02.04.2010 21:06

Skuggi frá Litla Hrauni og tvær gamlar vísur.

 Það var vel uppúr miðri síðustu öld sem faðir minn keypti gráa hryssu af systur sinni sem þá hafði brugðið búi á Litla Hrauni í Kolbeinstaðarhrepp.

 Sú gráa var keypt til afsláttar en henni fylgdi í kaupunum veturgamall foli sem gekk undir henni.

Þetta var dökkjarpur stór og fallegur gripur  undan Nökkva frá Hólmi.

 Eitthvað hefur nýi eigandinn séð við folann því hann ákvað að sú gráa skyldi verða gerð árinu eldri svo veturinn yrði þeim jarpa léttbærari.

 Sá jarpi dafnaði vel og farið var aðeins að eiga við hann á fjórða vetur.

 Pabbi tamdi sitt sjálfur og tók oft góðan tíma í það .  Tryppin voru teymd mikið og hann dundaði oftast einn við þetta. Stundum sá maður hann koma ríðandi í hlað á tryppinu sem teymt hafði verið frá húsi.

 Það kom fyrir að við krakkarnir værum  kölluð til og sett á bak og teymt undir. Þá hefur væntanlega verið eitthvað á ferðinni sem öruggara hefur verið að leggja í meiri vinnu heldur en minni.

 Skuggi, en það var sá jarpi nefndur, var af meðfærilegri gerðinni og taminn án aðstoðar. 

Hann var nokkur ár að koma til en það var eins og eigandinn vissi á hverju var von því hann var hinn rólegasti yfir framförunum og svaraði fáu þegar nágrannarnir spurðu hann, hvort ekki færi að rætast úr þeim jarpa.

 Skuggi varð afburða reiðhestur, mikið viljugur og með gríðarlegt rými bæði á tölti og brokki.

Pabbi var einhverra hluta vegna afar lítið gefinn fyrir skeiðið og einhverntímann þegar ég skilaði Skugga eftir að hafa fengið hann lánaðan sagði ég að hann hefði tekið góðan skeiðsprett hjá mér.

 Þá brosti sá gamli eins og honum einum var lagið og sagði. Já það er aðeins til í honum.



 Hér eru þeir félagarnir staddir á Hvítárbökkum, nánar tiltekið á Faxaborg.

Myndina fékk pabbi senda ásamt vísu frá Önnu í Saurbæ Kjós, sem hafði fengið að prófa klárinn.

Mörgum kynnst ég hesti hef
háreistum og fínum.
En ég mun geyma Skugga skref,
skýr í huga mínum.

 Pabbi hafði ákaflega gaman af ferskeytlunni og rímnakveðskap.

Einhvern tímann fór ég með vísu fyrir hann og spurði hvort hann hefði heyrt hana áður.

 Hann velti henni aðeins fyrir sér neitaði því og bað mig að fara með hana aftur.

 Ég gerði það, síðan var riðið í næsta áningarstað og þar fór ég með hana í þriðja sinn.

Það voru vallendisbakkar framundan og þegar stigið var á bak á nýjan leik dunaði bakkinn vel undir þeim jarpa þegar hann þuldi töltið á fullri ferð, meðan knapinn kvað við raust.

 Sporar grjótið sprettaglaður.
 Spenntur mélin bryður ótt.
 Á stökkferð töltir Skuggi hraður.
 Skilað hefur vel í nótt.
 

01.04.2010 08:08

Þeir byggja myndarlega á Ströndunum.

 Það kemur engum á óvart að það er enn kraftur í strandamönnum.

Sjá  hér.

30.03.2010 22:26

Að þreyja Þorrann og Góuna.

 Þó það vanti töluvert á að ég sé nógu metnaðargjarn finnst mér þó alltaf betra að vera í vinningsliðinu.

 Ég er enginn vildarvinur skammdegisins og þegar dagsbirtan er orðin mun lengri en myrkrið, er ljóst að sigurgangan er jafn örugg og í fyrra. Hún mun svo ná hámarki í júní og alls ekki tímabært að fara að velta fyrir sér komandi skammdegi og væntanlegum ósigri þess .


 Já það tókst með miklum ágætum að þreyja þorrann og góuna og einmánuður er á lokasprettinum.

 Þegar þessi tími er kominn í sveitinni´, fer allt á fulla ferð og vorið er komið fyrr en nokkur veit og örstutt í allt of stutt sumar.

 Miðað við verkefnalistann sem er óðum að hlaðast inn á harða diskinn er þetta árlega kapphlaup um að ljúka vorverkunum í réttri röð, á ásættanlegum tíma að hefjast af fullum þunga og eins gott að halda ró sinni en fara ekki á taugum.

 Það á eftir að sækja skeljasand og kalka nokkra akra og síðan bíður húsdýraáburðurinn þess að komast á akra og tún.
 
Jarðvinnsla og sáning þyrfti að byrja seinnipart aprílmánaðar ef guð lofar.

 Þá mun sauðburður líka hefjast og rétt að ljúka nú þessari upptalningu svo ég geti sofnað fyrir áhyggjum.

 Nú er stefnt að því að sá byggi í um 22 ha. og er þetta í fyrsta skipti sem við stefnum að því að rækta umfram notkun á búinu. Reyndar er verið að skoða það að bæta próteini og steinefnablöndu í byggið og hætta öðrum kjarnfóðurkaupum.

Það myndi þýða talsvert aukna bygggjöf á búinu.

 Finnist ekki flötur á því verðum við væntanlega með umframbygg í sölu, sem þýðir ákveðna uppstokkun á söludæminu því það er afdráttarlaus krafa um það hjá búinu, að þetta dæmi gangi upp peningalega.

Með tilliti til ofanritaðs er rétt að taka fram að hér er ekkert stress í gangi.emoticon

Það er áratuga reynsla fyrir því að þetta reddast allt.emoticon

Flettingar í dag: 446
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 953
Gestir í gær: 86
Samtals flettingar: 436081
Samtals gestir: 40255
Tölur uppfærðar: 12.5.2024 10:22:47
clockhere