19.05.2009 00:06

Allt syngjandi vitlaust í sveitinni.


  Rollurnar hafa fundið það á sér að fyrirvinnan yrði í lambamóttökunni um helgina, því nú fór allt á fullt.

  Þetta minnti mig á gömlu góðu dagana þegar alvöru fjárbú  var hér og fjör í sauðburðinum.
Það gekk á ýmsu og  gott að mín heittelskaða var nærtæk þegar greiða þurfti úr fótaflækjum, sækja framlöpp sem ekki skilaði sér o.sv.frv.


 Þar sem burðarstíudæmið gerði ekki ráð fyrir svona stórskotahríð yfirfylltist allt af nýbornum rollum en þetta slapp þó allt til. Það var síðan drifið í að marka og númera í dag og slatti settur út.



Það hefði verið fínt að eiga nokkrar svona að hætti Brjánslækjarbænda klárar í lambahrotuna.

  Þar sem n.áttin er í svona vorfíling þessa dagana er ekki verið að setja út nema það elsta . Það er rúmur þriðjungurinn óborinn og þetta hefur gengið býsna vel. Einlemburnar eru einni fleiri en þrílemburnar svo ekki verður kvartað yfir of lítilli frjósemi nema síður sé.

 Yngri bóndinn er allstaðar annarstaðar en heima hjá sér þessa annríkisdaga, ýmist að plægja, tæta eða sá bygginu, enda er orðið áliðið vors og allt að falla á tíma.


 Grænfóðrið bíður sáningar og áburðurinn bíður í stórsekkjunum eftir að komast á túnin. Sérstaklega þau sem eru að koma skítlaus inn í sumarið.

  Já það er sko nóg að gera.

Þó kaupið sé lágt og fari lækkandi. emoticon

18.05.2009 04:08

Afastelpan og strákurinn.

 Það kemur fyrir að afastelpan eigi leið um búgarðinn og hér er hún að heilsa upp á bústofninn sinn, hérna megin Holtavörðuheiðar.

 Hún er fyrir löngu búin að átta sig á því hver ræður, á að minnsta kosti þremur heimilum sem hún þekkir vel til á, þegar þarf að ákveða ákveðna hluti.


 Hún og Stígandi áttu svo leið um Borgarnes á laugardaginn og hér er stund milli stríða.



 Hann Aron Sölvi er ekki búinn að átta sig á sínu valdsviði enn, en það kemur örugglega.

  Hér virðist hann hafa áttað sig á því að einhver hafi komist í ölið hans???

Trúlega pabbinn.


 Já, það verður að taka á þessu máli.emoticon

16.05.2009 20:57

Sauðburðarbloggið.

  Það eru nú dálítið heit á þeim júgrin sagði mín heittelskaða  dálítið íhugandi.

 Við vorum að fara yfir gemlingahópinn og tveir þeirra voru trúlega geldir . Reyndar hefur hún óbrigðula aðferð til að sannreyna hvort lamb er á leiðinni, í vafatilvikum sem þessum.  Þá er athugað hvort  vökvinn er slímkenndur úr spenunum eða vatnskenndur. Ég gætti þess að leggja ekki í þá aðgerð því annar gemlingurinn var handfangalaus og örugglega háll sem áll.

 Þetta voru þó góð tíðindi, að einungis tveir væru ( hugsanlega) geldir af 40. Slæmu fréttirnar voru þær að af þeim tuttugu sem voru bornir, voru 10 með tveimur lömbum.


 Þar sem þeir byrjuðu að bera aðeins fyrr en ærnar er ljóst að nokkrir þeirra munu ganga með tvö lömb  í sumar sem er vont mál.
 Reyndar   lítur út fyrir mikla frjósemi í ár og  þó sauðburðurinn sé stutt á veg kominn stefnir í að nokkrar ær muni ganga með þremur í sumar. Tvílemban sem missti annað í fæðingu í dag fékk það tvöfalt til baka. Tvílembing undan gemling og þrílembing undan gamalá var umsvifalaust bætt undir hana.



  Gemlingarnir sem eru að eðlisfari ljónstyggir (sæðingarnar) eru fljótir að róast þegar komið er reglulega í heimsókn um burðartímann. Fyrir nokkrum dögum hlupu þeir upp um alla veggi ef maður leit í áttina til þeirra en nú depla þeir ekki auga þó myndavélin sé rekin uppí þá og hleypt af.



 Og rollurnar sofa svo fast að maður veltir fyrir sér hvort þær séu nú að láta sig dreyma um sumarhagana, sem eru náttúrulega í sérflokki hér á vesturbakkanum eins og allir vita.
  Fyrsti hópurinn var settur niðurfyrir þjóðveg í dag en þrátt fyrir bongóblíðu hefur ekki verið tími til þess að setja féð með elstu lömbunum út.

  Nú fer ég að stræka á akuryrkjuna og sinna fénu betur og þá byrja klaufsnyrtingar og sleppingar.

 Það er nefnilega allt albrjálað að gera í sveitinni en vorblíðan þessa dagana gerir þetta allt skemmtilegra.

 Og nú gengur maður alveg á kaffinu sem er drukkið allan sólarhringinn en ekki milli 9 og 4 eins og vanalega.

Já þetta er lífið. emoticon  
  

 
 
Flettingar í dag: 1050
Gestir í dag: 110
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579743
Samtals gestir: 52670
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:05:34
clockhere