15.10.2008 19:11

Förgun og talnaflóð.


  Jæja, hver heldur þú að meðalvigtin sé spurði mín heittelskaða með pókersvip, þegar ég kom úr fjósinu í gær. Trúr síðustu athugasemd á síðasta bloggi sagði ég 16.8 kg. umhugsunarlaust.
  Frúin brosti glaðhlakkalega eins og hún hefði litaröð á hendinni og rétti mér vigtarseðilinn nýrunninn úr prentaranum. Það varð ljóst að allt svartsýnisrausið síðustu dagana hefur haft afleit áhrif á spádómsgáfuna því meðalvigtin var um 1/2 kg meiri en í fyrra.
 Við nánar skoðun á blaðinu kom í ljós að það var góð ákvörðun að breyta um sláturleyfishafa, því matið var mun betra en s.l. haust. Þrátt fyrir hærri meðalvigt var fitumatið betra og flokkunin í samræmi við það. Þetta minnti mig á gömlu góðu dagana þegar lagt var inn í Borgarnesi og ég var sannfærður um að Lilja væri sá matsmaður í Íslandi sem hefði langbest vit á því hvernig lambsskrokkar ættu að líta út.

   Meðalvigtin var 17.49 kg.   Meðaleinkunn fyrir gerð 9.59 og fyrir fitu 7.08 ( 2007 var gerð 9.2 og fita 7.5.) en fitan hefur stundum/oft reynst vandamál en þó mismikið eftir matsmönnum sem er ekki gott.

  Þar sem ég veit af þónokkrum sem heimsækja mig hér og botna ekkert í þessum tölum er rétt að þreyta þá enn betur.

  Sú tvílemba sem skilaði mestu kjöti komst í  42.9 kg.
  Þrílemba                                                    47.2  kg
  einlemba                                                    25.4  kg.
  og tvílemdi gemlingurinn sem skilaði mestu.  33.7 kg.
 En vegna mikillar frjósemi þurftu nokkrar ær að ganga með þremur lömbum og gemlingar með tveimur.

   Og til marks um bjartsýni okkar Dalsmynnisbænda ásamt ofurtrú á stjórn þessa lands og Seðlabankans og náttúrulega á þjóð vora og fósturjörð, kom fyrsti trailerinn með áburð næsta vors til okkar í gær . Restin mun væntanlega berast okkur í vikunni.emoticon 
 Og þar sem þetta blogg fjallar að mestu um lömb sem eru komin yfir móðunu miklu eru engar myndir leyfðar.

13.10.2008 19:49

Ár sauðkindarinnar

  Árhringur sauðkindarinnar heldur óstöðvandi áfram þótt bankarnir leggist á hliðina og voða fáum þyki vænt um Dabba lengur.
 Það er samt liðin sú tíð þegar allt þjóðfélagið miðaðist við blessaða sauðkindina. Alþingi var ekki sett fyrr en að loknum haustönnum og slitið fyrir sauðburð. Sama átti við um skólana og nefndu það bara.

  Á fimmtudaginn var gimbrahópurinn ómskoðaður og í dag fór síðan allt á Hvammstanga sem í kaupstað á að fara.  Það er veruleg endurnýjun á fjárstofninum þetta árið, því þegar nágranni minn brá búi fyrir nokkrum árum keypti ég allt veturgamalt og það var hátt hlutfall í fjárstofninum . Þriðjungurinn af sauðfénu verður því á fyrsta vetri og aðeins slegið af gæðakröfunum við gimbravalið.

  Þegar fénu var úthýst úr fínu fjárhúsunum ( sem breyttust í fjós) var komið upp aðstöðu úti til þess að ragast gróflega í því. Fúskað var upp rekstrargangi því fjósbreytingarnar stóðu sem hæst og takmarkaður tími í sauðféð.



   Hann átti bara að vera einnota en stendur samt enn og léttir sundurdráttinn verulega þó ljóst sé að hægt sé að endurbæta allt dæmið. En afkoman bíður nú ekki upp á stórar fjárfestingar.emoticon

 Vaskur og Assa eru svo betri en enginn þegar fámennt er í sveitinni. ( Sjá myndaalbúm.)



   Atli veitir ókeypis ráðgjöf í hálmrúlluninni gegnum símann og Assa veltir fyrir sér hvort ekki eigi að setja aðeins trukk á hópinn.

    Það verður svo trúlega staðfest á morgun að lömbin verði léttari  en í fyrra.emoticon

12.10.2008 20:00

Gæsirnar og byggið.

 Gæsirnar eru orðnar umtalsvert vandamál í byggræktinni þar sem þær geta lent, og labbað sig inn á akrana.
  Það reyndist okkur vel að setja eitthvert tæki við akrana sem hún var farin að herja á, því hún er ákaflega vör um sig ef einhver breyting verður á umhverfinu frá degi til dags.

 Svona sjón kemur adrenalíninu á góða hreyfingu jafnvel hjá aulum eins og mér sem ekki hefur skotið gæs í áratugi. Hjá mér er það riffillinn og rebbinn sem blíva.

 Sonurinn og tengdasonurinn eru hinsvegar enn í dreifararöraskytteríinu og nú var tekin létt leirdúfuæfing fyrir morguninn. Þeir voru svo heppnir að það náðist mynd af einu leirdúfunni sem ég held að þeir hafi hitt.

   Það er eins gott að flugumferðarstjórnin sé í lagi þegar flotinn er að flýta sér, en það fækkaði um 17  úr þessum hóp morguninn eftir þessa myndatöku.

   Hvernig er það Árni, á ég að taka kvótann þinn? emoticon

Flettingar í dag: 377
Gestir í dag: 101
Flettingar í gær: 839
Gestir í gær: 59
Samtals flettingar: 573591
Samtals gestir: 52136
Tölur uppfærðar: 7.9.2024 12:14:31
clockhere