27.04.2011 20:17

Akurdoðran og olíurepjan.

Hrunið hefur kollvarpað mörgu og með snarhækkandi verði á ýmsum aðföngum opnast grundvöllur á innlendri framleiðslu af ýmsum toga.

 Þar má m.a. nefna byggræktina en forsendur fyrir henni hafa gjörbreyst á örfáum árum.

Ræktun á olíujurtum hefur verið í deiglunni í nokkur ár og nú er að koma verulegur skriður á þau mál.
Það hefur fyrst og fremst verið horft á olíurepjuna og síðar olíunepjuna sem helst kæmu til greina í þá ræktun. Vegna of stutts sumars fyrir sumarrepjuna hafa menn síðan horft á vetrarrepjuna sem fýsilegan kost í ræktuninni.
 Akuryrkjuræktunin er alltaf áhættusöm á Íslandi og að þurfa svo að eiga hana undir íslenskum vetri minnkar ekki áhættuna . Þessi áhætta ásamt því að þurfa að þreskja akurinn á  hárréttum tíma miðað við þroskastig fræsins setur þessa ræktun í hálfgerðan lottóflokk.

Byggræktendur þekkja það ákaflega vel að það fer ekki alltaf saman heppilegt tíðarfar og þoskastig akursins.
Auk áhættunnar á tjóni yfir veturinn er tvöföld áburðargjöf og binding akursins í tvö sumur vegna vetrarrepjunnar verulegur ókostur.

Í kynningu Kristjáns á tilrauninni með Akurdoðrunni sl. sumar kom fram að sáning fór fram fyrstu dagana í maí. en vegna hálfs mán. þurrkakafla spíraði fræið ekki fyrr en í 3. viku maí.

 Sáð var í um 10 ha. af mismunandi landi en allt með sama áburðarskammti, 50 kg N á ha.

  Allir akrarnir náðu að þroskast og í spírunarprófum í vetur var spírun á milli 80 - 90 % í ætluðu sáðfræi. Fræhulstur Doðrunnar haldast heil í langan tíma eftir að þroskast og þarna virtust efstu fræhulstrin fyrst vera að opnast þegar kom fram í des.
 Rétt er að benda á, að þessu tilraun er ekki gerð á Suðurlandi eða í góðsveitum norðanlands heldur vestur í Gilsfirði sem segir okkur að Akurdoðran á vaxtarmöguleika mjög víða um land.

 Það er skemmtilegt að segja frá því að frumkvöðlarnir í Eyjarhreppnum hafa verið að leita að olíuplöntu sem næði að þroskast yfir sumarið og skilaði ásættanlegri uppskeru.


Akuryrkjufrumkvöðlarnir þeir Einar í Söðulsholti og Auðunn á Rauðkollstöðum að spá og spekulera með Jónatan Hermannssyni.
 Þeir voru búnir að setja sigtið á Akurdoðruna og fluttu inn fræ til sáningar í vor svo nú er barist á öllum vígstöðvum.

 Og á Korpu verður í sumar sett upp tilraun með Akurdoðruna ásamt sumarrepju og nepju.

Allt að gerast í sveitinni. (Bara ef þornaði aðeins um.)

25.04.2011 21:20

Lífdísill. Bylting í ræktun.

 Á síðasta ári var gerð tilraun með sáningu Akurdoðru ( Camelina Sativa) hjá Fóðuriðjunni í Ólafsdal.
 
 Tilraunina gerði Kristján Finnur Sæmundsson sem er  vél og orkutæknifræðingur frá Lindarholti í Dölum en lokaverkefnið hans í tæknifræði í Háskóla Reykjavíkur var framleiðsla lífdisil á Íslandi.

 Eftir langa leit að plöntu sem sáð yrði að vori og uppskorin að hausti varð Akurdoðran fyrir valinu og niðurstaðan eftir sumarið kemur skemmtilega á óvart. Akurdoðran virðist vera  laus við alla helstu galla olíurepjunnar. Hún er ákaflega óvönd á jarðveg og skilaði t.d. uppskeru á gróðurlausum mel þrátt fyrir þurrkasumar.
 Einungis er notaður köfnunarefnisáburður um 40 - 75 kg. N á ha. 
Hætta er á legum með of miklu köfnunarefni.


Plantan er ákaflega veðurþolin sé henni sáð í réttum þéttleika og losar sig ekki við fræin fyrr en löngu eftir að þau ná fullum þroska.


 Uppskeran var um 2.8 t /ha af þurrkuðu fræi ( 92 % þurrefni) þrátt fyrir of lítinn fræskammt í sáningu ( 5 kg.) en sáð var í um 10 ha.

 Kristján áætlar að um 8 kg af fræi á ha. sé hæfilegt hér á landi og uppskeran gæti orðið um 3.4 tonn á ha. við góðar aðstæður.

 Olíuhlutfallið yrði um 35 - 40 % af þurrkuðu fræi en 60 - 65 % hrat sem yrði með um 35 - 40 % prótín.

 Kristján Finnur kynnti þessar niðurstöður á bændafundi í Lindartungu í kvöld og svaraði síðan fjölmörgum spurningum áhugasamra bænda um ræktunina og vinnslu olíunnar á síðari stigum.

Síðast en ekki síst hafa hvorki sauðkindur, álftir né gæsir minnsta áhuga á þessari ræktun.

Áhugavert  mál.

22.04.2011 20:16

Mykjan, maginn og vorstressið.

 Það var ótrúlegt hvað það hafði góð áhrif á bóndann að koma dælunni niður í haughúsið og byrja að hræra.

 Maginn komst umsvifalaust í lag og öll bölsýni hvarf eins og dögg fyrir sólu.

 En dagarnir líða hratt og þó jörðin sé orðin klakalaus að mestu er mjög blautt um.


 Það var ótrúlegt hvað Duun dælan náða að hræra upp í kringum sig, því hæðin í haughúsinu er í sögulegu hámarki og vel uppí bitana.

Skíturinn sem maður vill sjá komast á túnin uppúr miðjum apríl er enn á sínum vetrarstað og greinilega nokkrir dagar í að lagt verði í að prófa dreifingu.

 Það er beðið með óþreyju eftir þessari stundu.

Akrarnir sem þurfa marga þurra daga til að komast í ákjósanlegt vinnsluform munu því líka bíða enn um sinn. Og þó það sé gott að eiga mýrarjarðveginn að á þurrkasumrunum er vond sáningarfræði að ná ekki lágmarks þurrefnisstigi í þá fyrir vinnslu og sáningu.


 Hér er tætarinn neðan í sáningarvélinni en nú verður stress í gangi og tætt með annarri vél svo sáningin gangi hraðar.
 Þetta hefur þó oft verið verra hvað akrana snertir á  þessum árstíma því stundum er klakinn ekki horfinn úr þeim fyrr en í maí.

Semsagt allt á seinni skipunum en útlitið oft verið svartara.
Flettingar í dag: 34
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581497
Samtals gestir: 52773
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 01:08:40
clockhere