04.12.2010 23:17

Drög að sauðburði !!

 Nú styttist alltof hratt í það að lögð verði drög að sauðburði næsta vors.

Allt féð rúið og meira að segja ormalyfið komið ofanúr hillu og á réttan stað.
Það hefur nú ekki alltaf hafst af fyrir fengitíma.

 Nú standa yfir mikil átök um hvenær hefja skuli sæðingar en sá " lati " gerir sér öðrum fremur grein fyrir því að ótímabær byrjun lengir óhjákvæmilega sauðburðinn í annan endann.

 Það er búið að grófflokka ær sem eiga að fara undir djásnið hann Gnarr en talsverðar vonir eru bundnar við að hann geti orðið til bóta í ræktuninni.
Hann er nefnilega undan afbragðsgóðri á, sem er komin með 7.6 í afurðastig 3 vetra.
Það er hún 715 sem gekk með 2 gemlingsárið ( 33.5 kg alls) og verið þrílemd síðan( tvisvar).


 Sá bíldótti ( sæðingur undan At.) á að notast á gimbrarnar en það eftirsóknarverða hlutskipti hreppir hann annarsvegar vegna litarins og hinsvegar og aðallega vegna þess að hann stigaðist ma. með 18.5 fyrir læri.
 En það eru læraholdin sem eru sett á toppinn í ræktuninni í ár.

Svona leit sá bíldótti út í vor ásamt þáverandi eiganda en nú er hún búin að fara  brask við ömmu sína og á engan Billa Boy lengur.


 Stefnan er sem sagt sú að sæddar verði daglega allar ær sem ganga fram að fengitíma.

Upphafsdagsetningin er því  það sem styrrinn stendur um og nú er Guðný búinn að taka til græjurnar svo illa horfir fyrir afturhaldsöflunum. emoticon

01.12.2010 23:52

Litlu skrípin á fullu og útrásin framundan.

 Björgvin dýralæknir var á ferðinni fyrir helgina og heilbrigðisskoðaði, örmerkti og  ormahreinsaði hvolpana.
 Hann var fullur efasemda þegar ég setti hendina í hrúguna kom með hvolp og sagði honum hvaða bæjarnafn ætti að setja í sjúkrabókina. Honum fannst þeir allir eins.
Ég hafði ekki varað mig á því að þeir verða að vera orðnir 8 vikna fyrir pavrosprautuna svo hún bíður þar til 7. des. Í framhaldi af því gæti farið að koma los á einhverja þeirra.

 Nú eru þeir alveg meiriháttar skemmtilegir og sem betur fer er tíðin góð svo þeir eru settir út tvisvar á dag a.m.k.
 Hér eru þeir að leggja af stað út í veröldina í fyrsta sinn.

 Litla daman fremst er sú sem á lengstu ferðina fyrir höndum á nýtt heimilið.  Það er næstum þvert , eða svona á ská yfir landið. Þar bíða hennar krefjandi verkefni og ég hef fulla trú á því að hún muni standa sig, hvort sem hún lendir í kröppum dansi í Sauðdrápsbotni eða Fossdalshnútu.

 Mamman var sett afsíðis en þeir fylgdu húsbóndanum hiklaust út.



 Hér er það hinsvegar langamman hún Skessa sjálf að heilsa upp á ungviðið sem sýndi henni heldur óviðurkvæmilegan áhuga.

 Þessar vikurnar er ágætt að hafa  fullorðinn hund með þeim í uppeldislegum tilgangi og pabbinn og Dáð eru góð í það.

 Hér sýnir Bangsi föður sínum hóflega virðingu.


 Hér er það hinsvegar afastelpan sem leiðir þá um refilstigu lífsins.


 Þessi hér er sérvalin sem einstaklega ferðaþjónustuvænt eintak.

Já þrælskemmtileg fyrirbrigði en það verður samt ákveðinn léttir, þegar sá síðasti verður kvaddur.

Fullt af hvolpamyndum .  Smella HÉR.

29.11.2010 08:39

Enda býsna baukavænn/blessað gamalmennið.

 Það voru vísur og söngur sem voru allsráðandi í afmælisveislunni eins og að var stefnt.

Ég hef aldrei komist á alvöru " hagyrðingakvöld "  og nú kom það til mín.


                Helgi, Dagbjartur og Vigfús  fóru á kostum og slógu algerlega í gegn.

  Það mættu 3 snillingar ofan úr Borgarfjarðardölum og sýndu sitt rétta innræti því þeir höf'ðu greinilega ekki áttað sig á því að í afmælum á að hlaða oflofi á menn en ekki brjóta þá niður.

Og byrjuðu svona.

Helvíti er nú Halla klár

og hörkugóður svanni

að þrauka í yfir þrjátíu ár

með þessum líka manni.

                                   dd 

 Ég á svo eftir að fara betur yfir þetta og ákveða hvað er prenthæft. 

 

Sýnist löngum sopakær

sæll með byggið fljótandi

endar daginn (sukkið) oftast nær

uppíloft og hrjótandi.

                             dd

Hagmæltur og viskyvænn

vín og kvennagóður

en kollurinn er gegnumgrænn

og gamanmálafróður.

                           dd

 

Sér til gamans brúkar blogg,

býsna mikið lesið

sem virkar alveg eins og Mogg-

inn á Snæfellsnesið.

                           dd

Beint frá Býli.

 

Afkoman er ósköp næs

hjá öllum sem það stunda

selja beint frá býli gæs,

bygg og smalahunda.

                             dd
Og aðeins var minnst á austurbakkann.
 

Heyrast bæði hróp og köll

harmakvein og grátur

Eltir sprækur upp á fjöll

Austurbakkaskjátur.

                             dd
Og þessi sprengdi nú salinn.

 

Eins og refur reynslukænn,

rís og hækkar ennið,

enda býsna baukavænn

blessað gamalmennið.

                             dd


 Öddi mætti oftar en einu sinni á svið.  Hér tekur hann Binnavísur ( Svínárnesvísur) með miklum tilþrifum en sá vísnabálkur er í miklum metum hjá undirrituðum.

Og þessar áttu m.a. ágætlega við þessa kvöldstund.

 Mikið lét nú lífið okkur litlu kvíða.
Meðan kyrrlát kvöldsins blíða,
klappaði vanga Rauðárhlíða. 

Hjartað fullt af fjörsins yndi finn ég tifa.
Það er sem ég segi og skrifa,
 svona dag er gott að lifa.
                                     b.j.
Og veislustjórinn hann Þórólfur  var í essinu sínu, kominn á fornar slóðir.



 Hér er hann örugglega að segja sögu sem ekki er látin gjalda sannleikans.

 Austan frá Selfossi var sjálfur Ingi Heiðmar mættur og söng ræðuna sína af mikilli snilld.
 Þar lýsti hann miklum mannkostum afmælisbarnsins sem komu ábyggilega mörgum veislugesta á óvart.



Þakið á húsinu  gekk svo í bylgjum þegar hagyrðingunum tókst alveg sérstaklega  kvikindislega upp.
 Trúlega þessi verið að koma í loftið.

Fýkur nú í flest mín skjól,
fallið sérhvert vígi.
ef ég segi um hann hól,
er það bara lýgi.
                       dd


Göslarinn, Keli Langaholtsvert og Mummi refabani, sungu og kváðu að hætti alvöru sveitamanna.




Og þessir enduvöktu gömlu góðu gangnaskálastemminguna.

 Nóttin vart mun verða löng .
Vex oss hjartastyrkur.
Inni er bjart við yl og söng.
Úti er svartamyrkur.



 Stjáni pípari, Sveinn Blönduósi, Þórólfur,og Öddi náðu vel saman þó þeir kæmu sitt úr hverri áttinni.

 Yngri dóttirin söng m.a. uppáhaldslag/ljóð gamla mannsins, Rósin. 

Undir háu hamrabelti
höfði drúpir lítil rós,
þráir lífsins vængjavíddir
vorsins yl og sólarljós.
Ég held ég skynji hug þinn allan,
hjartasláttinn, rósin mín,
er kristalstærir daggardropar
drjúpa milt á blöðin þín.

Æsku minnar leiðir lágu
lengi vel um þennan stað,
krjúpa niður, kyssa blómið,
hversu dýrðlegt fannst mér það.
Finna hjá mér ást og unað,
yndislega rósin mín.
Eitt er það sem aldrei gleymist
aldrei það er minning þín.
                                          Guðmundur Halldórsson

Þá lá nú við að hann gréti.



 Og Steinka sem var algjör primus motor og allt í öllu þetta kvöld, spilaði undir.

Það var svo afastelpan sem setti lokapunktinn á kvöldið.



 Ég ætla að syngja allt sem ég kann fyrir hann afa sagði hún á leiðinni á svið og kunni greinilega vel við sig þar. Fábært hjá henni.


 Þessi sáu um allt sem viðkom frábærum mat. Hafþór meistarakokkur og Súkkatmaður , Rúna og Keli
 ( m. pípuhattinn)  í Langaholti
.


Takk fyrir mig.emoticon

Flettingar í dag: 1158
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579851
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:26:40
clockhere