24.02.2011 10:11

Sumarið og hestaferðirnar.

 Það gafst afleitlega fyrir um ári síðan að setjast niður og skipuleggja hestaferðir komandi sumars.

Hestarnir voru óvirkir vegna kvefpestar og engar ferðir farnar hér á bæ.


Hallarmúlaskálinn en þangað var náð í mikilli slagveðursrigningu.

 Uppgjöfin er samt ekki algjör og þó ekkert sé sett á blað er samt velt fyrir sér hvað hægt sé að fella inn í skipulagningu sumarsins.



 Hér er áð eftir að hafa komið vestur yfir Almannaskarðið austan Hornafjarðar.

 Og við Ingimar á Jaðri erum góðir vinir siðan og gaman að hann skyldi kíkja við hjá mér í sumar.
 

 Hér er hinsvegar áð undir Kirkjufellinu.


 En  Grundfirðingar voru sóttir heim eitt sólarsíðdegið 2009.

 Og meira að segja Löngufjörur fengu frí fyrir mér síðasta sumar.

Tekið úr Suðurey . Hafursfellið í baksýn.

 Það gengur einfaldlega ekki.

Varð svo að skella hér með mynd af útvegsbóndanum á Stóra Kambi að leggja af stað yfir Snæfellsnesfjallgarðinn  í botn Álftarfjarðar.


 Hann teymir hér 7 hesta og þetta er algjör snilld að sjá.

Já nú verður tekið á því í sumar. Eða hvað??



20.02.2011 09:41

Hvanneyringar í heimsókn.


   Það var Hrútavinafélagið Hreðjar á Hvanneyri sem stóð fyrir vísindaferð um Nesið í gær.

Fyrir margt löngu hafði hún Ásta  samband og spurði hvor þau mættu koma við og kíkja á hundana?
 Trúlega hef ég ekki síður verið rannsóknarefnið þó hún kynni ekki við að minnast á það.

 Þrátt fyrir stöðug logn og blíðviðri hér á Nesinu tók ég ekki sénsinn á því að hafa móttökuna utandyra svona í þorralok og leitaði á náðir nágrannans á Hestamiðstöðinni sem lánaði fúslega hús og reiðhöll.
Tamningarliðið var svo tekið eignanámi til að sjá um kaffiuppáhellinga og fl.

Það voru síðan Vaskur, Dáð og Tinni sem fengu að sýna sitt lítið af hverju.


 Þetta reyndist vera um 40 manna hópur og það var enginn þunglyndisblær yfir liðinu þegar það mætti um hádegisleytið. Hér er ég að reyna að sannfæra þau um að Border Colliarnir séu sjaldnast vandamálið þegar eitthvað fer úrskeiðis í uppeldinu , heldur séu það eigendurnir.

 
 Það var svo virkilega skemmtilegt hvað þetta voru góðir og áhugasamir áheyrendur.



 Og í spjallinu á eftir fékk ég alveg fullt af gáfulegum spurningum sem er ekki alveg gefið að fylgi með í svona uppákomum.



 Þetta var semsagt hin ánægjulegasta heimsókn fyrir mína parta og útlit fyrir að námskeiðið sem stefnir í að verði sett upp í mars sé að fyllast.

17.02.2011 23:42

Auðhaugar eða hólar í landinu.

 Tvisvar á ári er hreinsað úr hálmstíum kálfanna og taðið undan fénu, miðsvetrar og síðla hausts.

 Það var drifið í því í gær og dag en þessi auðlind er látin brjóta sig í haugum þar til einhver nennir að dreifa henni í flög. Vegna hækkandi áburðarverðs minnka sífellt líkurnar á því að haugarnir verði að hólum í landslaginu.



 Og það er alltaf jafn ánægjulegt þegar árvissum skítaáföngum er náð.



 Það skiptir svo ekki máli hvort það eru kálfar eða kindur , þeim líður alveg rosalega vel á hálminum.



 Reyndar hafa heyin verið svo þurr í vetur að ekki hefur þurft að hálma undir féð, heldur hafa þær sprangað um á þurru taði, svona eins og maður man eftir í gamla daga.

 Næst er að leita uppi eitthvað fórnarlamb til að kippa snoðinu af rollunum.

Því þó yngri bóndinn sé óðum að ná sér eftir liðbandaævintýrið er næsta víst að algjör viðsnúningur verður á batanum um leið og minnst er á rúning.
Flettingar í dag: 761
Gestir í dag: 69
Flettingar í gær: 1149
Gestir í gær: 139
Samtals flettingar: 435443
Samtals gestir: 40198
Tölur uppfærðar: 11.5.2024 17:24:30
clockhere