19.12.2009 23:41

Litlu jólin í Laugargerði.

 Það var mikið fjör á litlu jólunum sem haldin voru á föstudaginn  og ekki skemmdi fyrir að  jólafríið var  framundan.



 
Afastelpan hún Kolbrún Katla með honum Gísla vini sínum á Minni Borg en þau eru í leikskólanum.



 Hér eru þau Þórður í Laugargerði, Selma á Kaldárbakka, Tumi í Mýrdal og Helga á Lágafelli að taka við spilum, sem átti minna á hversu mikils virði það væri fyrir fjölskylduna að eiga fjölskylduvænar samverustundir.


 Frá v. Jenni Jörfa (með lopahúfuna) Ársæll Ystu-Görðum, Áslaug kennari Lágafelli, Helga Lágafelli, Guðný Eiðhúsum,  Kristín Björk skólastjóri. Neðri röð Inga Dóra Minni-Borg, Steinunn Miðhrauni, Ayush Miðhrauni, Þórður Laugargerði.

 Hér er svo kórinn að gera sig kláran í að þenja raddböndin.



 Aron í Dalsmynni mættur á fyrsta jólaballið sitt og mamma syngur með jólasveinunum.



 Og það er dansað í kringum jólatréð af mikilli innlifun.



Tomaz Lynghaga,  Ilmur, gestur hjá afa og ömmu Laugargerði,  Steinunn Miðhrauni, Inga Dóra Minni-borg, Hafdís Lóa Minni-borg, öll mjög áhugasöm að kanna jólasveinanammið sitt.



 Svo er það spurning hvort jólasveinarnir eru að biðja til guðs eða klappa saman lófunum.

Já, bráðum koma blessuð jólin, eða þannig.emoticon

18.12.2009 12:00

Aðventan og akuryrkjan

 Nú hefur orðið alveg umpólun í tíðarfarinu eftir langvarandi norðanbræluna.

 Þó birti varla allan daginn eru hlýindin kærkomin uppbót á haustið og frostið sem komið var í jörð þiðnaði á ný .

 Dótið var því tekið fram  og lokið við að tæta akrana sem ljúka átti við í haust.
Í sögu byggræktarinnar hér, hafa akrarnir aldrei farið jafn klárir undir vetur og nú.

Það er alltaf verið að láta sig dreyma um það að ná þroskuðu sáðbyggi fyrir haustfrostin.


 Pöttingerinn er besti tætari sem komið hefur aftan í vél hjá mér. allir hnífar heilir eftir mikla og misjafna notkun en orðnir nokkuð snjáðir og haf minnkað á þverveginn.
 
 Hér er verið að tæta nýbrotið land þar sem ýtt var út ruðningum í haust. Þegar verið er að rembast við að sá snemma, situr oft frost í ójöfnum sem ergja mann. 



 Trúlega er sáningarmeistarinn ekkert farinn að láta sig dreyma um sáningatörnina sem bíður hans í vor, ásamt uppstressuðum sítuðandi bændum.



 Það er samt alltaf jafn skemmtilegt að spá í þroskann og uppskerumagnið þegar þar að kemur.

Þangað til allt fýkur.

 Já, nú styttist í að daginn taki að lengja á ný.emoticon 

 

15.12.2009 23:58

Tilhugalíf á aðventunni.

 Á meðan Tiger þjáist hinu megin við hafið, hefur Skrámur það virkilega fínt í slökuninni  á æskuslóðunum.

 Þó hans sé sárt saknað vestra hefur hann engar áhyggjur hvorki af Fiðlu sinni eða honum Jóa.

 

 Það hefur verið mikið stuð á stelpunum í kringum hann þessa daga en vegna óhófslegs skyldleika við sumar þeirra hefur húsbóndinn haft ýmsa afskiptasemi í gangi.


  Það er meðfætt víðar en hjá mannskepnunni, að betri helmingurinn veit að skynsamlegt er að láta ganga aðeins á eftir sér.

 Þessi prímadonna er alíslensk, þó báðir foreldrarnir hafi verið fluttir inn sem fulltamdir fjárhundar/keppnishundar í fjárhundakeppnum, og voru reyndar í  fyrsta og öðru sæti á A.fl. á síðasta landsmóti. Sem segir talsverða sögu bæði um hundana og eigendur þeirra.



 Já lífið er dásamlegt, og sjávarbakkarollurnar á ströndinni sem eru ríkulega gæddar austurbakkagenunum eru Skrámi víðsfjarri þessa dagana.

 Og ég sem er löngu hættur að fyllast spenningi þó lömb, folöld eða kálfar séu væntanleg,
geng í endurnýjun lífdaganna ef hugsanlegt got er á leiðinni.

 Fyrst telur maður vikurnar og svo dagana.emoticon

Og fyrsta pöntunin var frá útlandinu. emoticon

Hvernig eigum við svo að koma kappanum vestur, Jói?


Flettingar í dag: 1158
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579851
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:26:40
clockhere