21.12.2010 09:50

Hrútagrobb ársins.

 Það er rétt að ljúka þessum rolluæxlunarfræðum með kynningu á hrútastofni búsins.

Það hefur lengi fylgt mér að hafa hrútafjöldann í lágmarki og þó stundum hafi það staðið tæpt hefur þetta alltaf sloppið til.

  Þrátt fyrir nokkuð stöðugar sæðingar gegnum tíðina kemur oft fyrir að það er heimaræktunin
( blönduð sæðingum) sem verður eftir. 
  Það er með mig í ásetningsvalinu eins og íslenska valdamenn sem láta ekki vini og ættingja gjalda vináttunnar þegar kemur að stöðuveitingum.

 Gnarr er nú samt tilkominn úr sæðingum undan Hólma frá Hesti en móðurættin er nú ómenguð allt að langafa móðurinnar sem er Svaði Hörvason.
 Gnarr verður notaður til hins ýtrasta í vetur því ég hef ofurtrú á honum þar til annað sannast.          "Þrátt" fyrir að faðirinn og langalangafinn séu frá Hesti er Gnarr alveg sérstök geðprýðiskind í allri umgengni og hagar sér eins og gamall reynslubolti í fjárhópnum..



 Hinn lambhrúturinn  sem settur var á hann Dagurr,  er undan heimahrút og skaut félögum sínum úr sæðingunum  aftur fyrir sig í lokavalinu. Hann fær nú bara 8 ær til að þjónusta þetta árið og frammistaðan þar mun síðan ákveða framhaldið hjá honum. Ég þorði samt ekki að senda hann á hrútasýningu svona " ættlausan " en það var trúlega óþarfa hæverska.



 Hann er undan sjálfum Hyrr sem er á sínu síðasta notkunarári og búinn að gera það gott. Hyrr er að koma mjög vel út sem ærfaðir ásamt því að bæta gerðina á fénu.
Hann er með 114 fyrir fitu, 102 gerð, 110 mjólkurlagni og 105 fyrir frjósemi.

 Hyrr er undan Hyl 01-883 og 00- 059 sem þarf náttúrulega ekki að hafa mörg orð um fyrst hún skilaði af sér svona snillingi.

 Hinn fullorðni hrútur búsins heitir Raftsson sem segir allt sem segja þarf en hann er nú samt þolanlegur í umgengni. Dætur hans fá samt að gjalda þess ef þær fara að leita upp veggina eða vilja stjákla ofan á hinu fénu, þá lenda þær í Hvíta húsinu á Hvammstanga og skiptir engu hversu góð gerðin er. Móðirin var óreynd þegar Raftsson kom í heiminn og hún er ekki að standa sig nógu vel í hörðum tölvuppgjörsheimi búsins og hann mun því ekki setja stór spor í ræktunina hér.
 Það verður þó ekki af honum haft að þær fáu dætur hans sem komust gegnum nálaraugað eru að skila sínu vel á búinu.
Raftsson er með 116 fitu, 112 gerð, 102 mjólkurlagni og 104 frjósemi. Hann er f. 2008 og því fáar dætur á bak við þetta.



 Aldrei þessu vant var ég með varahrút fyrir gemlingana ef Billi Boy myndi ekki standa sig sem hann gerði ekki.

 Kollur fékk því að sinna gimbrunum eitt árið enn og þó hann sé að draga niður gerðina og fituna upp, hafa gimbrarnar verið  að skila um 19 kg. meðalvigt í uppgjöri þessi ár sem hann hefur sinnt þeim.


 Það var nú bara fyrir meðfætt framtaksleysi að Kollur var enn hérna megin grafar þegar kom að fengitíma sem sannar það enn og aftur að alltaf á að geyma það til morguns sem hægt er að gera í dag.

 Það verður svo hugsanlega keyptur kollóttur lamhrútur  næsta haust í gimbrarvinnuna, annaðhvort frá vinum mínum á Austurbakkanum eða vinum mínum lengst vestur á Vesturbakkanum. Ekki væri ótrúlegt að ræktunarstjórar búsins myndu þá leita að einhverjum mislitum í það djobb.

18.12.2010 22:43

Frjótæknirinn út- alvörugræjurnar inn.


 Nú er búið að skipta yfir við lambatilbúninginn í Dalsmynni og hrútarnir hafa loks fkomist í jólavinnuna sína.

 Reyndar er Guðný búinn að skemma heilmikið fyrir þeim því u.þ.b. helmingur ánna er sæddur eða 61 af 120.
  Fjölbreytnin í sæðishrútavalinu er ævintýri líkast því aðeins 4 af 14 hyrntum hrútum stöðvarinnar komust ekki notkun hér.

Ég held að Máni eigi vinninginn sem MÉR finnst mjög fínt en auðvitað er smápex um hvað eigi að panta. Þar sem við vorum síðan að fá okkar skammta utan skipulagningar þá var óskalistinn alltaf hafður í lengra lagi.
Það voru Kaldi, Kóngur, Kostur og Laufi sem urðu útundan í þetta sinn og ég hefði nú gjarnan viljað skipta Laufa inn í stað .....


Hér mætast stálin stinn og kannski er þetta Raftssonur að derra sig við Vask?

En þetta var mjög fínt og ljóst að úr ýmsu verður að moða við ásetningsvalið í næsta haust.

 Gnarr er svo búinn að fá eldvígsluna og stendur sig með algjörri prýði. Það kemur svo skemmtilega á óvart að hann er óvanalega mikill öðlingur í umgengni og fljótur að átta sig á því að nú borgar sig að sýna lipurmennsku í samstarfi við bóndann. Engir Rafts eða Hriflonstælar sem mér finnst algjörlega óþolandi.



 Ég tek kannski myndir af honum á morgun við embættisstörfin og skelli hérna inn.

Hér eru tvær grundvallareglur í heiðri hafðar við líflambavalið, eingöngu settir á tvílembingar og móðirin verður að vera með yfir 5 í afurðarstig. Frá seinna skilyrðinu er ekki hvikað en síðustu árin hefir nú einn og einn einlembingur sloppið gegnum nálaraugað.



 Já það er bara farið að styttast í réttarhald næsta haust eða þannig.



 Alltaf sama fjörið hjá okkur Vask þegar kemur að því.

16.12.2010 00:05

Aur og örsól.

Það sást nú bara til sólar í dag þó að hún rétt drægist nú bara upp yfir sjóndeildarhringinn.

 Það var svo ætlunin að taka síðasta rollukikk haustsins af Dalsmynnisfellinu, en þegar uppfyrir túngirðinguna kom uppgötvaði ég að það myndi vera aur á öllum holtum á leiðinni og ótækt að enda árið á að spora þau.


 Hér var allt frosið fyrir ári síðan og engin kind sjáanleg á Núpudalnum. Ég var svo að frétta það rétt í þessu að Snilld sem hér fylgist áhugasöm með húsbóndanum( ásamt minni heittelskuðu), hefði  komist heilu og höldnu  austur á Breiðdal í dag, en þar mun hún allavega eyða jólunum í góðu atlæti.


 Skyrtunnan og Svörtufjöll standa alltaf fyrir sínu. Skyrtunnan úr blágrýti og Svörtufjöllin úr móbergi. Magnað.

 Það er hér ofan af Dalsmynnisfellinu sem hægt er að kíkja í allar áttir ef ske kynni að einhverjar fjallafálur hefðu sloppið frá fráneygum Austurbakkamönnum sem hafa verið að fara með smásjá um Skógarströndina og Rauðmelsfjallið undanfarnar vikur.

 Nú, svo eru 11 hross einhversstaðar týnd á svæðinu og ekki ónýtt að komast í hrossasmölun í fjallinu.

 Hér sést Dalsmynnisfellið hinsvegar úr hinni áttinni en þessi mynd er tekin úr blágrýtinu á brún Hvítuhlíðargilsins á efri myndinni.



 Ég á nú samt  ekki von á svona fjárfjölda þegar ég kemst þarna inneftir einhvern næstu daga.
Flettingar í dag: 665
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579358
Samtals gestir: 52634
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 10:04:13
clockhere