16.10.2016 20:18

Slæmir árgangar , - og góðir !


 Rétt eins og vínyrkjubændur í sunnanverði Evrópu búa við slæm ár og góð, eru árin misjöfn hjá okkur rolluköllunum hér á klakanum.

 Ég gjörþekki muninn á góðum og slæmum hrúta og gimbraárum, þurfa reyndar ekki að fara saman, - áramun á fallþunga, -  frjóseminni og nefndu það bara.

  Þó ég þekki svo vel uppskriftina að góðum fallþunga , frjósemi og flestu öðru sem færa á hlutina til betri vegar dugar það skammt.

 Því eins og fjallaskáldið sagði. " Ég er bóndi og allt mitt á / undir sól og regni.".

 Þó margt hafi breyst síðan, eru enn heilmikil sannindi fólgin í þessu.

 En það er gott ár hjá okkur Dalsmynnisbændum í ár.emoticon

  Fallþunginn  í lagi , Úr toppeintökum að velja  til ásetnings eða bæði hrúta og gimbraár og nefndu það bara.

 Jaaa, nema afurðaverðið mætti kannski vera  miklu betra. emoticon

 Margra ára markmið í lífgimbravali, að allur ásetningur næði yfir 18 í lærastigun og yfir 30 í mældum bakvöðva náðist loksins. ( Með 1 undantekningu emoticon ).

  

                     Smá  sýnishorn af gimbraflotanum.
 
  En það segir nú kannski meira um slæmt hrútaár hjá öðrum en ræktunina hér, að  Dalsmynnisbúið átti besta kollótta lambhrútinn á héraðssýningunni í Snæf og Hnapp.



 Hér erum við algjörlega blaut á bakvið eyrun í ræktun á kollóttu enda móðir hrútsins  tveggja vetra, keypt af húsfreyjunni á Bassastöðum á ströndum vestur  og faðirinn úr stórræktuninni í Haukatungu.

  Þegar svo annar besti hyrndi hrútur héraðsýningarinnar var líka eign búsins fór ég nú að hafa dálitlar áhyggjur af hrútaárferði sýslunganna.

 Alvöru keppni í þeim flokki hjá Snæfellingum emoticon .
 



  Rúsínan í pylsuendanum voru svo niðurstöðutölurnar úr sláturhúsinu á Hvammstanga.

  Meðalvigt 19.99. Gerð 10.96 og fitan 8.26 sem er akkúrat passleg 
að mínu mati. emoticon

 Og til að halda góða skapinu ætla ég ekkert að velta mér uppúr lambalátinu í vetur. Þar voru auðvitað öll met slegin líka.

Nema hvað .emoticon
 
  

11.10.2016 21:11

AÐ SÁLGREINA SAUÐKINDINA.

 Á árunum 2002 til 2010 var Vaskur aðalhundurinn með Skessu móður sinni. 
Um margt sérstakur bæði í kostum og göllum. 


 Vaskur klár í slaginn í smalavestinu og með talstöðina.

      Hann hafði þann sérstaka hæfileika að geta skynjað um leið og hann sá kindur í fjarlægð hvort þær yrðu honum erfiðar . 

   Ef hann beið fullur ákefðar en rólegur eftir að fá skipun um að sækja þær, gekk það vandræðalust.
  Ef hann hinsvegar stressaðist upp við að horfa á kindurnar, jafnvel í mikilli fjarlægð, lenti hann undantekningarlaust í vandræðum  með þær , - því meiri vandræðum sem stressið var augljósara. 

 Yrði hugarástandið þannig að skjálfti/kippir  væru komnir í skoltinn á honum þurfti ekkert að velkjast í vafa  um að nú væri eitthvað krassandi í aðsigi. 

 Ætli það hafi ekki verið með hliðsjón af þessu sem ég fór að flokka erfiðu kindurnar og velta fyrir mér ástæðum þess hvernig þær væru.

Fl. 1  voru þær sem  réðust umsvifalaust  á hundinn þegar hann var kominn fyrir þær og ætlaði að þoka þeim af stað. Það taldi ég vera kindur sem væru vanar kjarklausum hundi sem ataðist í þeim en forðaði sér umsvifalaust þegar honum var ógnað o.sv. frv..

Fl. 2 voru kindur sem hnöppuðu sig saman og högguðust ekki en reyndu að verja sig ef sótt var að þeim . Gáfu kannski aðeins eftir  en stoppuðu til að verja sig ef hundurinn sem þær treystu ekki með nokkru móti,  var of nærri þeim.  Þær taldi ég vera vanar illa tömdum hundum sem væru að ráðast á þær að tilefnislausu. Hundum sem létu þær ekki í friði þegar þær væru að gera allt rétt emoticon


Fl. 3 voru  þær sem lögðu á hraðan flótta um leið og þær komu auga á hundinn. Verstu eintökin af slíkum tvístruðust svo í allar áttir ef hundurinn náði ekki tökum á hópnum . Sleppi því að fara nánar út í greininguna á ástæðum þessa .emoticon

 Fl. 4  kannski ekki svo erfiður en  einstaklega óþjáll, hlýðir engu og kann ekki að rekast. = kindur sem voru óvanar hundum .

 Óþarft að taka fram hér farið afar grunnt í málið enda efni í bók að koma  í letur dýpri greiningu og hvernig rétt er að beita hundunum á viðfangsefnin. emoticon

 Hér er svo slóð á band með tamda hunda vinna í " aðkomukindum" sem eru að vísu í styggara lagi en fínar samt..  Smella hér.



06.10.2016 16:11

Sjálfbær hundabúskapur ,- eða þannig.


Nú sér fyrir endann á sumarbloggfríinu mínu og eina spurningin í stöðunni er hvenær vetrarfríið hefst emoticon .

 Það eru búin að vera mikil umsvif í hundamálunum hjá mér, smá tamið fyrir aðra  og gotið undan Korku og Dreka tamið og selt .

 Nema Bonnie sem verður væntanlega tekin í ræktun. Hún hefur mætt afgangi í tamningunni en það stendur til að bæta úr því næsta ár.
 Hún er ársgömul síðan í maí , skreið í gegnum ISDS prófið í haust en það býður upp á ýmsa möguleika í ræktuninni. 

 Þannig að nú eru hún, Korka og Sweep öll skráð í ISDS .



 Svona lítur svo hundaeignin út í dag. vinnuhundarnir Smali og Korka, sem er náttúrulega ræktunardýr  í aukavinnunni. Drift frá Haukholtum sem er að verða klár í tamningu og talsverðar vonir eru bundnar við og Bonnie .




 Svo er það hann ( Anglesey ) Sweep frá Írlandi sem ég flutti til landsins í sumar. Hann er fulltaminn á franska vísu en er fyrst og fremst keyptur í ræktunina hjá mér en ekki vegna þess að mig vanti smalahund. 
 Svo er það stóra spurningin hvort hann skilar því sem ég er að leita eftir emoticon




 Ég hef sagt að það skipti engu máli hversu mikið ræktunardýrin okkar eru töluð upp , - eða niður . 
Það eru afkomendurnir sem munu stimpla þau út eða inn í ræktunarsögunni. 

Svo Sweep á eftir að sanna sig á annanhvorn veginn. emoticon

Og í ljósi þess að þetta hundadæmi hjá mér er orðið ágætlega sjálfbært getur maður getur leyft sér smá ævintýramennsku í ellinni. emoticon

 Slóð á Sweep í léttri æfingu.  Hér
Flettingar í dag: 665
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579358
Samtals gestir: 52634
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 10:04:13
clockhere