28.12.2012 08:31

Rörtengur, sleggjur og tölvufídusar

 Stundum lítur maður um öxl og sér þá gjarnan hlutina í vandamálalausum hillingum.

Lífið var einfalt, ef dráttarvélarnar fengu olíuna sína áður en tankurinn tæmdist gengu þær. Það var skipt um smur og koppar smurðir svona eftir hentugleikum kannski árlega .

 Ef eitthvað bilaði komu skiptilykillinn og rörtöngin sér vel og sleggjan og meitillinn ef þau dugðu ekki.

 Nú er öldin önnur, þægindin komin úr öllu hófi og skiptilykillinn og rörtöngin ryðga uppá vegg. Nú eru það rafmagnsfídusarnir sem gera manni lífið leitt milli þess sem þeir virka.

Ekkert tæki til sem ekki er búið tölvum í bak og fyrir og ýti maður á vitlausan takka er allt komið í botnlausar skelfingar,

 Ein af þessum tölvuvæddu græjum er mjaltabásinn sem verður að skila sínu tvisvar á sólarhring allan ársins hring.



 Þetta fyrirbæri er í mjaltabásnum og um leið og kýrin kemur í básinn kemur númerið hennar fram á skjánum og þar getur maður kallað fram allar upplýsingar um hana ef vill. Nythæð er skráð sjálfvirkt inn ásamt mjaltahraða og ef hún er á lyfjameðferð eða á ekki að mjólkast saman við, sér græjan um það að ekki er hægt að setja tækið á  kúna o sv. frv.

 Þessi  8 ár sem mjaltabásinn hefur verið í notkun held ég að einungis einu sinni hafi þurft að brenna í bæinn eftir varadælu svo hægt væri að ljúka mjöltum.



Til að tryggja öryggið sem best er þjónustuaðilinn fenginn einu sinni á ári að yfirfara allt dótið og þar er sett upp og haldið utanum prógramm sem tryggir viðhaldskerfið eins vel og hægt er.

 Því það er ekki nóg að básinn gangi sína 365 daga á ári heldur verður allt að virka rétt svo spenar og júgur verði sem mest til friðs.



 Þjónustugengið frá Jötunn Vélum mætti í gær og þó þetta árið væri ekki um " stóra " yfirhalningu að ræða rétt entist dagurinn þeim í verkið.



 Og þegar allt gengur smurt er bara býsna gott að byrja daginn á þessum vinnustað.
 
En  kaupið mætti auðvitað vera hærra og frídagarnir fleiri.

22.12.2012 20:58

Jólagjöfin þetta árið!!!

 Góðir hlutir gerast hægt.

 Þó stressleysið í framkvæmdum Dalsmynnisbænda sé orðið algjört er samt verið að vinna sig niður forgangslistann hægt og sígandi.

 Þó gjafaaðstaðan eins og hún hefur verið síðan féð var tekið inn hefði þótt afbragðsfín fyrir ekki svo löngu er hún alls ótæk í dag.



 Þegar átti að fjárfesta í rúlluklónni neðan í hlaupaköttinn var hún í fyrsta lagi ekki til.
Í öðru lagi átti hún að kosta 60.000 kall.

 Þetta mál fór ekki einu sinni í nefnd , heldur var ákveðið að smíða rúlluklóna þegar tími gæfist.

 Nú hefur hjólbörunum verið lagt í bili og tæknin verið tekin í vinnu.

Fyrir alla meðaljóna í sauðfjárbúskap er þessi tækni velþekkt svo þeir þurfa ekki að lesa lengra. Þið hin sem haldið að heyið sé borið í fanginu fram á jöturnar ættuð að halda lestrinum áfram.



 Það er komið með rúlluna inn í vinnuaðstöðuna og skorið aðeins ofan í hana með rúlluhnífnum.



 Rúlluklóin góða ( þessi a la Atli Sveinn) er sett utanum um belginn á henni þar sem hún læsir sig fasta við hífingu.
 Hlaupakötturinn/talían kemur henni síðan í gjafagrindina þar sem plast og net er fjarlægt og þar sem búið er að skera ofaní rúlluna er auðvelt að jafna henni út í grindinni.



 Síðan eru borðin í hliðum grindarinnar hækkuð eftir því sem heyið lækkar.



 Þessi mynd er tekin 4 tímum eftir áfyllinguna í dag og efsta fjölin komin upp að vísu óþarflega snemma. Nú er átið farið að jafna sig og gjafagrindin mun ekki verða fullsetin aftur fyrr en næst verður gefið. Kannski seint á jóladag eða annan í jólum.

Já , þetta var semsagt jólagjöfin í ár. 


 

20.12.2012 21:28

Grunnskólaþjónustan og baklandið.

Fyrir margt löngu var ég í allskonar aukadjobbi með brauðstritinu.

 Mér eru m.a. minnistæð frá þessum tíma 3 símtöl sem ég átti við óskylda aðila sem áttu það sameiginlegt að vera búsettir á svoköllum jaðarsvæðum þess tíma. Eiga ung börn komin eða að verða komin á skólaaldur og sættu sig ekki við nýorðna eða fyrirsjáanlega breytingu á grunnskóla sveitarfélagsins. Í öllum tilvikunum  sættu þau sig fyrst og fremst ekki við fjarlægðina í skólann.

Og erindið var að spyrjast fyrir um jarðnæði sem ég vissi skil á og grunnskólaþjónustu svæðisins..

 Það kom nú ekkert útúr þessum fyrirspurnum  en öll þessi býli sem um ræddi eru löngu komin í eyði og nágrenni þeirra.

  Síðan hef ég verið vel meðvitaður um það að sé  grunnskólaþjónustan ekki viðunandi að mati foreldranna, vantar langöflugustu stoðina undir lífvænlegt samfélag.

 Eyja-og Miklaholtshreppur rekur sinn grunnskóla að  Laugargerði og selur Borgarbyggð þjónustu fyrir börn úr Kolbeinsstaðarhrepp.

  Þar eru í vetur 23 nemendur  auk 8 barna í leikskóla.

 Þetta er að sjálfsögðu nokkuð þung rekstrareining og eins og velþekkt er í svona strjálbýli er nemendaframboðið nokkuð sveiflukennt eftir meðalaldri íbúanna.

 Þá er mikilsvert að menn snúi bökum saman um það hvernig skólahaldinu sé best háttað fyrir svæðið í heild.

 Á líðandi ári hafa skólanum borist myndarlegar gjafir sem sýna stórhug og velvilja viðkomandi til skólans og skilning á mikilvægi hans.



 Hér er Eggert á Hofstöðum mættur í skólann fyrir hönd Múlavirkjunar og færði skólanum að gjöf borð og stóla fyrir 9 og 10 bekk ásamt ýmsu fyrir leikskóladeildina.

 Og á dögunum mætti Bryndís á Miðhrauni fyrir hönd þeirra Sigurðar bónda og Fiskverkunarinnar  á Miðhrauni og færði skólanum að gjöf 15 vandaðar spjaldtölvur.


 Bryndís að afhenda Kristínu Björk skólastjóra gjöfina. 

 Þess má til gamans geta að bæði Bryndís og Eggert sóttu sitt grunnskólanám í Laugargerði.



 Nú er verið að vinna í því að koma námsefni inná tölvurnar svo þessi nemendahópur sem er hér með gefandanum geti nýtt sér þær við námið.


 Í þessum skemmtilega hóp eru töluð 4 tungumál.

 Svo er það spurningin hver staðan í grunnskólaþjónustunni verður þegar þessi leikskólabörn eru komin á fullt í náminu.
 

 

Flettingar í dag: 745
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 953
Gestir í gær: 86
Samtals flettingar: 436380
Samtals gestir: 40262
Tölur uppfærðar: 12.5.2024 11:56:34
clockhere