Færslur: 2012 Nóvember

30.11.2012 21:52

Að leggjast í landafræði.

 Leiðinlegustu bloggin sem ég las hér áður fyrr meir, eru alveg vafalaust þau þar sem bloggararnir eru að kryfja sjálfa sig og bloggin sín og bloggin sín og sig.

  Nú ætla ég að skrifa þannig blogg.

 Ég væri að ljúga því ef ég héldi því fram  að lesendafjöldinn, athugasemdirnar og likein skiptu mig engu máli því þetta virkar allt eins og olía á ryðguð tannhjólin.

 Ég hef  hins vegar fyrir löngu áttað mig á að heimsóknar og flettingateljarinn hjá 123.is er ekki alveg það marktækasta. Köflóttur á köflum eins og velflestir pólitíkusarnir.

 Eftir síðustu kollsteypu teljarans ákvað ég að gera eitthvað róttækt í málinu og eftir ábendingu stjórnanda 123 .is og með aðstoð frumburðarins komst ég inn á magnaðan teljara .
http://analytics.google.com/ 

Nú get ég setið kvöldin löng ( hafi ég ekkert betra að gera) og stúderað  ótrúlegustu hluti um gesti mína á heimasíðunni.

 Rétt er þó að taka fram að ég næ ekki að greina það hverjir þeir eru.

 Það sem mér finnst skemmtilegast og fróðlegast er, að hér eru að droppa inn gestir frá ótrúlegustu krummaskuðum víðsvegar um heiminn.

  Þó þar sjáist að vísu nöfn kunnuglegra heimsborga er samt langflest bæjarfélögin einhver sem ég hef aldrei nokkurtímann heyrt getið.

 Með því að smella á bæjarfélagið fæ ég upp kort sem sýnir í  hvaða heimshluta viðkomandi er og ef svo heldur sem horfir verð ég orðinn vel að mér í landafræði hvað þetta varðar áður en lýkur.

 Hér er svona smá sýnishorn af tveim dögum.

.
Bandar Seri Begawan
Munich
.
Frederiksberg
Maputo
Falun
Mountain View

  Já , þetta finnst mér ekki leiðinlegt.
  
 

27.11.2012 20:56

Útidund í veðurblíðunni.


 Veðurblíðan er notuð til að klára ýmislegt sem lenti aftarlega á forgangslistanum í fjárhúsinu.

 Smiðurinn mætti á ný fullur starfsorku eftir að hafa verið í öðru síðustu vikurnar.Það var gengið frá samtengingunni við gömlu fjóshlöðuna og byrjað á að setja kjölinn á sinn stað.
 Eins og sést er keyrsluhurðin fjarri góðu gamni en hún á í einhverjum erfiðleikum með að skila sér í hamingjuna hér vestra. Síðustu fréttir voru þær að brautirnar hefðu ekki lifað af flutninginn til landsins svo nú er beðið átekta eftir næstu tíðindum. Þrátt fyrir nýrúið fé hafa  allir gluggar móti suðri verið opnir upp á gátt síðustu dagana.
 
  Í dag var mænirinn opnaður þar sem strompurinn á að koma, málbandið tekið upp og að lokum var strompurinn hannaður og teiknaður upp . Þetta eru orðin velþekkt vinnubrögð í þessari byggingarframkvæmd. Vatnið var ekki sótt yfir lækinn  í þetta sinn en eftir nokkrar vangaveltur var ákveðið að sækja það í fjóslögnina í stað þess að fara að leggja það innan í gömlu byggingunum með tilheyrandi veggja og gólfbroti. Í leiðinn var rústað einum jarðkapli sem var akkúrat þar sem hann átti ekki að vera.

26.11.2012 22:14

Fagurt á fjöllum.

  Ég stóðst ekki veðrið, hætti að úrbeina hrossið og stalst til fjalla eftir hádegið.

 Ekki gefið á þessum árstíma að fá gott skyggni og annaðhvort auða eða alhvita jörð til að skanna fjöll og dal í leit að fé. Og þó einhverjum finnist fjöllin alltaf eins, þá eru þau það náttúrulega aldrei, frekar en við.
 
En þau eldast samt töluvert betur. Fyrst þið eruð að skoða þetta á annað borð er best að lofa ykkur sjá Skyrtunnuna í návígi í jólafötunum sínum. Og Svörtufjöllin sem eru alltaf nefnd í fleirtölu þó aðeins eitt þeirra sjáist, bera nafn með rentu þó lítið fari fyrir því í dag. Ég hef þó rekist á nafnið Svartafjall á einstaka korti yfir þetta fjall hér sem er  syðsti hluti  á móbergshrygg sem liggur austan Skyrtunnu. Það sást ekkert kvikt á svæðinu og tófuslóðin sem sást var orðin meira en sólarhringsgömul. Svona leit svo óðalið út bakatil og búið að klambra einum kofa við til viðbótar síðan síðasta mynd var tekin. Mjólkurbíllinn á suðurleið, hrossin í skógræktinni og nú er ekki snjólag á landinu til að halda því klakalausu eins og í fyrrahaust enda komin um 20 sm.klakaskán í ógróið land.

Ekki ólíklegt að byggfræið komist talsvert seinna niður næsta vor en það síðasta.
,
Flettingar í dag: 154
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 101
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 151417
Samtals gestir: 7041
Tölur uppfærðar: 27.11.2022 13:25:12
clockhere