Færslur: 2011 Janúar

30.01.2011 22:42

Folaldasýningin í Söðulsholti.

Það voru skráð yfir 40 folöld til leiks en nokkur mættu ekki vegna veðurs.

 Þetta var mikil veisla eins og alltaf áður og dómararnir ekki öfundsverðir sérstaklega í lokaröðuninni.

 Það er óhætt að segja að Hjarðarfellsbúið hafi tekið þetta með stæl því af 10 folöldum í röðun komu 3 frá þeim mæðgum, Hörpu og Sigríði.

Það var Spói frá Hjarðarfelli sem vann flokk hestfolalda.
Í öðru sæti var Ófeigur frá Söðulsholti og
Jaðrakan frá Hellnafelli í því þriðja.



 Harpa á Hjarðarfelli, Inga Dís Söðulsholti, Ásta Borgarlandi(f.h. Hellnafells),Róbert og Einar Söðulsholti.

 Í hryssuflokknum var efst Blómalund frá Borgarlandi.
Önnur  var Spurn frá Minni Borg.
Silja frá Söðulsholti var svo í þriðja sæti.



 Róbert Söðulsholti, Kata Minni Borg og Ásta í Borgarlandi.
Flottasta folaldið að mati gesta var kosinn Ófeigur frá Söðulsholti.



Hér eru video með Spói frá Hjarðarfelli  Blómalund frá Borgarlandi  Ófeigur frá Söðulsholti

   Hér er svo Dreyri frá Dalsmynni undan Sigri frá Hólabaki en til marks um það hversu úrvalsgóð folöld voru þarna komst hann ekki í úrslit.emoticon  Hópurinn undan Sigri sem mætti þarna var ákaflega jafn og skemmtilegur, vaðandi tölt og brokkgeng og voru öll með yfir 70 stig þó það dygði þeim ekki í toppsætin.



 Frábært. emoticon
Heimasæturnar á Hofstöðum og Hrossholti tóku sig líka vel út.


 Allt um folaldasýninguna hér. Hestamiðstöðin Söðulsholti.Mikið tenglasafn.

25.01.2011 20:54

Leikskólinn í Laugargerði.

 Það eru engar ofurtölur í loftinu þegar nemendafjöldinn í Laugargerðisskóla er skoðaður en velþekkt að gæðin og magnið er nú oft sitthvað.

 Leikskóladeildin er drjúgstór miðað við annað og telur 10 aldeilis frábær ungmenni.
Tvö úr Kolbeinstaðarhreppnum og átta úr Eyja og Mikl.



 Ingibjörg á Hofstöðum og Kolbrún Katla í Hrossholti ráðskast óspart með hópinn og kannski  ömmu Hefu og ömmu Möggu líka.

 Hér er amma Hefa með Friðjón Hauk Snorrastöðum, Ómó Miðhrauni, Kristínu Láru Hofsstöðum,
Tomuska Miðhrauni og Aron Sölvi Dalsmynni hefði átt að vera í bláa stólnum.


Hér er svo amma Magga með Kristínu Láru Hofsstöðum, Jón Guðni Laugargerði og Ómó Miðhrauni


 Hér er samkór leikskóladeildarinnar. F. v. Friðjón Haukur Snorrastöðum, Gísli Minni Borg, Ingibjörg Hofstöðum, Ómó Miðhrauni. Aron Sölvi Dalsmynni, Kristín Lára Hofstöðum og Kolbrún Katla Hrossholti.

 Leikskólinn að syngja. Smella hér.  Allir krakkar/ fyrst á réttunni.
 
 Leikvellinum var fórnað þegar sparkvöllurinn mætti á svæðið og síðan hafa verið miklar vangaveltur um fyrirkomulag leikvallar. Núverandi leiksvæði er heldur óhrjálegt en nú stendur þetta allt til bóta.



 Góðir hlutir gerast hægt eins og allir vita og hér er kominn skjólveggur. Nú  vantar bara endanlegt yfirlag á leikvöllinn , krakkakotið og að stilla upp .þeim leiktækjum sem til eru. 



 Eyja og Miklaholtshreppur er nokkuð leikskólavænn þó hægt gangi að klára leikvöllinn og býður upp á gjaldfrjálsan leikskóla fyrir  íbúana.

22.01.2011 22:58

Rússnesk rúlletta og " Þurrablót".

  Það var niðaþoka á Hellisheiðinni um hálffimmleytið í gær þar sem ég dólaði í bílalest á leið í bæinn á 80 - 90 km hraða.

 ég rétt grillti í næsta bíl á undan og lofaði máttarvöldin fyrir hálkuleysið.

Náunginn á einhverri smá sardínudós sem var að berjast framúr mér á háheiðinni hefur hinsvegar verið algjör fíkill í rússneska rúllettu.

Verri en ég í gamla daga.

 Gærkvöldið endaði svo í svokölluðu þurrablóti en þá er íbúum hreppsins boðið í þorramat á vegum sveitarfélagsins.

 Þetta er gamall siður sem verið er að endurvekja eftir að hafa legið niðri, trúlega síðan 2003.
 Það var fín mæting af sveitungunum allt  frá rúmlega 6 mán. til ???


  Nú voru menn grand á því og fengu Veisluþjónustuna á Vegamótum til að sjá um matinn en áður var búin til nefnd sem sá um þetta.

 Þurrablótsnafnið gefur ákveðna vísbendingu um að þessi blót voru framin með talsvert öðrum hætti en þorrablótin.
En allt er í heiminum hverfult og þó þurrablótið sé nú" næstum " skraufaþurrt miðað við alvöru blót, þá náttúrulega átta menn sig á því að það er algjört stílbrot að renna þorramatnum niður með kóki eða appelsín.
 Þó þetta sé nú bara matur og spjall, lét yngsta kynslóðin það ekki aftra sér frá að taka nokkur spor.


 Kolbrún Katla og Halldór Gísli fengu sér snúnig en Aron Sölva vantaði hinsvegar  dansfélaga.



Kolbrún Katla vissi hvað hún söng þegar hún gaf sig ekki með að fara í senjórítukjólnum á fyrsta þorrablótið sitt enda féll Halldór Gísli alveg fyrir því, nýkominn úr danaveldi.



 Fín æfing fyrir komandi átök á Þorranum.

Flettingar í dag: 377
Gestir í dag: 101
Flettingar í gær: 839
Gestir í gær: 59
Samtals flettingar: 573591
Samtals gestir: 52136
Tölur uppfærðar: 7.9.2024 12:14:31
clockhere