki að vera of undirgefinn, berjast aðeins á móti. 
4. Strokinn fast og nánast haldið sitjandi við fætur. 
5. Á að þola möglunarlaust að vera haldið  á lofti með báðar hendur undir bringu .
 6 Bolta velt um . Hvolpur sýni vilja til að vinna með dómara. 
7.  hvolpi haldið í fangi og klipið um aðra framlöpp um þófa.  Á að vera viðkvæmur en ekki um of. 
8. Barið í pottbotn með einhverju. Hvolpur á að staðsetja hljóð  en ekki hræðast. Tengsl milli viðkvæmni og of mikils auga . 
9 Elta handklæði. Hvolpur sem eltir verður viljugur vinnuhundur. Sá sem bítur líka gæti átt til að grípa í fé . 
10. Regnhlíf spennt út og og velt um gólfið. Hvolpurinn sé ekki hræddur heldur forvitinn um ókunnan hlut.        

  Sá sem skorar hátt í þessu ætti m.a. að verða sterkur karakter.
 Sterkur í að elta og vera með gott skap. 

   Viljugur í að hlýða leiðbeiningum og skipunum en ekki alltaf um leið heldur hugsa sjálfstætt en hafi vilja til að vinna með manninum.  

  Hundagúrúinn hann Gísli í Mýrdal var síðan  fenginn í framkvæmdina og hver hvolpur tekinn upp á myndband  sem síðan var sest yfir og einkunnir gefnar.  Þetta var samstæður hópur og skoruðu hátt í þessu  eins og dómarinn mat þetta.

   Það var aldeilis magnað að fylgjast með þessum samstæða hóp samþykkja þennan ókunna náunga  og fara gegnum prógrammið með honum.  

  Það verður svo spennadi að fara yfir þetta og bera saman við karakterana eftir að hafa frumtamið þá  í mánaðartamningu í seint í haust og næsta vetur. 

 Hér er svo prófið yfir Lukku sem ég mun halda eftir af gotinu. 

Var reyndar búinn að ákveða það áður og niðurstaða dagsins varð ekki til að breyta þeirri ákvörðun.

24.02.2017 20:25

Kúlur eða ekki kúlur, - hvað er málið ?


 Það er velþekkt í hvolpasölunni að tíkurnar eru vinsælli  hjá kaupendum. 

  Skýringarnar á því eru nokkrar en sú veigamesta er trúlega sú að það blundar í mörgum að geta skellt í got ef tíkin reynist vel. 

  Aðrar ástæður eru þær að sumir trúa því t.d. að tíkur séu meðfærilegri í vinnu , úthaldsbetri, skemmtilegri í umgengni eða sýni öðrum hundum/tíkum síður áreiti o.sv.frv. 

  Ég er reyndar ósammála öllum atriðunum nema því fyrsta. 

  Mér finnst skynsamlegra að velja tík frekar en hund  ef verið er að spá í ræktun í fyllingu tímans.

    Það kemur " stundum " fyrir að hvolpaleitendur spyrja mig hvort kynið sé skynsamlegra að velja.  

 Ég er löngu hættur að svara þessu beint.  

  Segi bara ( sem satt er )  að ef ég væri að leita að fjárhundi í vinnu en væri ekki að velta ræktun fyrir mér, veldi ég hund. 

  Þegar hann væri orðinn svona 15 mán. léti ég síðan fjarlægja kúlurnar.

  Rétt eins og ég geri , eða gerði réttara sagt við hesttryppin í den (meðan þau urðu til hjá mér ) .

    Dýralæknar tala reyndar um að  það sé í lagi að gelda hundana eftir svona 6 - 8 mán aldur  en mér finnst skemmtilegra að hundarnir séu nokkurnveginn fullþroskaðir. 


 Vaskur tapaði kúlunum vegna þess að ég taldi hann óhæfan í ræktun og óseljanlegan vegna þess hversu stórt númer hann var í ýmsu.emoticon

   Vanaður hundur  er laus við alla hormónastreitu, merkingarþörf og  áreiti við aðra hunda er oftast lítið eða ekkert. 

   Engin hætta á flakki og sv.frv. 

  Tíkurnar eru hinsvegar með sín  lóðarí á 6 mán fresti.  

 Það stendur yfir í um 20 daga í hvert sinn með tilheyrandi pössun ef einhver með kúlurnar í lagi er innan viss radíuss. 

  Bólusetning gegn þessu er ekki í dæminu hjá mér, því ég er einn þeirra sem trúa þvi að ófrjósemissprauta auki líkur á krabbameini. Ég geri svo engan greinarmun á tík eða hundi, í tamningu, vinnu eða umgengni að öðru leiti . 

    Sumir nefna fitusöfnun á geldingum sem vandamál. 
  Mín reynsla er nú reyndar alveg á skjön við þá fullyrðingu.


 
 Gott dæmi um hið gagnstæða  eru systkinin Korka og Smali. Hann er þrátt fyrir kúluleysi  alltaf í passlegum holdum meðan ég er í vandræðum með Korku sem vill hlaða á sig ef ekki er gætt ýtrasta aðhalds í fóðrun. 

   Ef við lítum hinsvegar framhjá ofanskráðu er auðvitað mikilvægast að menn séu sáttir við það sem þeir telja best.  

 Og ef fólk er ánægt með hundinn sinn,- nú eða tíkina , eins og þau eru með eða án kúlna eða ófrjósemissprautna er auðvitað enginn að fara framá meira .emoticon
Flettingar í dag: 729
Gestir í dag: 45
Flettingar í gær: 953
Gestir í gær: 86
Samtals flettingar: 436364
Samtals gestir: 40260
Tölur uppfærðar: 12.5.2024 11:32:34
clockhere