25.01.2010 08:55

Sauðburður á fullu.


 Eitthvað hafa þær ruglast í ríminu ærnar í Grundarfirði.

Eða telja rétt að auka afköstin í kreppunni.

 Sjá  hér.Búi fjárræktarfélag

22.01.2010 23:41

" Enginn er búmaður nema hann berji sér."

Það er undantekningarlítið gott hljóðið í félögum mínum í bændastétt sem ég hef hitt eða heyrt í síðustu missirin.

 Mér finnst líka fínt að sleppa við að heyra mikla neikvæðni og barlóm sem breytir engu þegar upp er staðið.

 Ég veit þó að þeir skynja það jafn vel og ég að búreksturinn er að þyngjast verulega og ekki muni séð fyrir endann á því.

 Fjósastígvélin sem kostuð 6.000 kall fyrir nokkrum mán. eru komin í 13.000 og traktorinn sem kostaði 8 millur, kostar 16 í dag. Svipuð hækkun hefur svo orðið á öllu því sem búið þarfnast þarna á milli. 
  Skattarnir sem verið er að bæta á okkur til að standa undir skjaldborginni um fjármagnseigendurnar og kollsiglingu Seðlabankans, kæta okkur svo sem ekkert heldur.

 Og við skynjum það líka að erfitt verður að velta öllum þessum hækkunum út í verðlagið eins og sjoppueigendurnir gera sem sjá okkur fyrir lífsnauðsynjunum.

 Það sem verður þó mörgum okkar erfiðast eru blessuð lánin okkar. Þau erlendu sem tvöfölduðust á einni nóttu og íslensku okurlánin sem munu ná  sömu hæðum og þau erlendu á næstu tveimur til þremur árum. Síðan munu þau svo væntanlega bera tvisvar til þrisvar sinnum hærri vexti en erlendu lánin.

  Við getum nú alveg sleppt því að endurnýja helv. traktorinn í nokkur ár og verið í plastpokum innan í stígvélunum þegar þau fara að leka, en það verða lánin sem munu koma einhverjum okkar á hliðina áður en lýkur.

 Já, við bændurnir munum setja í herðarnar, rækta góða skapið og huga að heimafengnu, allt í fullvissu þess að öll él styttir upp um síðir. Við erum vanir því.

 Og gætum þess að minnast ekki á icesave nema rétt til að koma blóðinu á hreyfingu í einhverjum tilheyrenda okkar.

 Kannski er aðal áhyggjuefnið það sem málshátturinn segir.

 Að enginn sé búmaður nema hann berji sér.emoticon

Kannski eru allir alvörubúmennirnir horfnir úr stéttinni?emoticon

21.01.2010 09:35

Lífsval, ríkisbankinn og Icesave.

Þegar Icesave "snilldin" stóð sem hæst er talið að um 1 milljarður kr. hafi runnið inn í landið daglega, af þeim innlánum.

 Og menn voru í vandræðum með allt þetta fé í höndunum.

Landsbankinn gerðist  stór hluthafi í Lífsval og hefur væntanlega fjármagnað  félagið eftir þörfum í umsvifum þess.

 Í þeim fjárfestingum sem félagið lagði í var ekkert verið að prútta um krónur eða aura.

Þetta leiddi síðan til þess að verð á jörðum og framleiðslurétti fór í himinhæðir sem var gott fyrir bændur á útleið , en vont fyrir hina sem eftir sátu.

Því er löngum haldið fram að það sem fer upp komi niður aftur, og við eðlilegar aðstæður ætti það að eiga við um verð á þessum eignum og framleiðsluréttindum, ekki síst ef um brotlendingu verður að ræða.

 Það vakna hinsvegar margar spurningar þegar kemur í ljós að ríkisbankinn ætlar sér í stórfelldan búskapar og jarðeignarekstur.

 Nú er verið að leita að fjárfestum til að koma inn í stað þeirra hluthafa sem sprungu eða eru að springa á limminu, en Landsbankinn sem er trúlega  að yfirtaka félagið mun halda sínum eignahlut áfram.

 Og vafalaust verður sami gamli leikurinn endurtekinn.

Byrjað verður á að afskrifa "hæfilegan" hluta af kúlulánum þrotabúsins.

Nýir hluthafar (gamlir vinir) fá síðan að yfirtaka eftirstöðvar skuldanna og fá svo smá kúlulán í viðbót.
Allt að sjálfsögðu með veði í þessu arðvænlega fyrirtæki.

Svo er bara að byggja fleiri fjós, kaupa jarðir með laxveiðihlunnindum og girnilegum vatnsréttindum.

Gott að eiga sem  mestar eignir fyrir bretana þegar bullið hættir og brotlent verður í icesavemálinu.

Já, svona er nýja Ísland.emoticon 


 
Flettingar í dag: 762
Gestir í dag: 77
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579455
Samtals gestir: 52637
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 11:09:52
clockhere