07.11.2009 23:58

Allt á haus í sveitinni.

 Já, það er allt syngjandi vitlaust að gera í sveitinni sem aldrei fyrr.

 Vegna einstaklega hlýs og góðs veðurfars eru Dalmynnisbændur ekki skriðnir í skammdegishýði sitt og farnir að taka lífinu með ró heldur puða sem mest þeir mega.

 Söðulsholtsjarlinum tókst loks að ná upp restinni af hálminum í dag og verður rúllunum væntanlega komið í hús í fyrramáli. Síðan verður ráðist á tað og hálmhauga  Dalsmynnis og þeir verða drifnar á akrana á morgun. Takist það, verður ekki úr því að þeir verði að hólum í landslaginu eins og sumir voru farnir að hafa áhyggjur af.



 Að þessu farsællega loknu verða fjórskerarnir settir aftan í alvörutraktora búanna (Dalsmynnis og Söðulsholts) og þessir 50 - 60 hektarar sem óplægðir eru af ökrum og túnum sem endurvinna á, velt við með miklum látum.

 Ekki hefur gefist tími til að rýja væntanlega gemlinga og veturgamalt sem ganga því úti enn.

Lömbin voru að vísu sett inn í dag til að kenna þeim átið. Að þvi loknu verður þeim allavega beitt á daginn þar til hægt verður að kippa af þeim reyfinu sem ætti að verða seinnipart næstu viku.


    Svona leit þetta út um þetta leiti í fyrra og lömbin farin að hlýða hundunum ágætlega.

 Tækifærið verðu notað til að gera þá hundvana í leiðinni en það er þýðingarmikill liður á leið þeirra til þroska.

 Og burðarhrotunni í fjósinu er farsællega lokið en það verður alvöru kúablogg tekið í að loka því máli áður en lýkur.

 Já, já, það er einn af kostum sveitalífsins að sjaldnast er einhver tími til að láta sér leiðast.emoticon 

 

04.11.2009 23:58

Hreinsanir í Hafursfellinu.

Þegar að sést til kinda í Hafursfellinu eftir að leitum er lokið er 100 % öruggt  að þetta eru vandræðaskepnur sem selja sig dýrt.

 Þær halda sig upp í fjallinu í dölunum/skálunum eða uppundir klettum og allar virðast alltaf klárar á því að komist þær í kletta séu þær hólpnar. Þó sumar séu gamlir kunningjar til margra ára hafa þó margar þeirra gegnum tíðina hvorki sést þar fyrr eða síðar, heldur virðast þær stoppa þarna eftir að hafa flúið úr leitum annarsstaðar.

 Stundum bíð ég eftir að snjórinn komi þeim niður á láglendið en oftast legg ég til atlögu áður.

 Þetta eru svona eins leiðangurs kindur því þær halda sig alltaf einar með lömbunum og það er oftast sér ferð fyrir hverja, nú eða  tvær ferðir á sumar.


 Svona lítur Þverdalurinn út þegar komið er upp í hann en gilið sem er fremst í honum er mjög vinsælt athvarf hjá þeim eftirlegukindum sem þarna stoppa þegar á að fara að bögga þær eitthvað.

 Eftir mjaltir í gær var lagt í Þverdalinn en þar hafði tvílemba haldið sig í norðanverðum dalnum en Austurbakkarolla að sunnanverðu með öðru lambinu en hitt hafði náðst í ferð 1.

 Þegar upp kom varð ljóst að sú austurlenska hafði yfirgefið svæðið en tvílemban var í efstu grösum  að norðanverðu.

 Í þessum leiðöngrum er stólað á Vask og þegar tekist hafði að lauma honum uppfyrir tvílembuna hófst mikil barátta fyrir því að halda henni frá gilinu.



 Það dugði henni lítið þó að hún slyppi neðst í það og að hætti vestfirskra smalameistara dreif ég hana niður á eftir lömbunum sem höfðu vegna reynsluleysis ekki séð neinn tilgang í því að hengja sig utaní einhverjar klettasnasir.

 Þetta var svo tvílemban mín og eru nú þær fullorðnu alheimtar ( þar til annað sannast).

 Meðan á þessu stóð var yngri bóndinn sendur í útkikk að gá að Austurbakkarollunni.
 Hún reyndist vera komin  sunnan í Fellið og að sjálfsögðu í efstu grösum  þar.


 Hér er hún að spyrna af stað beint upp, en Vaskur er einhversstaðar í urðinni hér til vinstri á miklum skriðþunga. Svona hlíðar eru orðnar okkur Vaski nokkuð erfiðar og verða sífellt brattari og hærri með hverju árinu.



 Hér er þetta samt komið undir kontrol.

 En sú af Austurbakkanum gaf sig ekki fyrr en í fulla hnefana og sem betur fer fyrir ofurviðkvæma blogglesendur tæmdist rafhlaðan í myndavélinni núna.

 Mæðgurnar komust nú samt ótjónaðar heim.

Og Albert lofaði mér því að gimbrarnar yrðu ekki settar á.

 Hinir vinir mínir á Austurbakkanum mættu alveg taka hann sér til fyrirmyndar.emoticon 

  Fleiri myndir hér.  Eftirleitir

 

03.11.2009 00:42

Fjárhundakeppnin,órólega deildin í VG og hann Mýrdals Móri.

  Sunnudagurinn fór að mestu í árlega smalahundakeppni okkar Snæfellinga.

 Að þessu sinni var hún haldin að Mýrdal. Það var ekki nóg með að Gísli sleppti okkur inn á sparitúnið sitt, heldur sá hann um að koma upp brautinni  og strákarnir hans sáu um að keyra í okkur rollurna og sleppa þeim.


 Staðarlegt heim að líta í Mýrdal og Gjáin í baksýn skemmir ekki útsýnið. En bóndinn orðinn dálítið þreytulegur

 Og svo var veisla á eftir.

 Toppþjónusta og héðan af verður keppnin  haldin þarna, punktur.

 Fjárhundakeppnirnar eru alltaf mikið lotterí, því ekki er nóg með að dagarnir séu misjafnir hjá smölum og hundum heldur eru rollurnar jafn misjafnar og þær eru margar.
 Þarna voru þær nú upp til hópa fínar og það var óvenjulegt að þær sóttu ekkert í einhverja átt útúr brautinni.

 Þetta varð nú samt sama hefðbunda baslið og í sumum rennslunum komu erfiðar kindur.

 Þær höguðu sér líkt og órólega deildin í vinstri grænum þegar taka þarf á virkilegum vandamálum.
 Stoppuðu, stóðu framan í hundunum, stöppuðu niður fótum og vissu ekkert hvað þær áttu að gera eða hvert ætti að fara. En urðu til mikilla tafa og vandræða í rennslunum. Oftar en ekki urðu þær til þess að ekki náðist að ljúka verkinu og allt endaði í upplausn.
 Ákveðnustu hundarnir réðu nú samt við þetta og eftir að hafa tekið rollurnar til bæna létu þær sér oftast segjast og voru til friðs.
Jóhanna og Steingrímur hefðu kannski eitthvað getað lært þarna.


 Fulltrúi Húnvetninga nánar tiltekið Vatnsnesinga, Halldór á Súluvöllum mætti með tvo í unghundakeppnina / B flokkinn og sópaði til sín verðlaunum. Hér eru þeir Spori að sýna okkur hvernig á að gera þetta. Og þarna er réttin sem svo illa gekk að koma fénu í. Þar sést ógreinilega í eitthvað innst í horninu. 

 Þarna var síðan öflugasta unghundakeppni sem ég hef tekið þátt í, 7 hundar, allir töluvert mikið tamdir og góðir.  Sumir bara virkilega góðir og mjög mikið tamdir.

 Það gekk samt öllum illa að koma hópnum í réttina í lokin. Þegar að Mýrdalsbóndanum tókst það loksins sáum við Valli, sem erum góðir í því að sjá það sem við viljum sjá, hvað var í gangi.

 Mýrdals Móri sem átti nú ekki að vera í umferð lengur, sat inni í réttinni og lét öllum illum látum. Þegar að Gísli kom með sinn hóp brá hann sér hinsvegar útfyrir og hjálpaði við að reka inn.
 Þetta dugði þó Gísla ekki alltaf, sem segir nokkuð um sumar rollurnar hans.

Mýrdalsmóri var greinilega enn inni í gamla hrepparígnum því hann hjálpaði Halldóri á Súluvöllum líka.

 En Halldór er eins og menn vita fæddur og uppalinn á Austurbakkanum og þessvegna er hann nú eins og hann er.


Gísli og Halldór með verðlaunin fyrir B fl.   Gísli 1. sæti   en Halldór annað og þriðja sæti. Aðstoðarmaður þeirra hann Mýrdals Móri er líka á myndinni en það eru víst bara við Valli sem sjáum hann.

 A. flokksmennirnir mættu með fjóra þrælgóða hunda en þetta var nú samt óttalegt basl á þeim.
Ég var farinn að sjá eftir að hafa gefið Vaski æfilangt keppnisfrí, því við hefðum haft gaman af því að sýna þeim hvernig ætti að gera þetta. (Segi nú bara svona).


                                                                      Valli, Hilmar og Gísli.

 Hilmar og Dot náðu fyrsta sætinu . Gísli og Spóla  í öðru og Valli og Skotta í þriðja.

  Aðalslagurinn var í unghundakeppninni  en þar hrepptu Gísli og Kata fyrsta sætið , Svanur og Dáð annað og Halldór og Spori það þriðja.

 Nánar um stigatölur og annað hér. Smalahundafélag Snæfellsnes og Hnappadals
 
Flettingar í dag: 636
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579329
Samtals gestir: 52634
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 09:43:02
clockhere