11.04.2009 15:14

Páskagestir.

 

 
  Uppáhalds fótboltakappinn og skáksnillingurinn minn í Vestmanneyjum, brá sér til meginlandsins um páskana. Eða upp á eyjuna eins og Vestmanneyingar segja.

  Hann brá sér að sjálfsögðu í sveitina til að heilsa upp á lömbin, hundana og náttúrulega hina vini sína í sveitinni.


 Svo komu góðir gestir á tjörnina. Þau koma oft  við hjá mér og stoppa gjarnan yfir nótt en leggja ekki í fasta búsetu hér yfir varptímann.
 Þau eru velkomin á tjörnina en þau mættu gjarna láta akrana og túnin vera.





  Þessi höfðingi hér fyrir neðan er frjáls og óháður þó hann eigi að njóta ákveðinnar verndar stóra bróður og okkar allra.




  Hann er kannski svona pínulítil áminning um fallvaltleik lífsins og þá sorgarsögu sem er í gangi í pólitíkinni í dag.


 En bráðum kemur betri tíð með blóm í haga.emoticon

Það er svo búið að bæta við fallegum myndum í albúmið " andirnar á Tjörninni."

09.04.2009 20:58

Dottað á rebbaveiðum.


  Ég hrökk alltí einu upp, þar sem ég hafði dottað í skothúsinu. Þó aðeins væri farið að skíma dugði það mér ekki til að sjá almennilega yfir á ætið sem var í um 80 m fjarlægð. Það var hálfauð jörð og snjóhraflið var ekki til að bæta málin en tunglið hafði brugðist mér að mestu um nóttina.

 Ég seildist í kíkirinn og fannst eitthvað öðruvísi en það átti að vera við ætið. Og viti menn þarna hreyfði sig refur og gamla góða adrenalinkikkið helltist yfir mig.


 Rebbabúð, einföld og látlaus. Efnið í hana kostaði undir 25.ooo kalli á sínum tíma og manni fannst þetta vera  5 stjörnu svíta, eftir það sem á undan var gengið í skothúsamálum.

 Ég hafði mætt í Rebbabúð um ellefu og byrjað á að leggja mig, því ég átti ekki von á umgangi fyrr en seint um nóttina, en 1 - 2 dýr voru farin að sniglast í kring um ætið síðustu næturnar. Það hafði verið logn um kvöldið en stöðugt bætt í vindinn og nú lá við að tæki í kofann í rokunum.
 Mér fannst það skárra en lognið, því ofurheyrnin í rebbanum nýtur sín ekki eins.



       Já, það eru ár og dagar síðan maður gat átt von  að ná nokkrum dýrum sömu nóttina við æti í Eyja 0g Miklaholtshreppnum..

 
Þó áttatíu m séu stutt riffilfæri í björtu er það ógnarlangt í skuggsýnu og mér gekk illa að koma rebbanum ínn á kíkinn hjá mér. Þegar krossinn kom á mórautt dýrið hvarf hann, en þar sem ég gat lýst krossinn rauðan, bjargaði það málunum. Þetta dýr var frekar rólegt en við svona skilyrði er erfitt að ráða við hlutina þegar dýrin eru á fleygiferð um svæðið.

   Þegar Móri var allur, leit ég á klukkuna. Hún var að verða hálf fimm. Þó það væri verulegur hrollur í mér, ákvað ég að doka við til sex, kveikti á gasprímusnum og dottaði ekki meira. Nú fór að birta og ekki þurfti að grípa til kíkisins meira. Um 6 leitið var tekið saman . Það tók því ekki að leggja sig fyrir fjós og til að taka endanlega úr mér hrollinn var farið í pottinn. Það hef ég ekki gert fyrr á þessum tíma sólarhringsins.


 Ætli ég fari ekki að verða of gamall fyrir þetta.?
 
´

07.04.2009 07:56

Pólitíkin?? Sjálfeyðingarhvötin og endurforritunin.


  Ég lét mig hafa það í gærkvöldi að setjast niður og fylgjast með frambjóðendunum í kjördæminu mínu,  takast á í beinni útsendingu.

 Þetta var hin skemmtilegasta afþreying og gaman að sjá hvernig menn komust frá þessum fyrsta slag í þessum stutta kosningarhasar.

 Ásbjörn vinur minn átti greinilega í vök að verjast, enda þurfa stjórnarflokkarnir ekki á kosningarbaráttu að halda, meðan félagar hans á alþingi eru haldnir jafn ríkri sjálfseyðingahvöt og þjáir þá þessa dagana. Hvað sem má um stjórnlagafrumvarpið segja, er ljóst að þeim hefur gjörsamlega mistekist að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og nú standa þeir í biðröð við ræðustól Alþingis til að skjóta sig í fótinn.

  Þeir sem mér fannst koma skást út úr þessum fundi voru samfylkingin og borgaraflokkurinn. Þeir munu nú samt ekki höfða til mín á kjördag því samfylkingarliðið er nú eins og það er og mér finnst eins og Borgaraflokkurinn sé dálítið stefnulaus í flestum málaflokkum en trúlega mun hann sækja sig þessa daga fram að kosningum þegar gamla fjórflokkadæmið verður búið að spila gömlu rulluna rækilega aftur.

  Frammarinn stóð sig líka þokkalega en undirstrikaði það að stefna flokksins væri sú að gera engar breytingar í í kvótadæminu, allavega í landbúnaðinum , en ég þori nú ekki að fullyrða um fiskinn.
  Ég held/vona að kvótakjaftæðið til lands og sjávar í núverandi mynd sé í dauðateygjunum og skilgetnir foreldrar þess, sjálfstæðis og framsóknarmenn ættu að átta sig á því í tíma.
  Ef þarf að gera út á sóknar eða aflamarkskerfi er ekkert eðlilegra en það sé ríkið sem eigi réttindin og leigi þau út annarsvegar og deili út byggðakvóta hinsvegar.

  Í landbúnaðinum hef ég bent á það áður, að það er ekki endurnýjunarvænt að láta þá sem hætta, halda launum næstu ára með sölu á ríkisstyrkjunum til þeirra sem taka við.
 Það sjónarmið er náttúrulega ekki uppi í Skagafirðinum þar sem menn hafa verið duglegir að bjarga sér og látið greipar sópa um landið og miðin undir handarjaðri KS. 
  Frjálslyndir sem hafa staðið í ströngu eru líklega úti þessar kosningarnar og lýðræðið hans Ástþórs nær illa innfyrir hlustirnar á okkur sem erum í einhverjum öðrum heimi en félagi Ástþór.

  VG sem eru á fullu að endurforrita sig sérstaklega í evrópumálunum og reyndar fjölmörgum öðrum málaflokkum mun ganga misjafnlega að fóta sig í umræðunni um sparnaðar, niðurskurðar og skattaleiðir.

  Leitogi þeirra í kjördæminu toppaði líka fundinn þegar hann fór að lýsa því hvernig staðið yrði að niðurskurðinum og sparnaðinum.

  Að sjálfsögðu ætti að hlífa þessu kjördæmi við öllum samdráttar og niðurskurðaraðgerðum enda hefðum við misst af veislunni. Síðan yrði heilbrigðis og menntakerfið  auðvitað varið??emoticon 



 Það er ekki nema von að við tengdamamma vitum ekkert hvað við eigum að kjósa.emoticon 

 

 

 
Flettingar í dag: 730
Gestir í dag: 75
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579423
Samtals gestir: 52635
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 10:48:38
clockhere