07.10.2008 21:15

Uppskerulok í Bygginu.

 Það kom að því að þreskingu lyki hér í Eyjarhreppnum sáluga. Þar sem ég er neðstur í goggunarröðinni  var að sjálfsögðu endað  hér. Þetta voru tvær cirka 3 ha. spildur önnur með Skegglu en hin með Lómnum. sem skornar voru í dag. Uppskeran hefur trúlega verið um 3 t. af ha. miðað við 87 % þurrefni sem er ásættanlegt. Af tillitsemi við vini mína (hér og þar) kem ég ekki með nein comment um ræktendur, sem þreskja/vigta byggið blautt og grænt svo þeir geti verið kátir með t/ha.
 Við mælum rúmmetrana við móttöku á bygginu inn í stöðina og margra ára nákvæmar vísindarannsóknir segja okkur það að rúmmeterinn við innvigtun skili okkur um 470 kg af þurru byggi. Við félagarnir sem allir eru hver með sína ræktun, leggjum uppskeruna í sameiginlegan pott á ákveðnu verði og þeir okkar sem nota byggið kaupa það síðan eftir að búið er að leggja á það þurrkunarkostnaðinn. Hitt er selt ( ánægðum kaupendum).

  Nú á einungis eftir að þreskja akrana okkar í Dölunum og var rennt inneftir í dag að kíkja á ástandið þar. Þessir akrar sem hafa skilað okkur jafnbestu uppskerunni síðustu ár, hafa greinlega orðið fyrir hverju áfallinu á fætur öðru í haust. Gæsir og álftir hafa herjað á þá , hluti þeirra lent í flóði í vatnavöxtunum miklu  en aðaltjónið hefur orðið í einhverja suðaustanáhlaupinu og hefur orðið umtalsvert foktjón . Það var samt ákveðið að fara með dótið inneftir og hirða það sem hægt væri.
  Ekki veitir af í kreppunni að halda utanum það sem maður hefur.

  Byggræktin í sumar hefur verið að gefa okkur jafnbestu og mestu uppskeruna frá upphafi þó nokkrir akrar hafi brugðist og gæsaflotinn rústað öðrum.



  Það er búsældarlegt í skemmunni og margra daga verk að ljúka þurruninni á
bygginu sem er í kælingu hér.

  Ef einhverjir byggræktendur eru að kíkja hér í heimsókn væri gaman að fá comment um uppskeruna.


 Það var svo brugðið sér í eftirleit í dag og hér sést Vaskur koma með síðustu tvílembuna inn í hópinn en þær voru á víð og dreif um austurfjallið og ekkert snjóhrafl að fela sig í. Þegar  Móbílda í Kolviðarnesi með bíldóttu lömbin sín, var komin í hús ( í miðið), varð Jón sæll og glaður enda búinn að alheimta þetta haustið.

    Já þetta voru vandamálalausar Vesturbakkakindur.emoticon

05.10.2008 17:17

Kexrugluð austurbakkaræktun!!


  Það blés napurt niður Eiríksdalinn þegar við Atli dóluðum innmeð Laxánni með fjórhjólið á kerrunni. Það átti að smala Hafursfellið í dag og skyldi byrjað á Selsfjallinu.
  Þegar sást inná hlíðina innan við Hlíðarhornið var stoppað og svæðið skannað með kíkinum.
Það var eins og mig grunaði að þrátt fyrir snjóhraflið sáust þarna allavega um 15 kindur.

 Undanfarin ár hafa komið þarna niður hópur fjár sem virðist tapast úr leitum norðar/ austar á nesinu og leita þarna niður með varnarlínunni. Þetta er samansafn fjár sem alls ekki rekst með eðlilegum hætti. Þegar það stendur frammi fyrir því að sleppa ekki í kletta, eða bara í burt, en menn og hundar  farnir  að stjórna hlutunum hættir það alltíeinu að geta gengið, þó ég hafi upplifað það hlaupa á fullri ferð fleiri km. telji það sig vera að sleppa.
  Eftir að hafa metið stöðuna var fjórhjólið tekið af kerrunni og við Vaskur brunuðum síðan yfir ána og inn með girðingunni þar til komið var norðurfyrir  féð ,Vaski síðan skutlað yfir girðinguna og sendur í góðan boga upp fyrir hópana. Féð hafði að sjálfsögðu skipt sér í 3 hópa strax og til okkar félaga sást ,einn stefndi í norður ,annar beint upp og sá þriðji í klettagil í sa.átt. Eftir að Vaskur hafði stoppað þetta allt af og komið þessu saman var Assa tekin í vinnu og við Atli settum okkur í stellingar að stýra hópnum í aðhaldið þar sem hann yrði rekinn á kerruna. Þetta fé sem flest hafði verið þarna árinu áður( nema lömbin), var greinilega búið að afvenjast því að láta hunda stjórna sér, því þrátt fyrir að hundarnir héldu sig í góðri fjarlægð og gerðu allt sem þeim hafði verið kennt til að forðast óþarfa átök gerði hópurinn sér lítið fyrir þegar fór að þrengja að því og setti á fulla ferð beint á þá.  BOOMS og ég lýsi þessu ekki nánar.
  Þegar ég leit yfir hópinn eftir að hann kom á kerruna sá ég nú ekki neitt stórkostlegt á þessum alverstu heilabiluðu en eitt gimbralambið hafði hornbrotnað við að láta reyna á traustleika varnarlínunnar. Það verður svo að viðurkennast að mér létti nokkuð við að engin hornskellt var í hópnum, svo allar fengu far heim.  Það kom náttúrulega ekki á óvart heldur, að nokkrar veturgamlar voru í hópnum því svona stofni vilja eigendurnir að sjálfsögðu halda við. Spurning hvað gerist þegar þjónustan minnkar?


                                 Horft austurúr Núpuskarðinu niður Þórarinsdalinn.
Tvílemban sem sést hér á fullri ferð var ofarlega í vestaverðu skarðinu, er trúlega 3-4 ættliður ruglræktunar kinda sem aldrei koma til byggða í hefðbundnum leitum en eru að nást frameftir öllum vetri víðsvegar á fjallgarðinum.
Ég veifaði henni glaðhlakkalega þar sem hún stóð hin ánægðasta í gilinu við Geithellinn eftir um 3. km hlaup á alveg gígannískum hraða. Það er spurning hvort hún hafi verið hornskellt?


Á leiðinni innúr höfðum við séð nokkrar kindur í skógræktargirðingunni sunnar í hlíðinni og skyldu þær nú sóttar..
 Þarna reyndist vera tvílemba og tvö samstæð lömb. Vaskur var kominn suðurfyrir þau áður en varði og kom fénu umsvifalaust að girðingunni og síðan innmeð henni. Þetta gekk vel þartil í aðhaldið kom en þá endurtók sagan sig, um leið og féð sá blindgötuna snéri það að okkur  og á hundana og mátti ekki á milli sjá hvort var ruglaðra rollan eða móðurlausu lömbin.

  Þessi móðurlausu eru af glænýrri rækunarlínu þeirra austurbakkamanna sem ég kynntist fyrst í fyrrahaust. Þetta er illa gert fé, einhverskonar forystublendingsbastarðar og ég er ekki frá því að einhverntímann í ræktunarsögunni hafi verið gripið til þess að blanda geitum í stofninn til að koma að nýju blóði. Sérstaða þess er síðan sú að útúr hausnum á þeim vex fjöldi hnýfla og horna og er síst til að prýða fyrirbærin. Hvort það er þessum höfuðbúnaði að kenna eða ræktendunum eru þessar skepnur alveg kexruglaðar eða bilaðar í hausnum . Um leið og þær koma auga á smala stökkva þær hæð sína í loft upp og eru farnar að spóla í loftinu fyrir lendingu. Svo þjóta þær eitthvað út í loftið.  Ólíkt hinni ræktunarlínunni sem fyrr er lýst, hlýða þessi fyrirbæri hundi ágætlega þar til fer að þrengja að þeim. En vandamálið er það að þær eru alltaf á harðahlaupum í rekstri. Áfram, útá hlið eða bara í hringi, inní í hópnum. Þó ég sé þeirra skoðunar að við svona ræktun eiga  að nota sömu aðferð og tíðkast í laxveiði nú um stundir, veiða/sleppa  og leyfa síðan eigendunum að njóta þess að ná þeim,  hefur ekki orðið úr því enn. 

   Ég velti því hinsvegar fyrir mér hverskonar bilun það sé að koma sér upp svona fé.emoticon

04.10.2008 20:59

Kýrnar, bygg og rollur.


   Þessar annríkisskorpur eins og nú ganga yfir hér, eiga ekki vel við kúabúið. Annar bóndinn líður um byggakrana á þreskidótinu stærsta hluta sólarhringsins og hinn er eltandi sínar rollur og annarra  dag eftir dag með tilheyrandi rollustússi. Þó það sé lítið  mál að hafa rúllur á fóðurganginum og kjarnfóður í sjálffóðruninni og auðvelt að skipuleggja hlutina útfrá mjaltatímanum vantar tíma fyrir þetta smálega og er ekki á þá vöntun bætandi. Þetta gengur þó ótrúlega vel og þetta árvissa júgurbólguskot sem virðist bresta á, um það leiti sem kýrnar hætta alveg að fara út, varð ekki mjög kröftugt í þetta sinn. Hugsanlega tengist það nú frekar mörgum nýbærum og mörgum að fara á geldstöðu frekar en hýsingunni. Allavega er engin í meðferð í augnablikinu sem vonandi varir sem lengst.
  Það sér kannski fyrir endann á þreskingunni. Akrarnir í Dölunum sem yfirleitt eru teknir fyrstir sátu eftir í þetta sinn vegna tíðarfarsins og nú eru aðeins eftir um 5 ha. hjá mér, annar er dálítið lagstur og tekur snjóinn seint uppúr legunum. Hinn mætti vera þroskaðri en hann er gríðarlega sprottinn og hefur sennilega búið við of  mikla næringu, en þetta var tún á fyrsta ári í endurvinnslu.
 Það er spurning hvort hann verður tekinn á morgun og uppskerunni haldið sér,  sem lakara fóðri. Já, því nú eru gerðar strangari gæðakröfur í bygginu en áður.  Uppskeran var betri en oft áður hjá flestum ræktenda en gæsir og Álftir ullu verulegu tjóni hjá sumum. Þetta er fyrsta haustið sem veðurfarið hefur ekki valdið miklum usla þrátt fyrir gríðarlega úrkomu á lokasprettinum. Nýja íslenska yrkið, Lómurinn sannaði sig og verður notaður hér áfram( með öðru) þrátt fyrir að það gefi ekki hálm.

  Og fyrsta gæsaskyttugengið mætir hér kl. 1/2 6 í fyrramáli og þá verð ég að
 verða klár í gædið.emoticon 
Flettingar í dag: 793
Gestir í dag: 78
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579486
Samtals gestir: 52638
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 11:31:18
clockhere