13.06.2010 05:32

Línrúllurnar - og það að velja sér vini.

 Fermingar og afmæli innan Dalsmynnisættarinnar eru ekki mjög fámennar samkomur.

Það þarf stórt langborð til að rúma systkinahópinn með mökum, og stundum gengur mikið á við það borðið.

Í fermingar og úskriftarveislu á dögunum lenti ég í slæmum málum við slíkt borð á milli systra minn sem eru allar með tölu svarkar miklir( samt mismiklir)

 Ástæða  vandræða minna í þetta sinn voru rúllustæður miklar sem væntanlega eru vegfarendum um sunnanvert Snæfellsnes ákaflega kunnar.



 Þessi rúllustæða sem er mér að vísu algjörlega óviðkomandi, hefur staðið þarna vestan Núpár síðan línræktartilraun  allmikil var gerð í bjartsýniskasti í upphafi nýrrar aldar.

 Ég hef mikið verið skammaður fyrir þessar línbirgðir sérstaklega eftir að stóð nágrannans sem átti stóran hluta af rúllunum tók stæðuna til sérstakrar snyrtingar.

 Systur mínar létu  mig semsagt finna til tevatnsins og verst létu þær sem búsettar eru í Staðarsveitinni og eru að berja þetta augnayndi augum nokkrum sinnum í mánuði.

 Gömlu rökin um að þetta væri á landi nágrannans og það væru vinir mínir sem ættu ófögnuðinn og bæru alla ábyrgð á honum dugðu ekkert.

 Þær fullyrtu það að maður gæti valið sér vini.

Svo bættu þær ógnandi við að maður gæti hinsvegar ekki valið sér ættingja.

Og mér varð hugsað með hryllingi til komandi ættarmóta sem hafa nú ekki haldið fyrir mér vöku vegna tilhlökkunar, þó svona einelti bættist ekki við.

 Nágranninn og fyrrverandi vinur var svo óheppinn að koma í kaffi morguninn eftir, á meðan ég og mín heittelskaða voru enn í gríðarlegum ham eftir böggið daginn áður.

 Hann varð þeirri stund fegnastur þegar hann slapp úr þeirri morgunandakt.

Og nú fóru hlutirnir að gerast.



Það var tekin urðunargryfja í gömlu námuna.



 Dótakassarnir voru opnaðir og öllu tjaldað sem til var.



 Nokkur þúsund rúllur voru afplastaðar og ekið á traktorum og vögnum í urðunina.



 Það gerist ekkert í sveitinni nema Jonni mæti á svæðið. Alltaf á gamla launasamningnum.



  " Vinirnir" voru búnir að reikna það út að í þessum rúllum væru verðmæti uppá 15 - 20 milljónir í brennanlegri orku.
 Hún mun bíða hin þolinmóðasta þarna í holtinu eftir að orkuskorturinn kallar á aðgerðir.

Þá munu opnast þarna orkunáma að hætti mógrafanna í gamla daga.



Og kannski þorir Einar að mæta aftur í morgunkaffi fljótlega.emoticon

09.06.2010 21:49

Eyja og Miklah.hr. Krassandi kosningar.

 Hér í sveitinni hefur verið óhlutbundin kosning eða persónukjör lengur en elstu menn muna.

Þessi útfærsla á lýðræðinu hefur bara virkað ágætlega, og þó það séu aldrei allir sáttir við niðurstöðurna þá hefur þetta ágæta sveitarfélag/félög gengið bara þokkalega bæði fyrir og eftir sameiningu.

   Sumir kjósa með ýmis sanngirnissjónarmið að leiðarljósi, til að fá sem mesta dreifingu á milli manna og málefna. Aðrir sameinast um að ná inn þessum eða hinum  og sumir hafa húmorinn í hávegum og setja ólíklegustu nöfn á seðilinn sinn.

 Ég minnist þess til dæmis í denn, þegar allt í einu var settur niður grunnskóli í Eyjarhreppinn og talsverður hópur nýbúa var sestur að í bændasamfélaginu, þá myndaðist mikil samstaða um það í sveitinni, að skólinn skyldi eiga a.m.k. einn fulltrúa í sveitarstjórn, og var svo lengi.

 En nú er árið 2010 og allt að breytast í sveitinni eins og annars staðar.

 Þegar talið var uppúr kjörkassanum þá kom allt í einu í ljós að búinn hafði verið til alvöru listi í sveitinni. Hann hafði þó ekki verið kynntur nema hæfilegum hluta íbúanna enda vitum við það í sveitinni að sígandi lukka er best og rétt að taka ekki of stór skref í einu.

 Þeir sem stóðu að Miðhraunslistanum höfðu erindi sem erfiði og náðu inn þeim mönnum sem að var stefnt og tóku síðan með sér í leiðinni þann fjórða, sem kom það mjög á óvart að vera allt í einu kominn á fullskipaðan list.

 Það voru tveir hópar sem sem tóku sig saman með þessum fína árangri .

Annarsvegar Hjarðarfellsættarlínan í sveitinni og aðilar tengdir henni. Þeirra fulltrúar eru þeir Þröstur á Stakkhamri og Guðbjartur á Hjarðarfelli.

Hinsvegar fjölskyldan á Miðhrauni ásamt starfsmönnum fiskverkunarinnar þar. Þeirra fulltrúi í sveitarstjórn er Sigurður á Miðhrauni og ljóst að þeim listamönnum hefur að sjálfsögðu þótt það löngu tímabært að koma honum inn úr kuldanum.

 Ég get alveg fallist á það með þeim félögum að litlu skipti þó 4 fulltrúanna séu allir úr sama horni sveitarfélagsins og sama hvaðan góðir sveitarstjórnarmenn koma. Og allir eiga að geta sameinast um góða hluti. 

 Komi upp einhver ágreiningsmál er hinsvegar vont að þræðirnir eða baklandið liggi þröngt á sama blettinum.

 Það er tvennt sem mér líst ekki nógu vel á hjá þessum ágætu sveitungum mínum.

Annarsvegar eru atriði sem ég mun ekki ræða hér. Ef/þegar þau poppa upp á kjörtímabilinu mun verða fjallað um þau annarsstaðar hér á heimasíðunni.

 Hinsvegar finnst mér það dálítið mikið óheppilegt að af þessum 4 fulltrúum Miðhraunslistans og 5 hreppsnefndarmönnum, eru 3 hluthafar í Hitaveitu Eyja- og Miklaholtshrepps. Rétt er þó að ítreka það að einn þessara hluthafa , Hrefna á Vegamótum, er þarna í boði þeirra félaga og ef ég þekki hana rétt, er hún kannski ekki mjög hamingjusöm með þessa óvæntu þróun mála.

 Í sveitarfélaginu eru reknar 2 hitaveitur. Hitaveitan Kolviðarnes sf.  sem er í Eyjarhreppnum var alfarið komið upp og rekin  af eigendum sínum án nokkurra styrkja frá sveitarfélaginu.

 Um hina veituna, sem er álíka að stærð gegnir öðru máli.

 Sveitarfélagið boraði eftir vatni, virkjaði það og lagði að borholunni, veg og rafmagn.

Þegar Hitaveita Eyja og Miklaholtshrepps var stofnuð var búið til sanngjarnt verð á þessar framkvæmdir.

Sveitarfélagið lagði síðan hluta verðsins inn í félagið sem hlutafé en lánaði félaginu afganginn.

Ég er algör talsmaður þess að sveitarfélög komi að þjóðþrifastarfsemi eins og lagningu hitaveitna.
En  ég er líka algjör andstæðingur þess að sveitarstjórnir mismuni þegnum sínum.

 Það getur verið ákaflega óheppilegt þegar stjórnarformaður hitaveitufyrirtækis, sem er að semja um lán og lánakjör, og oddvitinn séu  einn og sami maðurinn.

 Og  enn óheppilegra þegar 2 hluthafar  til viðbótar eru í sveitarstjórninni sem samið er við.

Rétt er þó að taka fram að ég tel fullvíst að hluthafar hafi gætt góðra stjórnsýslureglna og vikið sæti við afgreiðslu þessara mála.

 En það var líka  afleitt og raunar grafalvarlegt í þessari stöðu,  þegar skautað var framhjá góðum almennum bókhaldsreglum um skýr skil á milli sveitarsjóðs og framkvæmda við eitthvað hf. félag út í sveit.

Þannig var það þegar  þessari ágæta hitaveitu var komið á koppinn og nú er verið að endurvekja þessa óheppilegu stöðu.

Fyrrnefnt lán var til ótiltekins tíma, að vísu með verðtryggingu en vaxtalaust.

Það vefur þó miskunnarlaust upp á sig og mér finnst það vera að vaxa hitaveitunni yfir höfuð.

Vaxtaeftirgjöfin á sl. ári gæti hafa verið hátt í 1.000.000 kr en hefur væntanlega verið 2 til 3 sinnum hærri þegar okurvextirnir stigu sem hæst á skerinu.
Þetta er álíka upphæð og við Kolviðarnesmenn eru að reka hitaveituna okkar fyrir árlega.

 Ég var þó, og er reyndar enn þeirrar skoðunar að grípa þyrfti til sértækra aðgerða til að loka þessu skuldamáli með þolanlegum hætti fyrir alla aðila, sérstaklega ef koma mun til sameiningar sveitarfélagsins við önnur..

Til þess að það sé hægt, þarf að nást um það góð samstaða bæði í sveitarstjórn og í samfélaginu.

Þessi samþjöppun á sveitarstjórninni inná hitaveitusvæðið er ekki jákvætt innlegg í þá lausn.

 Þó mér komi það ekki beint við, finnst mér að Guðbjartur á Hjarðarfelli skuldi félögum sínum, hinum almennu notendum veitunnar, skýringu á því, hversvegna hann tók þá ákvörðun í aðdraganda kosninga, að slá út af borðinu möguleikum á slíku samkomulagi á þessu kjörtímabili.

Rétt er að taka fram að þeim sem gera vilja athugasemdir við þessa söguskýringu mína, geta hvort heldur sem er, sett þær inn í athugasemdir hér fyrir neðan eða sent mér tölvupóst. Sé það gert mun sá póstur verða birtur neðanmáls við þetta blogg.

Í guðs friði.emoticon

07.06.2010 20:56

Sauðburðarlokum og sumarkomu fagnað með veislu.

 Það var blásið til mikillar veislu á Hótel Eldborg á Laugardagskvöldið.

 Iðunn og Dóri  voru nógu lengi í Skagafirðinum til þess, að þau væru orðin vön allskonar veislum af allskonar tilefnum.

Annað en hér.

 Þau töluðu því við Óla hótelstjóra og auglýstu síðan fagnaðinn.



 Hér er kappinn að bragðbæta eftirréttinn hjá gestunum sem höfðu ekki meira magamál eftir frábæra þríréttaða veisluna.



 Skógarneshjónin létu sig ekki vanta og báru sig að sjálfsögðu vel þrátt fyrir afbókanir hestamanna í næturgirðingarnar.



 Um 50 manns mættu og léku á alls oddi í blíðunni. Enginn að flýta sér heim að loknum matnum.



 Öddi kunni vel að meta þetta enda gjörspilltur úr Skagafirðinum eins og veisluboðendur.



Þessi gekk um með vatnsglasið sitt og þakkar eflaust guði fyrir að ég birti ekki hina myndina af honum.



 Jonni er ákaflega fundvís á það þegar Söðulsholtsbóndinn fattar upp á einhverjum sérstaklega spennandi verkefnum. Hann var því mættur í sveitina og hafði verið 3 manna maki við að urða línrúllur allan daginn. Brynja var svo óheppin að láta hann plata sig með.



 Hér eru öldungaráðsmenn í Eyjarhreppnum mjög áhyggjufullir á svipinn. Það var sko ekki að ástæðulausu.

 Vinir mínir á Austurbakkanum mættu ákaflega illa í þetta sinn, enda virðist sumum þjóðflokkum hreinlega vera það áskapað að vera alltaf að missa af einhverju skemmtilegu.

 Ég er þó ekki frá því að sumir veislugesta hafi verið þeirrar skoðunar morguninn eftir, að það hlyti að vera dálítið erfitt að búa í Skagafirðinum.emoticon

Flettingar í dag: 609
Gestir í dag: 73
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579302
Samtals gestir: 52633
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 09:20:30
clockhere