Færslur: 2014 Maí

20.05.2014 04:34

Fjárheimar, mannheimar og fæðingasprengjur.

 Nú er komið að þeim tímapunkti í sauðburðinum að maður fyllist áhuga á að fá að sofa svona eins og í nokkra daga kannski.


Þetta er hefðbundið og fer yfirleitt saman við það að allt er orðið yfirfullt á fæðingardeildum búsins.


  Það sem er óhefðbundið er að vorið er í þetta sinn frekar sjaldgæf vortýpa og varla hægt að setja út á það á nokkurn hátt þó fullur vilji sé til þess.


Þannig að í fæðingasprengju síðustu daga ,líkt og í mannheimum er útskrifað af skammtímadeildinni þó lömbin séu enn blaut á bak við eyrun, Því elsta er svo rótað út í blíðuna eftir hendinni og allt gengur feykivel.

 Þá er skírskotað til álagspunktanna í mannheimum sem koma í eðlilegu framhaldi af þorrablótum og verslunarmannahelgi.



 Aðal skandallinn er að einlemburnar voru illa skipulagðar og  fyrr á ferðinni en þrílemburnar sem þær áttu létta á með því að fóstra fyrir þær svo sem eins og eitt lamb.

 

 Það er líka smá mínus fyrir geðheilsuna að  tvær tvílembur og ein einlemba ( samkvæmt fósturtalningu) voru með eitt lamb í plús sem er óvanalegt hjá okkar glögga teljara.

Samt trúlega vel sloppið miðað við hversu snemma er talið. Þegar vorar svona fádæma vel  ganga önnur vorverk líka í takt og nú er allri akuryrkju og sáningu lokið fyrir löngu ásamt skítakstri.

 Aðrir áburðargjafar, þessir innfluttu á lága verðinu eru svo í lokatörninni á leið sinni til jarðar og verða væntanlega komnir á sinn stað þegar fer að rigna seinnipart vikunnar.



Hrossaprógrammið gengur þokkalega á bænum og ég komst meira að segja í hnakk í gærkvöldi sem er alveg 10 dögum fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Enn eitt dæmið um hvað gott vor hefur mikla " meðvirkni " í för með sér



 Hér er lokajarðvinnslan í gangi og styttist þá í væntanlegt grænfóðureldi húsmæðranna á saklausum bændunum.



 Þessir snillingar koma heilir á húfi úr átökum vorsins enda ákaflega vel af Finnum gerðir. Tæknin og hestöflin eru þó á sitthvoru stiginu hjá þeim bræðrum. Annar svona Harlem útgáfa en hinn tvímælalaust Rollsinn í vélaflota Dalsmynnis fyrr og síðar.


 Já, nú er bara að vita hvort sleppitúrinn sleppi fyrir  slátt.


11.05.2014 04:13

Vorið góða grænt og .....

 Vorið er ekkert að læðast að okkur í þetta sinn heldur kemur á svona hraða eins og manni fannst það alltaf hafa komið í gamla daga.


 Áttum það náttúrulega inni eftir veturinn.


 Allri sáningu lokið fyrir 10 maí sem er skemmtilegur viðsnúningur frá því í fyrra og akrarnir voru í óskastöðu í sáningunni sem er alltof sjaldgæft.





 Yngri bóndinn er á þessu úthaldi Hestamiðstöðvarinnar sem tætir, sáir og kemur niður áburði, allt í sömu ferðinni. Þar sem hann sá um plæginguna þetta vorið hef ég varla  komið nálægt akuryrkjunni  sem er nú bæði gott og slæmt.





 Hér er verið að strekkja netið í um km. langri girðingu sem lenti inni í vetrinum en þarf að klára áður en féð fer út.

Ekkert mál að gera það.


 Þetta er þó bara hluti af um 2.5 km. nýgirðingu sem mun halda utanum um féð á niðurlandinu en það hefur haft óþarflega mikið umleikis af ökrum og nýræktum vor og haust.




 Sauðburðurinn gengur bara nokkuð vel .


 Það sem helst slær á ánægjuna er að nokkrar einlembur voru fullbráðar á sér með burðartímann og fóru framúr þrílembunum sem áttu að redda þeim viðbótarlambi.


 Nú verður þeim hent út ásamt hrútum því fæðingardeildin  er að fyllast .




 Þessi tveggja daga mynd er orðin úrelt og ótrúlegt hvað hægt er að setja margt inn í svona stíur um leið og lömbin er 1 - 2. sólahringa gömul.




 Ég stóðst ekki freistinguna að smella á þessar tvævetlur sem voru að næra sig fyrir tilvonandi móðurhlutverk.  Sýnist að þessar hafi staðist 18 stiga læramarkmiðið ásetningshaustið.


 Reyndar var kominn mikill óhugur í okkur eftir að 5 fyrstu tvævetlurnar komu með seinna lambið dautt, hver á fætur annarri.

 3 fyrstu alveg nýdauð en í hinum tveim hafði annað fóstrið drepst fyrir nokkru.

 Ekki álitlegt, en aldrei þessu vant höfðu verið talin 2 fóstur í nánast öllum tvævetlunum.

 Sem betur fer  virðist þetta verið komið í rétta gírinn og þær skila sínum tveim lömbum sprelllifandi . 7 -9-13.





 Það er svo skemmtileg nýbreytni að mega keyra framleiðslugetu kúnna og fjóssins í botni án þess að hafa nokkrar áhyggjur af kvóta....... .


 Enda féllu dagsframleiðslumetin hvert á fætur öðru í síðasta mánuði.



 Já, nú er svo bara beðið eftir því hvað vorhretið í maí verður kröftugt til að ná manni niður á jörðina. Hehe.


05.05.2014 05:25

Allt að gerast í sveitapólitíkinni + gömul spakmæli.


 Þó ég hafi ekki lagst í sagnfræðina held ég að óhlutbundnar kosningar hafi viðgengist í Eyja- og Miklaholtshreppnum, og forverum hans, frá upphafi kosninga.

 Skemmtilegt kosningaform að mörgu leiti sem getur oft boðið uppá ófyrirséðar niðurstöður.

 En eins og allar kosningar eru þær náttúrulega alltaf eða kannski oftast skemmtilegastar fyrir þá sem vinna þær.


 Þegar talið var upp úr kjörkassanum fyrir tæpum 4 árum kom í ljós að það hafði orðið til listi í sveitarfélaginu.

 Listi þar sem lögð hafði verið vinna í að raða á fólki  frá upphafi til enda,- mesta ágætisfólki að sjálfsögðu.

 Það er að nákvæmlega ekkert sem bannar þetta og þó þessi undirborðslisti hefði afgerandi úrslit í niðurstöðu kosninganna var þetta óumdeilanlega niðurstaða lýðræðislegs kosningaforms. 

 Óþarfi að vera með einhverjar málalengingar um þær.

 Þarna var þó sitthvað á ferðinni sem mér hugnaðist ekki.

Ég hef alltaf haft ímugust á botnlausum sjálfsmetnaði pólitíkusa og hreina skömm á þeim sem eru á augljósan hátt að vasast í málaflokknum  með eiginhagsmuni í huga.

Jafnvel þó þröngur hópur eigi að fá að njóta þess líka.

 Mér fannst dapurlegt að fylgjast með fyrisjáanlegri þróun samstarfsins þar sem leiðir skildu fljótlega .

 Má segja að það hafi verið fullkomnun fáránleikans þegar listaplottararnir fóru í lögregluaðgerðir á dögunum,  gegn fólkinu sem þeir áttu sitt sveitarstjórnarlíf að launa, eða þannig.


 Mamma hafði alltaf á takteinum spakmæli og málshætti um hvaðeina sem upp kom í lífsbaráttunni og sumt  hefur sest að á harða diskinum, þó það hefði mátt vera meira.

 Sum þeirra skildi ég kannski ekki alveg í den en  við ýmis tækifæri kom eitthvað þeirra oft óvænt í  hugann.

 Þeir sem segja A, verða að geta sagt B líka sagði hún oft, þegar það átti við.

 Ég er þeirrar skoðunar að ef menn vilja listakosningar í örsveitarfélagi eins og hér, þá eigi þeir að hafa listann sinn uppi á borðinu með málefnaskrá og markmiðum.

 Horfast í augu við sveitungana og taka létta umræðu um hvert eigi að stefna.

 Síðustu vikurnar hefur svo komið á daginn að nokkrir, - ja kannski bara þónokkrir sveitungar mínir eru sömu skoðunar.

 Ef menn vilji listakosningar, nú þá höfum við bara listakosningar. 

En gerum þetta almennilega.

 Nú er fyrsti listinn búinn að skila inn framboðinu.

Listinn hefur hlotið nafnið  " Betri byggð "  sem gefur til kynna að aðstandendurnir hafa kannski ekki verið alveg  sáttir við vinnubrögðin á kjörtímabilinu.

 Það er m.a. tvennt áhugavert við " Betri byggð " .


Enginn sitjandi sveitarstjórnarmanna finnst á listanum og einungis tveir sem verma listann hafa setið í sveitarstjórn áður. Þeir skipa fyrsta og síðasta sætið.

 Síðan  eiga öll þau sem skipa efstu sætin, börn í leik eða grunnskólanum í Laugargerði.




 Efstu frá v. Guðbjörg, Laugargerði 7 s. Áslaug, Lágafelli 6 .s. Halldór, Hrossholti 5. s. Atli Sveinn, Dalsmynni 2.s. Eggert, Hofstöðum 1. s. Katrín, M. Borg 3. s. Herdís , Kolviðarnesi 4.s.


 Grunnskólinn er algjörlega óumdeilanlega kjölfesta og fjöregg hvers byggðalags.

Þessi hópur er tilbúinn að takast á við það m.a. að reka áfram skóla á svæðinu.

Þau eru þeirrar skoðunar að komi til breytinga á þessum málaflokk eigi að marka nýja stefnu í nánu samstarfi allra þeirra sem málið varðar.

Með upplýstum foreldra og íbúafundum.

 Ekkert þeirra mun fara að leika einleik með því t.d. að hringja í bæjarráðsmenn í nærliggjandi sveitarfélögum og panta boðsbréf um " samstarf " í skólamálum.

 Því síður skella sér í " skoðunarferð " í nágrannaskóla án nokkurrar umræðu eða umboðs félaga sinna í sveitarstjórn eða annarra.

Að sjálfsögðu ekkert , nákvæmlega ekkert sem bannar þetta, en þetta eru ekki skynsamleg fyrstu skref í umræðum í málaflokknum.

 Reyndar svo langt frá því að vera skynsamleg að ef ég væri ekki þetta einstaklega 
" hógværa og orðprúða prúðmenni"  sem ég er, myndi ég kalla þetta heimskulegt.

 Menn geta haft, eða hafa eðli málsins samkvæmt  mismunandi skoðanir á því hvernig best er að haga þessum málum.

 Enda snúast málefni grunn og leikskóla hvers samfélags um það sem öllum er dýrmætast.

 Þess vegna er þýðingarmikið að ná sem breiðastri samstöðu um það sem verið er að gera.

 Ekki að vinna undir  formerkjunum.   " Við ráðum þessu. "


 Nú er verið að vinna í öðrum framboðum sem gætu orðið tvö a.m.k.

 Ekki er ólíklegt og reyndar vonandi þegar landi er náð hinumegin kosninga að menn detti í gamla sveitagírinn, snúi bökum saman og vinni sem mest þeir mega að hagsmunum íbúanna .


Allavega  ljóst að nú stefnir í glænýtt kosningaform í sveitinni.


 Svo er bara að vona að allir komist í gegnum það á málefnalegu nótunum.

Og virði þær lýðræðislegu reglur sem vinna á eftir, bæði lagalegu og siðferðilegu.

  • 1
Flettingar í dag: 60
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581523
Samtals gestir: 52773
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 01:30:56
clockhere