19.01.2009 10:08

Prúttið


   Fyrir margt löngu trúði ég því að verðmiðinn á dótinu sem, mig langaði í væri óumbreytanlegur og nú væri annaðhvort að hrökkva eða stökkva.

   Það er talsvert síðan ég áttaði mig á því að nú gengur allt út á afslætti og prútt. Það kemur skemmtilega á óvart að þegar ég kvarta yfir verðinu á varahlutnum í bílinn er mér umsvifalaust boðinn 5 - 10 % afsl. Ekkert alvörudót er keypt nema að afstöðnu miklu prútti og samningum og það er bara eitt símtal við þjónustufulltrúa hjá stóru byggingarvöruverslunum. Þá fæ ég umsvifalaust afslátt af öllum viðskiftum um 10 - 20 % eftir því hvað ég lofa miklu umfangi.

  Fyrir nokkrum árum tókum við okkur saman nokkrir bændur, skoðuðum eldneytiskaup nýliðins árs og óskuðum síðan eftir því við olíuumboðin að fá tilboð í a.m.k. þetta magn  + afsláttarprósentu á öllum þjónustuvörum, ásamt ákveðnu tankrými,rafmagnsdælum með mæli o.sv.frv.. Það verður að segjast eins og er að þetta vakti ekki mikla hrifningu á þeim vígstöðvum og það var ekki nema eitt þeirra sem kom með alvörutilboð.

  Það var samið við það til þriggja ára. Þegar sá samningur rann út var enn farið í útboð á pakkanum sem var orðinn töluvert stærri í lítratali og miklu, miklu hærri í krónum.

  Nú var komið annað hljóð í strokkinn og öll skiluðu inn alvörutilboðum. Þau voru nokkuð misvísandi en eftir mikla yfirlegu og smáblýantsydd var samningurinn endurnýjaður til þriggja ára.

  Vandamálið við þetta prútt allt saman er trúlega það, að listaverðið er spennt upp til að geta veitt afslætti, rétt eins og á yfirstandandi útsölum. Og þeir sem vara sig ekki á þessu eru í slæmum málum.

En ég prútta ekki í Bónus, enda eiga feðgarnir dálítið bágt núna.emoticon

16.01.2009 23:08

Ömmustelpan og tvíkelfingarnir.



   Enn einn föstudaginn klikkaði afinn á afadeginum.

   Amman bjargaði því sem bjargað varð eftir hádegi og þar sem afinn sveikst líka um að mæta í fjós var ömmustelpan látin hjálpa til við mjaltirnar.

   Og .þá byrjuðu ævintýrin.



 Huppa tók upp á því að eiga sæta kvígu svo litla manneskjan fengi að fylgjast með hvernig lífið gengur fyrir sig.


                               Já, hann er dálítið blautur úr maganum á mömmu sinni.

 Þetta var mikil upplifun og  þegar maður var rétt búinn að ná andanum yfir þessum býsnum 
þá hélt ævintýrið bara áfram.

   


  Það var nefnilega annar kálfur og hann kom meir að segja afturábak í heiminn.



 Þetta var nú strákur og hann var nú bara enn blautari en hinn.



  Það var mikið ó ó á henni ömmu og eins gott fyrir hana að fara strax að þvo sér.


Já það er sko miklu skemmtilegra þegar að afi er ekki heima.emoticon 
  

15.01.2009 20:58

Dalirnir og dótið.



  Hvar er allt dótið spurði félagi minn, hvernig fer bóndinn að þessu?

 Við vorum á leið vestur Dali og bóndabærinn sem við vorum að bruna framhjá var fádæma snyrtilegur, allt málað og ekkert að sjá utandyra sem ekki átti að vera þar.

  Það hlýtur að vera einhversstaðar bakatil sagði ég hughreystandi, því þrátt fyrir að félaginn sé mikill snyrtipinni er hann jafnframt dótafíkill. Bakatil hjá honum er því dálítið búsældarlegt og mörg gersemin geymd.
 Já það hlýtur að vera sagði hann , en mér fannst samt örla á vantrúarhreim í röddinni.
 Þar sem hann er haldinn töluverðri fullkomnunaráráttu kæmi mér ekki á óvart að einhverju af gersemunum hans yrði hætt, næst þegar hann tekur til hendinni.

 Stuttu seinna keyrðum við framhjá öllu eðlilegra bóndabýli. Þar var heyskap að vísu ekki lokið og talsverður rúllufjöldi dreifður um túnin. Þar verður gróðurþekjan eitthvað götótt í sumar.

 Þetta var í hlýindakaflanum og Heydalurinn var mjúkur undir dekk. Félaginn hafði orð á því að trúlega yrði tæpt um olíuna en aftan ´í pikkanum var stór flatvagn, svo Dodsinn eyddi ekki eins litlu og vanalega. Það var því rennt við á Bíldhóli til að jarma út olíulögg. Þar vorum við upplýstir um að 37 km. væru í Búðardal og þar sem aksturtölvan taldi olíuna duga 45 km. var ákveðið að láta slag standa. Bílstjórinn var síðan orðinn svo strekktur í restina að  að hann þorði varla að koma við olíugjöfina sem aftur hafði slæm áhrif á ferðahraðann. Þetta slapp þó til.

 Ferðinni var heitið vestur í Saurbæ til að kíkja á dót til flutnings á lausu fóðri.
Þrátt fyrir nokkrar væntingar gekk það dæmi ekki upp og málið því enn óleyst.

  En það munar ekkert um eitt vandamálið enn til að leysa.emoticon 





 
Flettingar í dag: 1040
Gestir í dag: 110
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579733
Samtals gestir: 52670
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 15:44:24
clockhere