28.03.2008 10:41

Kjarabaráttan.

 Fyrir okkur sem erum að dúlla okkur í mjólkurframleiðslunni var gríðarlega mikils virði að ná þessari hækkun á mjólkinni 1.apríl. Það var ekki minna virði að það skyldi verða svo til algjör sátt um málið og sýnir hversu þýðingarmikið er að tala hlutina rétt upp. Ekkert væl en staðreyndirnar á borðið. Fulltrúi ASÍ sem eðli málsins samkvæmt á að standa á bremsunni gat ekki verið vægari í mótstöðunni. Í þeirri umræðu hefði reyndar mátt benda á að bændurnir eru auðvitað með sínar neysluskuldir rétt eins og almenni borgarinn. Vaxtakjör búrekstursins hljóta hinsvegar að leita út í verðlagið eins og hjá öðrum fyrirtækjum.  Á þeim tímapunkti sem farið var að velta fyrir sér niðurgreiðslum á áburðarverðinu  steinhætti mér að lítast á blikuna. Slíkur gerningur myndi óhjákvæmilega hverfa til baka á einhverjum tíma hugsanlega án þess að neitt kæmi á móti. Áhyggjuefnið nú er hvernig rétta á af hækkanirna hjá sauðfjárbændunum. Þar er annað kerfi í gangi þar sem verðin stjórnast fyrst og fremst af svína og kjúklingakjötinu þó einhverjir vilja trúa öðru. Hér á bæ þar sem stunduð er styrkjalaus sauðfjárrækt er ljóst að meðlagsgreiðslurnar með dilkakjötsframleiðslunni munu aukast. Þá er bara að ydda blýantinn setja dæmið öðruvísi upp og fjölga liðunum sem laumað er yfir á mjólkurframleiðsluna, líta svo til himins og tala um lífsstíl eins og hitt rollufólkið.
 Ég verð síðan á faraldsfæti um helgina og þar sem sjóferðin til Eyja leggst afar illa í mig og verulegar efasemdir uppi, um að ég lifi hana af  bið ég ykkur vel að lifa og ganga hægt um gleðinnar dyr nú sem endranær.

27.03.2008 23:23

Púki.

  Rétt í þann mund sem Óli Lokbrá var að koma mér inn í draumalöndin hrökk ég óþyrmilega upp við mikinn gauragang í minni heittelskuðu. Hún þaut framúr með miklum látum, út að glugganum og endurtók  hvað eftir annað:  Guð, hann datt í heita pottinn , hann drukknar,hvar er hann??
 Ég hafði verið rammfastur fyrir, frá upphafi búskaparins að ekki yrði köttur á heimilinu.
Þetta var náttúrulega virt eins og aðrar grundvallarákvarðanir húsbóndans og þegar yngri dóttirin fékk það allt í einu á heilann að fá annaðhvort kött eða hamstur haggaðist gamli maðurinn ekki enda um algjört prinsippmál að ræða. Eldri dóttirinn sem var löngu sloppin undan ægivaldi föður síns fékk sér náttúrulega kött um leið og hún byrjaði búskapinn. Því miður (fyrir mig) reyndist kötturinn vera læða og ekki nóg með það heldur var hún með frjósamara móti. Þegar búið var að troða kettlingum inn á alla vini og óvini frá Skagafirði og suðurúr birtist dóttirin eitt sinn í föðurhúsunum og gaf yngri systur sinni ótótlegasta kettling sem ég hef nokkurn tíma augum litið, kolsvartanog kvenkyns  í þokkabót. Varð nú fátt um varnir. Liðu nú fram stundir, kettlingsóbermið varð að myndarlegasta ketti og það var ákveðinn léttir að kyngreining systranna var lítils virði og hlaut sá svarti nafnið Púki. Það kom að því að Púki komst upp á að fara út að skoða heiminn og einhverra hluta vegna var það glugginn á hjónaherberginu sem var notaður fyrir útgöngudyr. Undir glugganum er hinsvegar heiti potturinn staðsettur og vegna sérvisku húsbóndans er engin ljósmengun leyfð við þann hluta hússins svo stjörnu og norðurljósaskoðun geti farið ótrufluð fram. Það sem olli síðan háttalagi húsfreyjunnar sem vikið er að hér að ofan var að Púki sem var á leið inn eftir kvöldgönguna hafði lent ofan í heita pottinum  með miklu skvampi, hvæsi og formælingum. Til þess að auka á hugarvíl minnar heittelskuðu var skuggsýnt út að líta, yfirborð pottsins ókyrrt og virtist sem dökkur skuggi flökti um undir vatnsyfirborðinu. Eftir að húsbóndinn hafði unnið það sér til svefnfriðar að kveða uppúr með að að kötturinn væri ekki í pottinum  lögðust hjónin til svefns dösuð eftir þessar geðshræringar allar. Það var síðan kl. 3.05 sem bóndinn rumskaði við aumkvunarvert mjálmið í Púka sem vildi láta opna gluggann betur svo inngangan gengi nú hnökralaust fyrir sig. Urðu fagnaðarfundir með okkur félögunum því bóndinn var farinn að hafa áhyggjur af blautum  kettinum í rokinu og frostinu. Og nú eru bara 8 líf eftir hjá þeim svarta. (Það er alltof mikið).
 

26.03.2008 23:33

Timburmennirnir.

 Þær báru sig heldur illa margar kýrnar í dag, haltar og skakkar eftir klaufsnyrtinguna.  Nokkrar voru bara illa haldnar.Trúlega hafa nokkrar tognað í sviftingunum og aðrar tekið snyrtinguna nærri sér . Þetta er  greinilega fóðursparandi aðgerð(tímabundið) og  leysir tankvandamálið í leiðinni , svona í bili. Ég lét svo hafa mig í það það trilla bygginu hans Ásgeirs og félaga á traktor inní Hólm . Þar sem traktorinn er alvöru var þetta nú ekkert skelfilegt, og byggið sem fór vestur yfir fjörð í þetta skipti var alveg úrvalsgott. (Engin hálmstrá). Við sem erum í byggþurrkuninni erum orðnir nokkuð naskir á gæðin af einstökum ökrum. Sem sagt allt gott, en misgott. Mér þótti það umhugsunarefni þegar kunningi minn og þrautreyndur byggræktandi sem  keypti nokkur tonn af innfluttu byggi til að láta enda ná saman hjá sér, hafði aldrei gefið þvílíkt drasl áður!! (Þetta innskot er nú bara svona til fróðleiks.) Þessi Stykkishólmsferð varð hinsvegar til þess að rúningnum sem framkvæmast átti í dag var frestað, okkur bændunum til mikils léttis. Til að fullkomna hamingjuna er morgundagurinn og helgin fullbókuð og óhjákvæmilegt að fresta rúningum framyfir helgi. En dj. verður það nú samt gott þegar hann klárast.
Flettingar í dag: 437
Gestir í dag: 110
Flettingar í gær: 839
Gestir í gær: 59
Samtals flettingar: 573651
Samtals gestir: 52145
Tölur uppfærðar: 7.9.2024 14:03:46
clockhere