25.03.2008 23:46

Snyrtipinnarnir.

   Það hafðist af að klaufsnyrta  kúahópinn ,fjörutíu og eitthvað og gekk bara vel. Kvöldmjaltirnar töfðust að vísu um klukkustund og þá átti eftir að gefa öllum pakkanum þannig að það var verið að til kl. 9.
 Þetta var nú léttara en ég hafði reiknað með sérstaklega fyrir mig sem sá um að hafa tilbúna kú í tökubásnum um leið og klaufskurðarbásinn losnaði. Atli og Guðmundur stórsnillingur  sáu um snyrtinguna.  Atli sá um lagklaufirnar og að húkka böndunum af og á o.fl. en yfirsnyrtirinn sá um hitt. Það var ekki að spyrja að því að íslenska landnámskýrin var snögg að átta sig á því að þetta var sama kerfið og í mjaltabásnum þannig að ég hleypti bara næstu kú í biðröðinni í tökubásinn. (Þetta var svona næstum þannig.) Það var síðan lýsandi dæmi um gáfnafarið hjá þessari dásamlegu skepnu að þó þær í tökubásnum horfðu á meðferðina á stallsystrum sínum í klaufskurðarbásnum þá gengu þær hiklaust í hann á eftir þeim með bros á vör. Margt skrýtið í kýrhausnum.
 Þetta var í fyrsta skipti frá landnámi að kýrnar í Dalsmynni eru snyrtar svona alvöru klaufsnyrtingu. Þrátt fyrir það var ástandið á klaufunum ekki skelfilegt nema á svona 4-5 kúm sem er auðvitað of mikið. Nú er spurningin hvort líði svona  1000 ár til næstu snyrtingar.  Atli er með fullt af myndum af græjunni og framkvæmdinni á símanum svo ef einhver er áhugasamur um myndir þá er bara að gefa comment um það.. Og þar sem þetta var langur og erfiður dagur, lagði bóndinn lykkju á leið sína út í pottinn og kom við í kæliskápnum. .

24.03.2008 21:16

Páskar, Porche og Lada Sport.

  Þá eru páskarnir að baki og heldur bæst við massann á bóndanum sem eflaust kemur sér vel á erfiðu vori sem er alveg að bresta á. Og bara ekkert hægt að kvarta undan veðrinu þó aðeins sé farið að kólna aftur  í augnablikinu. Það var svo einstaklega ánægjulegt að taka hér á móti Skrámi í dag en hann yfirgaf þennan sælureit  fyrir cirka 3,5 árum +. Ég sá ekki betur en hann væri líka hæstánægður en það hefur nú kannski verið léttirinn að sleppa úr búrinu eftir fjögurra tíma ferðalag.
  Í augnabliks aðgæsluleysi sleppti ég honum í þvottahúsið og 15 mín. seinna kom á daginn að hann hafði gengið mjög rösklega í það að merkja sér rækilega þennan endurheimta íverustað sinn þar sem hann eyddi fyrstu mán. ævinnar. Sem betur fer hefur dóttirin trúlega einhverntímann sagt sambýlismanninum hvað gerðist ef ég sleppti mér gjörsamlega, því hann fór umyrðalaust að reyna að skúra upp mestu merkingarnar enda málið skylt. Nú þarf síðan að gæta þess vandlega að Asi sleppi ekki inn í þvottahúsið næstu dagana því trúlega myndi hann ganga jafn rösklega í að yfirmerkja merkingarnar og bróðir hans. Ég er svo hundfúll út í eiganda Skráms að hafa ekki lagt vinnu í að temja hann betur, því þetta var snillingsefni. Mér finnst þetta svipað og eiga nýjan  Porche, setja hann bakvið hús og þegar hann er notaður einu sinni í mán. þá er ekki ekið hraðar en á 40.  Til að fyrirbyggja allan misskilning er rétt að taka fram að söluverðið á hvolpinum var ekki Porcheverð heldur svona Lödu Sport verð. Það er dálítið önugt fyrir þá sem eru virkilega að vanda sig við ræktunina á Border Colliernum að ef farið er uppfyrir Lödu prísinn snarminnkar eftirspurnin. Og Jói minn vertu alveg rólegur, ég ætla ekkert að minnast á hana Fiðlu.
  Já svo er stefnt að því að klaufsnyrta kúahjörðina á morgun, ekki verður það skárra heldur en rúningurinn.

22.03.2008 21:12

Rúningurinn.

 Það var ekki lengur undan því vikist að fara að ná snoðinu af rollunum þrátt fyrir einlægan brotavilja bændanna að draga það sem lengst. Í dag rúðum við yngstu árgangana tvo og hæfilegan fjölda til viðbótar svo hægt væri að klára rest á einum degi. Rúningnum fylgja ýmsar sermoníur því einungis yngsta féð er alrúið. Á hinum er skilið aðeins eftir  til að tryggja þær fram á sumarið. Þó ég haldi því alltaf afdráttarlaust fram að vorið verði gott segir reynslan mér það að yfir 90 % líkur eru á kuldakasti  í maí/júní.Þá er  það er síðan spurning um lengd og rakastig. Þó snoðið sé einskis virði er það dýrmætt þá dagana ef það er á réttum stað. Það liggja síðan miklar spekúlasjónir á bak við það, að skilja það þannig eftir á ánum að  sem mest fari af yfir sumarið. Niðurstaðan er sú að vinnan við að hreinsa féð að haustinu er sáralítil og fljótunnin. Það er alltaf jafn dj. erfitt og leiðinlegt að standa í rúningnum. Nú var það sérstaklega erfitt fyrir féð líka og ákveðið að svelta restina hæfilega fyrir rúninginn sem verður strax eftir páskana.
 Það ætti kannski að ganga yfir bóndann líka.
Flettingar í dag: 636
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579329
Samtals gestir: 52634
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 09:43:02
clockhere