15.12.2012 21:55

Spámennirnir og himnaförin.

 Það höfðu nokkrir orðið spámannlegir þegar þeir virtu fyrir sér rampinn sem ætlaður var fyrir uppgöngu nautgripanna upp í nýju vistaveruna sína.

 Og voru nokkuð samdóma í spánum.


Þetta yrði mikill hasar.



 Ég viðurkenni fúslega að hann var ekki mjög gæfulegur  hér í upphafi,.

Býsna brattur.



 Svo var 90 gr, beygja upp og hækkunin samtals um 3 m.

Það eru til mikil vísindi um hönnun rekstrarganga svo gripir gangi þá greiðlega og ég hafði stúderað þau fræði nokkuð , bæði með sauðfé og nautgripi í huga.
 Reyndar er  hann nokkuð frábrugðinn teikningunni sem við fengum í hendurnar.

 Eina sem ég hafði áhyggjur af var að það sást niður milli rimla hér á efri hlutanum.

Það voru óþarfa áhyggjur.

Við tókum þá í 3- 4 gripa hollum og þetta gekk hratt og vel. Enda snúa stórgripir helst ekki við í bratta ef þeir komast hjá því.



Ég held bara að þeir hafi fundið nokkuð til sín svona hátt uppi.



 Það er öxuljárn sem steypt var niður í burðarbitann sem heldur þilinu og er helmingur þess á lömum á því.


 Þessi aðstaða er fyrst og fremst hugsuð fyrir kvíguuppeldið.



 Hér erum við á hinni flatgryfjunni en undir þessar plötu sem er fóðrunaraðstaða og kannski geymsla fyrir hin ýmsustu verðmæti, verða smákálfarnir á hálmi.



 Og ég held að skipti engu hvort það eru kindur, hross kálfar , nú eða jafnvel hundar. Öllum líður jafnvel á hálmi, eigi þau kost á því.



  Nú gæti verið skynsamlegt að fara að leita til spámannanna um það, hvort þeir telji ekki algjörlega útilokað að koma gripum niður þennan óhugnanlega ramp.

12.12.2012 21:37

Ræktunarkúrsinn.- Og klessukeyrslurnar.

 Þó ræktunarmarkmiðin séu nokkuð ljós verður ferðin aldrei hnökralaus né greiðfær.

 Þar skiptir engu hvort það eru kindur , kýr, hross eða hundar.

 Allir almennilegir ræktendur eru svo með allskonar sérvisku og trúa á, - ja kannski ekki stokka og steina en allt annað.

 Hjá sumum ganga svo hlutirnir stundum upp meðan aðrir berjast með minni árangri.

 En ég held samt að allir, sama hversu snjallir þeir eru , lendi alltaf, í einhverjum hliðarskvompum sem ekki var stefnt að.
Sem betur fer, því annars myndi búfjárræktin örugglega enda með enn meiri ósköpum en útlit er fyrir 
í augnablikinu.

 Nú eru sauðfjársæðingar á fullu í Dalsmynni en vegna lítils áhuga bændanna að lengja sauðburðinn óhóflega er ekki byrjað fyrr en hæfilegt er að gefa hrússunum lausan tauminn í lok sæðinga.


 Þriðji sæðingadagurinn var í dag og hér eru þær sem til voru í tuskið.
 
 Það er alltaf sama lotteríið með hversu margar kindur gefa kost á sér í sæðingar og sum árin er sáralítið að hafa meðan önnur eru einstaklega gjöful á fullt af góðum ræktunarám sem ganga á réttum tíma.

 Í fyrra var tekinn topphópur og samstilltur, þannig að sætt yrði á öðru gangmáli. Það gekk fínt að öðru leiti en því,  að hrútlömb voru í miklum meirihluta þrátt fyrir eindregna pöntun á því gagnstæða. Ég held að það hafi allt verið Lárusi að kenna.

  Sem betur fer tókst ekki að endurtaka leikinn í ár vegna byggingarframkvæmda.

 Nú ganga ærnar hinsvegar eins og enginn sé morgundagurinn og  eftir 3 daga eru þær orðnar yfir 30 sem er ekki lítið miðað við kotbúskapinn hér.
  Og þá fer ekki hjá því að séu í hópnum ein og ein nothæf ræktunarær.

 Fyrir margt löngu gaf ég nú skít í þetta sæðingakjaftæði og taldi hollastan heimafenginn bagga.

 Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og ég er fyrir löngu búinn að læra að það borgar sig enganveginn að vera sjálfur að finna upp hjólið.

 

 Það er svo alveg ólýsanleg breyting að vera kominn í almennilega aðstöðu til að dútla í þessu en það er nú seinna tíma mál að fara rækilega yfir það.



 Nú er bara að halda stjórnarfund og ákveða hvenær verður svissað yfir í náttúrulegu aðferðina.

Og bara nokkuð spennandi nýliðar í boði fyrir dömurnar .

10.12.2012 08:45

Súper sveitamarkaður.

Sveitamarkaður á Breiðabliki er orðinn árlegur og ómissandi  viðburður á aðventunni.

Þó renneríið sé mun minna en á sumarmarkaðnum er samt þokkaleg mæting bæði af lengra aðkomnum og heimamönnum.

 :Það er rólegt yfir mannskapnum, tekinn góður tími yfir kaffinu og rjómavöfflunum eftir að búið er að taka fyrsta innkaupahringinn.



 Þarna fæst  allskonar snilldarframleiðsla heimafólks en einhvernveginn sést nú samt ekki mikið af framleiðsluvörum karlpeningsins á svæðinu. Nú er rúgbrauðið og kæfan frá Bíldhólsfrúnni falið innst í ísskápnum svo það endist lengur.



 Já , nú er til í ískápnum margvíslegt lostæti sem verður notað sem undanfari jólabröggunarinnar. JHreint ekkert sem bendir til annars en ég muni ná aftur þeim 3 kg. sem tapast hafa í þrældómi sumarsins og haustsins.



 Þóra Kóps. tók mig á orðinu þegar ég kvartaði í fyrra, svo nú á ég hlýja og góða prjónahúfu með Border Collie munstri.



 Heimagerð handsápa tók sig vel út í fjárvænu umhverfi með allskonar öðrum handunnum listmunum umhverfis.



 Hér birgði ég mig upp af ullarsokkum fyrir árið en þeir ásamt heita pottinum gulltryggja hestaheilsu undirritaðs.( 7-9-13).



 Og það var ekki slegið við slöku heldur var handavinnan á fullu í sölumennskunni.
Flettingar í dag: 460
Gestir í dag: 55
Flettingar í gær: 1149
Gestir í gær: 139
Samtals flettingar: 435142
Samtals gestir: 40184
Tölur uppfærðar: 11.5.2024 14:40:51
clockhere