24.10.2008 20:00

Lægðirnar.


  Nú dynja á okkur lægðirnar, hver á fætur annarri , bæði af náttúrulegum völdum og mannavöldum.
Þessar náttúrulegu eru í lagi enn, en  efnahagslegu lægðirnar eru vondar. Góðu fréttirnar eru þó að olían lækkar og hluti áburðarverðsins fylgir henni  niðurávið. Svo verðum við að trúa því að krónuræfillinn hressist fyrir vorið ( helst fyrr).

  Sauðfjárbændurnir sem ég heyri í þessa dagana eru ekki mjög kátir. Þeir sem voru ákveðnir í að kaupa ekki áburð í vor og hætta næsta haust eru hugsi,  því að hverju er að hverfa á Íslandi í dag? 
 
Einn þeirra benti mér á það í dag, að þegar meira en helmingurinn af tekjunum, færi í áburð, plast og olíur væri þetta orðið dálítið vonlaust. Annar velti því fyrir sér hvort ekki væri rétt að láta bara allt fara á hausinn sem gæti farið á hausinn og vita hvað gerðist í framhaldinu. Þetta var nú reyndar fyrrverandi austurbakkamaður, en austurbakkamenn eru eins og allir vita, ráðsnjöllustu og framsýnustu menn á töluvert stóru svæði og þótt víðar væri leitað.
 
 Það er ótrúlega hljótt um það, hve mikil tregða er á öllum innflutningi. Þeir sem t.d. sjá um varahlutaþjónustu fyrir allt dótasafn landans, bæði þetta nauðsynlega og allt hitt, ná engu inn og hlýtur að stefna í veruleg vandræði þar. Eins gott fyrir bændavarginn að hábjargræðistíminn stendur ekki yfir í dag.
 En nú er það útflutningurinn sem gengur. Hrossasalan takmarkast af útflutningsgetunni í fluginu og það sem snýr að okkur dótafíklunum er að ákveðnar notaðar dráttarvélar seljast út á þvílíku verði. Það nýjasta í bíssnisnum er sú hugmynd að flytja út tiltölulega nýlegar vélar og endurnýja þær síðan þegar krónan verður orðin stór og sterk á ný.

  En ætli sé ekki rétt að byrja á því að flytja  útrásarliðið út eins og það leggur sig??? emoticon

22.10.2008 17:51

Eftirleitir.


  Stundum finnst manni með ólíkindum fjöldi kindanna sem eru að koma fram á fjallgarðinum í kringum mig framá vetur. Á þessu eru trúlega þónokkrar skýringar og ein þeirra er sú að  vegna fámennis er fjallgarðurinn ekki leitaður í samfelldri  leit beggja vegna. Heldur er verið að leita samliggjandi svæði , kannski með viku millibili o.sv. frv. Síðan er veruleg ásókn kinda sunnanað innyfir og náist þær ekki í leitum eru þær dólandi til baka´.

 Nú er verið að kíkja á svæðið og fara á þau þeirra sem hafa gefið best liðin haust.

 Í Selsfjallið sem hefur verið dauðhreinsað tvisvar í haust voru nú mættar 11 kindur.
Þær voru komnar langleiðina niður að girðingu en um leið og þær urðu varar við bílinn var tekið til fótanna beint upp hlíðina. Sem betur fer er Atli með fluggír á Toyotunni og þó hann væri fjarstaddur var gírinn virkur. Það var brunað uppað girðingunni og Vaskur sendur af stað. Þar sem kindurnar voru hátt uppi kom hann ekki auga á þær strax og þó hann ryki af stað í rétta átt var mér hætt að lítast á blikuna þegar hann loks sá þær og rétti sig af.



  Við Vaskur erum komnir á þann aldur að það sem var erfitt í fyrra, er mun erfiðara núna og hann þurfti virkilega að taka á honum stóra sínum í þetta sinn. Hinumegin brúnarinnar er stutt í hundleiðilegt gil sem hefði getað orðið til verulegra vandræða.



  Hann fékk svo aðeins að pústa því það var engin hætta á að ballið væri búið þarna.



  Meðan Þverárbóndinn gerir allt klárt við bílinn virtum við Vaskur fyrir okkur kindurnar sem voru ekki úr rugldeildinni. þrátt fyrir að 5 þeirra væru frá vinum mínum, umm, hérna í næstu sveit.
 Þarna var mætt gimbrin sem ég heimti úr Stóra Langadal í mars sl. ( sjá blogg 31/3 ) með stærðar hrútlambi. Hún setti mig alveg útaf laginu, því þegar ég kvaddi hana í vor var henni gerð grein fyrir því, að yrði hún sótt eftir leitir, í Langadalinn væri hún í mjög vondum málum.

 Já , hvað gera bændur nú??emoticon

21.10.2008 19:41

Veturinn bankar.


 Alltaf er maður jafn óviðbúinn vetrarkomunni hvort sem hann mætir í okt. eða des.
Það er jú alltaf sitthvað sem þarf að ljúka fyrir veturinn eins og sagt er, og því er oftast ólokið þegar hann brestur á.

 Það var ekki lengur undan því vikist að taka inn kvígurnar sem annaðhvort eiga að bera seinnipart vetrar eða eru ófengnar. Þær hafa verið að dunda sér við að ljúka við rýgresið og voru reyndar komnar með rúllu til sín um það er lauk. Fengnu kvígurnar voru teknar í lausagönguna en hinar vistast í gamla fjósinu í vetur.

  Til að staðfesta endanlega að nú fer fimbulvetur í hönd var svo fyrsti fundur um fjárhagsáætlun skólans í kvöld.
 Það er nokkur uggur í okkur sveitarstjórnarmönnum um nánustu framtíð . Engum blandast hugur um að tekjurna munu lækka en allar kostnaðartölur hækka . Þetta á því miður við um einstaklingana alveg eins og sveitarfélögin og ekki öll kurl komin til grafar í þessum efnum.

   Já svona hefur vetrarkoman slæm  áhrif á hugarfarið hjá mér. emoticon
Flettingar í dag: 1050
Gestir í dag: 110
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579743
Samtals gestir: 52670
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:05:34
clockhere