16.06.2008 11:38

Sleppitúr 5.d. Svínafell.



 Reksturinn farinn að lesta sig og forreiðin auðvitað hvorfin á undan ef eitthvað færi úrskeiðis.

 Þrátt fyrir góða veðurspá daginn áður var þungbúið loft og mikil rigningarlykt í loftinu. Dagurinn átti að byrja með eins hesta ferð út í Ingólfshöfða  Síðan yrði riðið út að Svínafelli sem yrði síðasti áfangastaður austan Skeiðarársands.
 Þetta var fyrsti dagurinn sem enginn heimamanna slóst í hópinn.
 Þrátt fyrir úrkomu hertu allflestir sig uppí að ríða í Höfðann/eyna og var hrossunum ekið að flugvellinum á Fagurhólsmýri en þaðan er um 9 km. út á höfðann.
 Það var mikið sullumbull á leiðinni og sandurinn nokkuð þungur í restina. Skúminum leist illa á svona hestaferðalanga og fór um suma þegar þessi flikki steyptu sér niður að okkur . Á bakaleiðinn sást vel hversu þungbúið eða dimmt var með fjöllunum enda var veðrið miklu verra þar ,lárétt rigning eins og á Nesinu og mikil úrkoma. Gunnar bóndui sagði rigningu í norðanátt slæmt mál á þessu svæði og skyldum við hinkra eins og við gætum því veðrið myndi skána frekar en hitt. Hrossin sem í Höfðann fóru  skyldi ekið beint vesturfyrir sand að Hvoli og buðust menn nú hver í kapp við annan að taka að sér bílstjórn eða aðstoða við flutninginn. Hinir sem ríðandi fór lögðu svo af stað gallaðir  og 15 hrossum fátækari.  Uppáhaldshross eftirreiðarinnar leiddi reksturinn strax á villigötur og varð úr hálftíma töf en eins og alltaf, leystist málið farsællega. Það var auðvitað Hyrjar sem tók af skarið og sýndi óþekktarormunum í tvo heimana.
 Við vorum varla komin upp á aurana vestan/norðan Hofs þegar brá til hins betra með veðrið og vorum við komin á skyrturnar áður en lauk. Var ljóst að bílafólkið var komið í slæmt mál . Við stoppuðum lengi við Sandfell, kynntum okkur sögu staðarins sem var á aðgengilegum upplýsingarspjöldum en þetta var fyrrum stórbýli sem lagðist í eyði eftir gos??.  Við slugsuðum  kannski ekki síður þar, vegna þess að í Svínafelli yrði haldin grillhátíð mikil og ætlaði bílafólkið að hefja undirbúning hennar ef það yrði á undan okkur. Þarna ákvað ég að gefa Hyrjari frí vegna undangenginna átaka og lagði á Dögg síðasta spölinn. Þarna með fjallinu hittum við síðan á ævaforna götu sem var að mestu horfin  og reyndum að halda okkur við hana. Fljótlega komum við að þó nokkru vatnsfalli kolmórauðu ,straumhörðu og botninn greinilega stórgrýttur.Fór nú að fara um undirritaðan  sem treysti fararskjótanum illa í svaðilfarir og saknaði nú Hyrjars sem lék á alls oddi í rekstrinum og næðist varla við þessar aðstæður. Var því látið duga að fara með allar þekktar bænir auk þess sem heitið var á Óðinn og Ása Þór til öryggis. Ég veit ekki hverju það var að þakka að land náðist hinu megin en sjaldan hef ég orðið hræddari um líf mitt en þarna.
 Nú fór land að verða víði vaxið og gatan týndist okkur Auðun sem erum þó fagmenn í landlestri. Lentum við í óreiðum skógi og urðum að snúa aðeins til baka eftirreiðarfólki til óblandinnar ánægju. Og að Svínafelli enduðum við og vorum að sjálfsögðu blaut í fæturna eins og venjulega í ferðalok.  Tekist hafði að fresta lokun sundstaðarins og komumst við í heitu pottana sem hefðu að vísu mátt vera heitari. Og grilluðu lambalærin voru ólýsanlega góð í kvöldsólinni en lagt var á langborð utandyra. 
   Og söngkórinn var að sjálfsögðu endurvakinn þetta síðasta kvöld okkar austan vatna.
 

15.06.2008 00:10

Sleppitúrinn 4 d. Litla Hof


Frá v.    efri.r. Gestgjafinn , Jói,Gulli og Laufey,Jonni,Svanur,Skúli og Jón El.
fr.röð. Auðun,Stjáni,Dagný, Öddi,Axel og Gunni.
 Áð í Hrollaugsborgum(held ég) . Þangað færði konan hans Axels(man því ,miður ekki hvað heitir) okkur m.a. soðin kríuegg í ómældu magni.

  Einn af fjölmörgum göllum okkar gömlu sleppitúrsmannanna er það, að okkur er ekki gefið að syngja mjög vel .Stjáni  er þó góður og bjargaði oft málununum þegar við vorum fámennir og þurftum að taka lagið með einhverjum. Þegar Gunni og Gugga bættust við í fyrra, lagaðist þetta verulega og þegar Dagný bættist við í ár fór þetta að líta vel út.
 Þegar Gugga og Dagný tóku  Vatnsenda Rósu með sem mestu tilþrifum lá við að gömlu perrarnir táruðust og er þeim þó ekki grátgjarnt.
 Það má segja að Dagný hafi komið sterkt inn á tvennan hátt því hún hefur í hestakosti sínum moldóttan klár sem var betri en enginn þegar reksturinn tók einhverjar óvæntar aríur og afbragðs ferðahestur að öðru leiti..

  Já það var lagt upp frá Lækjarhúsum á tilsettum tíma. (Sem er alltaf rauntími.)
   Þá var búið að koma bílunum að Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi og koma upp hólfi fyrir hrossin en þaðan yrðu þau flutt að Litla Hofi um kvöldið.
 Nú slógust í för auk Ödda , Laufey og Gulli í Lækjarhúsum og Axel sem gædaði okkur þennan dag. Fyrst áfangi var að Jaðri til Ingimars stórvinar okkar. . Kálfafellstaður, prestsetur þeirra Suðusveitunga er þar í sömu torfunni . Þar þjónar nú fyrrverandi sálusorgari minn og nágranni. Einar Jónsson sem bjó í Söðulsholti í nokkur ár.
 Ég reið að sjálfsögðu í hlað hjá Einari en þar náðist enginn til dyra og kannski enginn heima, en mér er til efs að þar hafi nokkurntímann riðið Eyhreppingur í hlað fyrr í Íslandsögunni. Nú bauð Ingimar okkur til bæjar og gaf okkur kaffi sem sumir höfðu nokkra þörf fyrir. Hann gekk síðan til búrs og kom með hitt lærið af þeim veturgamla sem reyndist engu síðra.. Nú bætti hann um betur og gaf okkur lærið sem reyndist okkur vel og dugði til ferðaloka.
 Þennan dag voru reiðgötur misgóðar og siðari hluta dagsins fórum við götulausa mela og áraura. Þetta land var að stærstum hlut tiltölulega nýkomið undan jökli sem hefur hopað með ólíkindum síðstu 30 árin. Þegar ég kom að lóninu fyrir nokkrum árum var vatnabílunum ekið í lónið nánast við þjónustumiðstöðina. Nú er þeim ekið einhverja km. að jökli áður en farið er í lónið. Við sleppitúrsmenn erum ekki óvanir götulausum leiðum því einn okkar er afar góður á kortunum og ríður alltaf fremstur. Stundum eru göturnar á kortunum hinsvegar ekki fyrir hendi á landinu sem riðið er eftir og er það vegna lélegra kortagerðamanna. Þetta var sérstaklega slæmt einhverju sinni á leiðinni,Þingvellir- Skorradalur og sýndist okkur eftirá að spottinn sem átti að vera 45- 50 km hefði verið farinn að nálgast 100 km óþægilega mikið í áfangastað og líklega algjör tilviljun að hitta á Skorradalinn. Nú , við náðum farsællega að lóninu og sæmilega gekk að koma hrossunum að Hofi . Og Einar sem þurfti að eyða deginum í Reykjavík á afmæli systur sinnar slapp lifandi úr flugferðinn báðar leiðar og með honum til baka kom Halldóra sem kláraði túrinn með okkur og var flokkurinn nú loks fullskipaður. Þegar við lýstum deginum fyrir Einari var þetta að sjálfsögðu langbesti dagurinn. Eeen þrátt fyrir góða grillveislu var ekki mikið sungið þetta kvöld.

  Mér gengur svo ákaflega illa að verð mér úti um myndir úr túrnum og er farinn að velta fyrir mér hvað sjáist eiginlega á þeim??
 
 

14.06.2008 17:17

Sveitamarkaður.

 

 Þegar  " stelpurnar " í sveitinni settu upp sveitarmarkað í fyrra hafði ég pínulitlar efasemdir um að þetta gengi í fámenninu. En þetta gekk fínt og markaðurinn í dag gekk enn betur.
Ég komst að vísu ekki en þegar ég kom þreyttur og móður til byggða eftir rebbaleit fékk ég þessar fínu kökur með kaffinu(enn betri en venjulega.)
 Já markaðurinn er örugglega kominn til að vera og kannski kemst ég næst til að kaupa mér alvöru sokka fyrir veturinn.

Flettingar í dag: 381
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 953
Gestir í gær: 86
Samtals flettingar: 436016
Samtals gestir: 40245
Tölur uppfærðar: 12.5.2024 08:07:11
clockhere