04.03.2009 22:46

Nýja Ísland og kvótakerfið.



Fyrir tuttugu og eitthvað árum kom ég aðeins að því með félögum mínum í stéttarsambandi bænda að móta grunnreglur fyrir kvótakerfi í mjólkur og sauðfjárframleiðslu.

  ´A þessum var var mikil offramleiðsla og með þessu var komið böndum á hana, þrátt fyrir skiptar skoðanir um hvort skiptingu framleiðsluréttarins hefði ekki mátt úthluta með einhverjum öðrum hætti en gert var. Fljótlega kom í ljós að framleiðsluheimildirnar þyrftu að vera breytilegar eftir búsetuþróun og allskonar búskaparbreytingum og þá byrjuðu vandræðin.  Ekki þótti við hæfi að innkalla ónýttan rétt og úthluta aftur, heldur skyldi leyfð sala á réttinum og framboð og eftirspurn ráða verðinu.

  Ég og fleiri sem höfðu verulegar efasemdir um ágæti þessarar aðferðar  gátum ekki bent á trúverðugri leið í stöðunni.  Það sem hefur farið mest fyrir brjóstið á mér allar götur síðan er að  beingreiðslurnar, framleiðslustyrkurinn sprengir upp verðið á réttinum. Þetta verður þannig í framkvæmdinni að bóndinn sem er að hætta framleiðslunni fær í raun fyrirframgreiddan framleiðslustyrk, fyrir næstu 5- 10 ára framleiðslu frá bóndanum sem kaupir. 

  Það var því áhugavert að heyra háttvirtan landbúnaðarráðherra tala um það í auðlindinni í morgun að þetta þyrfti að stokka upp og ekki annað að heyra en það yrði farið í það fljótlega á næsta kjörtímabili ef guð og kjósendur lofuðu.

  Ég settist allavega við tölvuna og eyddi tilboðinu sem ég ætlaði að gera í auglýstan framleiðslurétt
í dag eða á morgun. 

  Þar sem ég er alltaf að gefa frömmurunum góð ráð, finnst mér hæfa vel nýja lúkkinu hjá þeim að setjast niður og fatta upp á einhverjum skynsamlegum tillögum í þessum efnum. Þeir gætu kannski slegið sér aðeins upp á því eftir undangenginn vandræðagang. Á Nýja Íslandi vill örugglega enginn vera að greiða framleiðslustyrk til þeirra sem eru hættir framleiðslu, eða hvað.?

  Trúlega er þó til töluvert af frömmurum sem eru fastir í gömlu forritunum, en þeir eiga væntanlega erfitt með að finna stjórnmálaflokk sem stendur á móti því að hagræða í málaflokknum og koma honum inn í nútímann.


Já, hann Steingrímur fær prik fyrir að opna á málið.( Af öllum mönnum.)emoticon



03.03.2009 20:08

Lottóið,akuryrkjan og djúpa laugin.


 Það er ótrúlega stutt síðan við byggræktendur supum hveljur þegar sáðfræið hækkaði úr 50 kr.kg. í 60 kr. milli ára. Þá kostaði fræskammturinn í ha. 12.000 kall og áburðurinn annað eins og þótti dýrt.

  Nú er komið að því að Dalsmynnisbændur og reyndar aðrir líka, þurfa að ákveða hvort, eða hvað mikið eigi að sá af byggi næsta vor.  Núna kostar sáðfræið" aðeins " 25.000 kall á ha. og áburðurinn um 28.000 kr.   Og akuryrkjan sem er endalaust lotterí verður við þetta verulegt áhættuverkefni sem áhættufíklum finnst spennandi
að glíma við. Þetta er  lottó sem snýst ekki um gróða heldur hve tapið verður mikið/lítið.


               Það er skemmtilegt þegar hvítagullið hleðst upp í þurrkuninni.

  Já það er spáð í gengisþróun og verðþróun á innfluttu kjarnfóðri, hugsanlegar tekjur af hálmi og hvort náist einhver styrkur á ræktunina því nú á að að framleiða  íslenskt sem aldrei fyrr.  Reyndar eru nú að renna upp glænýir tímar í styrkjasögu íslensks landbúnaðar ef Bjargráðasjóðurinn verður notaður í áburðarkaup, til að komast hjá uppskerubresti !  Þetta hlýtur að skiljast þannig að menn leggi að jöfnu stórfellt kalár og áburðarverðshækkanir á krepputímum. 
 
   Fallegur akur gleður augað a.m.k. áður en allt fýkur af honum. Vaskur er þarna í hæðarmælingum.

   En það skiptir trúlega engu máli hve mikið er spáð í hlutina á þessum upplausnartímun, niðurstaðan verður ekki trúverðug hvorki fyrir auðtrúa sálir eða gúrúana.

  Er ekki bara réttast að loka augunum og stökkva, rétt eins og maður stökk í djúpu laugina í gamla daga.

  Alltaf komst maður upp á bakkann aftur.emoticon    

   
  
   
 
  
  

  

01.03.2009 22:09

Hugsjónirnar og pólitíkin.


   Hvað er þetta, sagði mín heittelskaða (og röddin hljómaði eins og hún væri rétt í þessu að uppgötva að ég væri verulega greindarskertur.)
    Þetta er bara ungt fólk með hugsjónir.

  Tilefni þessa var, að ég var eitthvað að velta fyrir mér þeim gríðarlega framboðsáhuga sem allt í einu helltist yfir,  þrátt fyrir að nýbúið væri að stórskerða eftirlaun væntanlegra þingmanna og ráðherra sem höfðu loksins náðst í ásættanlegt lag ( Að mati forvera þeirra .). 

  Já því nú er allt að gerast í pólitíkinni. ( Sem er bara skemmtileg nú um stundir, hvað sem Ransý segir.)
   Ómar Ragnars leiðir Íslandshreyfinguna sína í náðarfaðm Össurar álverssinna, enda öllum ljóst að í kreppunni fækkar þeim verulega, sem vilja vernda fósturjörðina fyrir óþarfa spjöllum.

  Fyrrverandi (skammtíma) formaður frammaranna skaut sig og eiginlega alla hina frammarana í fótinn þegar hann myndaði allt í einu meirihluta með sjálfstæðinu á dögunum. Það vöknuðu trúlega margir upp við vondan draum og uppgötvuðu það, að nú þegar  sjálfstæðismenn eru óðum að ná vopnum sínum á ný, þá gæti endurreistur framsóknarflokkur þýtt akkúrat þessa niðurstöðu. 
 Og stór hluti þeirra sem Sigmundur Davíð ætlar að landa inn í flokkinn fyrir kosningar vill mjög gjarnan gefa íhaldinu frí a.m.k eitt kjörtímabil, helst miklu lengur.

  Svo er Kiddi sleggja mættur til leiks og eykur enn á vandræðin hjá þeim. Ef þeim tekst ekki að verja fyrir honum tvö efstu sætin þá lítur þetta ekki vel út hjá þeim í þessu kjördæmi. Já Kiddi er seigur, hann vippar sér jafn léttilega milli flokka og forfeður hans milli trjánna í den. Ætli hann sé knúinn áfram af hugsjónunum??

  Kratarnir eru svo að keyra allt í klessu. Ingibjörg ákvað að halda áfram svo það virðist orðin stefna hjá þeim að vera með svona forsætisráherraefni með formanninum. Jón Baldvin telur samt rétt að koma inn og klára evrópumálin. Hann ætlar væntanlega að ná hreinum meirihluta á þingi svo það gangi.

  Og  fölgrænir klikka ekki. Ögmundur tók sér nokkurra mán. frí frá kjarabaráttunni í BSRB til að berja á opinberum starfsmönnum. Hann tekur hverja sparnaðartillögu forvera síns til baka á fætur annarri og bendir ekki á neinn sparnað á móti. Byrjaði að sjálfsögðu á því, að ákveða að reka áfram 5 fullmannaðar skurðstofur á suðvesturhorninu þó tvær  dygðu, enda mikið af vellaunuðum störfum í húfi og margir ósáttir kjósendur.

  Ég er alveg sammála þessu. Bara setja meiri pening í þetta og vandamálið er leyst. Góður hann Ögmundur. Bara að hlusta á fólkið, þá fer allt vel.
  
  Í öllum þessum hræringum hafa meira að segja 3 spurt mig hvort ég væri ekki að fara í framboð.
Einn þeirra var pottþétt að grínast. Ég er ekki viss um einn og sá þriðji hann meinti þetta.  emoticon

 Að vandlega íhuguðu máli og þrátt fyrir fjölda áskorana ætla ég samt ekki að gefa kost á mér til alþingis. emoticon 

 A.m.k ekki í þetta sinn.emoticon 

  



   
Flettingar í dag: 428
Gestir í dag: 109
Flettingar í gær: 839
Gestir í gær: 59
Samtals flettingar: 573642
Samtals gestir: 52144
Tölur uppfærðar: 7.9.2024 13:40:02
clockhere