09.04.2010 07:56

Mjólkurflutningarnir á Nesinu.

 Eins lengi og elstu menn muna hefur mjólkin á norðanverðu Snæfellsnesi verið flutt inn í Búðardal.

 Þar hafa miklir snillingar tekið við henni gegnum tíðina og verið góðir í að framleiða allskonar sérvöru sem hefur virkað vel eða mjög vel í sölunni.

 En allt er breytingum undirorpið, ekki síst í sveitinni og nú er norðanmjólkinni smalað saman með okkar mjólk sem enn erum að berjast við þetta hér sunnanfjalls. Og nú lendir hún á Selfossi til að byrja með.


 Á mánudögum er bætt um betur í flutningsgetunni og mætt með þriggja hásinga aftanívagn.

 Það er orðið talsvert síðan sex hjóla Maninn þjónustaði okkur og eins gott að ekki sé þröngt fyrir dyrum þegar þetta flutningatæki birtist á hlaðinu.

 Það hafa verið algjör álög á okkur,að hér hefur hver öðlingsbílstjórinn tekið við af öðrum allt frá því að Siggi Brynka þjónustaði hér á öndverðri síðustu öld. Það er reyndar svo langt síðan hann var, að ég man trúlega ekki eftir honum nema í gegnum sögusagnir.



 Hann Sveinn Pétursson fellur ákaflega vel inn í þennan hóp öðlinga en vinnutíminn hjá honum lengdist um 1.5 klst. við þessa breytingu , þrátt fyrir að létt væri á svæðinu að sunnanverðu.

 Þeir bæir sem enn eru í mjólkurframleiðslu að norðanverðu eru Arnarstaðir og Hraunháls í Helgafellsveit. Í Grundarfirði eru síðan eftir 4 bæir , Kolgrafir. Eiði, Naust og Nýjabúð.

 Svo er bara að vona að þessi breyting bendi ekki til þess að tekið sé að fjara undan samlaginu í Búðardal, því grannar mínir í Dölunum mega ekki við því að missa það.

06.04.2010 22:55

Hundarnir í heimavinnunni.

 Stundum hitti ég fólk sem segir mér það í fyllstu einlægni að það borgi sig ekkert að vera að leggja vinnu í að temja hunda til að nota þá í kindavinnu.

 Þetta séu hvort sem er ekki nema örfáir dagar á ári sem verið sé að nota þá.

 Ég virði að sjálfsögðu þessar skoðanir enda er ég löngu hættur að boða fagnaðarerindið í þessum efnum, til vantrúaðra.

 Ég kom einu sinni til dansks fjárbónda sem m.a. sýndi okkur lömb í innifóðrun sem áttu að fara í slátrun fljótlega.

 Hann sagði okkur það, að flutningabíllinn sem flytti lömbin, væri á tímakaupi og því væri brýnt að það gengi hratt að lesta bílinn. Danskir bændur voru þá löngu búnir að læra það sem margir íslenskir kollegar þeirra eiga eftir tileinka sér, að fara vel með peningana sína.

 Sá danski átti tvo hunda og þeir sáu um að koma lömbunum hratt og örugglega á bílinn.

Mér þótti það dálítið merkilegt að þessi hagsýni bóndi keypti hundana fulltamda. Annan þeirra sem hann átti þá, fékk hann í Hollandi en hinn var breskur.

Ég er hinsvegar eins og sá danski að nota hundana mína nokkuð marga daga á ári.


 Hér sjá Assa og Vaskur um að halda lömbunum að rekstrarganginum.



 Hér eru það Snilld og Dáð sem halda kindunum frá rúllugrindinni meðan sett er rúlla í hana fyrir næstu 3 dagana.



 Tækifærið er notað til að kenna þeim að troða sér meðfram veggnum inn fyrir kindurnar. Hér vippar Dáð sér yfir en Snilld lendir verr í því.



 Hér fara þær vinstra megin inn í hornið hvergi bangnar.



 Þessar eru nú ekki á leiðinni upp á sláturbíl en trúlega væru þær stöllurnar snöggar að rusla þeim út með smá hvatningu.



 Já, það styttist svo óðfluga í að sauðburður hefjist og þurfi að koma lambfénu niður fyrir veg.

Þá kemur sér vel að hafa aðstoð við að virða biðskylduna.

05.04.2010 20:01

Annríki,stóðhestar og pínulítið væl.

 Þetta er búin að vera annasöm helgi þrátt fyrir allan heilagleika.

Það var laugardagurinn sem toppaði hana, en þá var rúllað austur á Hellu að kíkja á sunnlenska stóðhesta sem léku listir sínar í Rangárhöllinni.

 Þetta var hreint út sagt alveg frábært og meira að segja ég sem hef takmarkað vit á góðum hestum, var farinn að grípa andann á lofti á hárréttum augnablikum.

  Ég passa mig nú á því að nefna engin nöfn né birta myndir í þetta sinn, enda var það m.a. tilgangur ferðarinnar að sjá út hesta fyrir nokkrar merar og síðan að skoða hvort þarna ræki á fjörur  hestamiðstöðvarfólks " nothæfan " undaneldisgrip til notkunar í aðalgirðinguna okkar.

  Eftir nokkrar pælingar á vesturleið var ekki beðið boðanna heldur hringt í allar áttir á leiðinni.

Það voru bókaðar nokkrar hryssur og síðan komið af stað þreifingum í stóðhestahaldi sem spennandi verður að vita hvort gengur upp.

 Einhverra hluta vegna bitnar það á mér, aulanum í hópnum að sjá um stóðhestaprúttið í girðinguna, en ef að tekst að landa því er ég næstum laus allra mála um framhaldið.

En ég sem var alveg hættur allri hrossarækt mun hugsanlega halda 3 og 1/2 meri í sumar, svo það er eins gott að sölukerfið haldi áfram að blómstra hjá hestamiðstöðinni eins og það gerir í dag.emoticon 

 Já, og ef orð standa hjá sunnlendingum munu a.m.k. tvær þeirra verða hjá einum enn áhugaverðari en hinir þessir áhugaverðu eru.emoticon 

 Það verður svo bara að viðurkennast, að þetta er bras sem ekki er leiðinlegt að standa í.emoticon

 Já vælið í fyrirsögninni er um alveg skelfilegt kvef sem hefur þjakað mig óspart um helgina.

Þar sem ég hef ekki mátt vera að því að verða jafn hroðalega veikur og full ástæða er til má reikna með nú geti ég loksins farið að vorkenna mér og væla dálítið.

 Það er samt nokkur ástæða til að óttast það að erfitt verði að vekja þá samúð á heimilinu sem eðlileg væri í svona skelfingum.emoticon
Flettingar í dag: 701
Gestir í dag: 75
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579394
Samtals gestir: 52635
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 10:27:07
clockhere