02.05.2015 08:08

Vorið góða " grænt og hlýtt."

 Vorið góða grænt og hlýtt kemur nú ekki í neinum fluggír þetta árið. 

Þessi frosta og illviðrakafli setur strik í reikninginn með gróðurfarið en hér  á Nesinu góða er það þó allavega stór plús að fá frosna en auða jörð til að koma mykjunni á túnin. 



Hefði að vísu þurft að vera svona 10 dögum fyrr en ekkert er fullkomið í henni veröld.

Að sama skapi er akuryrkjan í uppnámi, komið fram í maí og ekkert hægt að gera í flögunum vegna klaka serm er að myndast akkúrat þessa dagana. 

 Nú er bara að vona að hlýni um leið og mykjan er komin út. Sauðburðurinn er að komast á skrið , búið að græja tamningaraðstöðuna í sauðburðaraðstöðu.



 Tamningartrippiin eru að tínast heim til sín. Þau fá tímabært frí sem verður mislangt hjá þeim. 



 Áburðurinn sem er nú einn af þessum árvissu vorboðum , samt í dýrari kantinum mætti fyrst í gær. einhverntímann hefði maður verið stressaður með þennan seinagang á afgreiðslunni en einhverra hluta vegna var ekkert stress í gangi í þetta sinn. emoticon


     styttist vonandi  í svona mynda´tökur.

Næsta vika verður svo vonandi lögð undir akuryrkjuna ef guð lofar og ekki rignir .



 Og nú er búið að geirnegla fyrstu hestaferð sumarsins, - Miðfjörður - Söðulsholt um miðjan júní.

Já, já þetta er bara allt að koma held ég .emoticon

13.04.2015 19:41

Að hundbeita .........

Einhverntíma í vetur var ég að skruna niður umræðuþráð á sauðfjárvefnum. 

  Við svona skrun hef ég sama háttinn á og þegar ég stúdera hvolpaauglýsingar. Sleppi nöfnum sem ég álít að hafi ekkert til málanna leggja og bæjum þar sem ég tel menn vera að rækta hunda sem henta mér ekki emoticon .

  Eitt þeirra nafna sem ég hef dálæti á,gaf þarna út stutta og gagnorða  yfirlýsingu. " Við hundbeitum ekki forystufé " . ( Spjallþráðurinn snerist um forystufé. ) 

  Ég var að sjálfsögðu algjörlega sammála þessu og gaf mér það að sá sem lýsti þessu yfir væri sama sinnis hvað annað fé varðaði. emoticon 

 Einhvernveginn hefur þetta " comment " eða athugasemd samt droppað upp i hugann öðruhvoru síðan.

 Best að blogga sig frá því.emoticon

 Á aðalfundi Smalahundafélags Íslands í haust var vakið máls á því að í tilteknu sláturhúsi væri fé, tjónað eða hundbitið að verða vandamál.

  Greinilega væru í notkun hundar sem réðust aftan að fénu og bitu.
 
Þetta væri að aukast og líklega þekktist þetta víðar. 

 Þau okkar sem hafa tamið hunda fyrir sjálf sig eða aðra, þekkja vel að talsverður hluti unghunda sækist í að ráðast að fé, í upphafi tamningar. 

 Við köllum þá skæruliða. 

 Mín reynsla af skæruliðunum er sú að það er oftast afar fljótlegt að gera þá að góðum fótgönguliðum.

Þeir læra það svo seinna , að aðeins í þeim til vikum sem kindur ráðast á þá, standa framaní þeim eða þeir eru notaðir til að taka fé við sérstakar aðstæður,sem þeir mega bíta.

      Dáð frá Móskógum var nú ekki sú hugrakkasta  en þetta kunni hún.

  Það er aðeins í undantekningartilvikum sem þetta er vandamál.  Þ.e. að að skæruliðarnir eru algjörlega fastir í hasarnum.

 En það kemur að því að hundarnir þurfa að beita tanngarðinum. emoticon
 
 Ég leiðrétti því skæruliðana ekki fyrir að ráðast á kindurnar, heldur kenni þeim að vinna fjær þeim.

 Þegar þeir eru komnir í 8 - 10 metra vinnufjarlægð er þetta vandamál úr sögunni og reyndar nokkur önnur, 

 Sæmilega eða vel ræktuðum Border Collie á að vera það í blóð borið að vinna svona, svo þetta á ekki að vera vandamál. emoticon   

 Stundum velti ég svo fyrir mér orsökum þess  hversvegna undantekningartilfellin séu svo harðskeyttir skæruliðar. 

  Mín niðurstaða sem er kannski ekki mikils virði er sú, að þarna séu nokkrar ástæður fyrir hendi.
 Sumir ræktendur rugla t.d, saman ákveðni og grimmd sem ég held nú að sé sitthvort genið .

 Það er til dæmis afar líklegt að hundar sem ráðast aftan að fé séu kjarklitlir. 

 Í sumum tilvikum er um einhverja taugaveiklun að ræða sem erfitt getur verið að lagfæra.

 Annaðhvort ræktunargalli eða uppeldi sem hefur lent útaf beinu brautinni.

  Ef hundar eru t.d. mikið bundnir í uppeldi, of lengi samfleytt  við rangar aðstæður,t.d þar sem mikið er um að vera, getur það byggt upp spennu hjá hvolpinum  sem  síðan leiðir til vandræða með ýmsum hætti, o.sv.frv. 

En semsagt. 

 Það virðist vera sem " einhverjum " hluta bænda eða smalanna þeirra finnist það eðlilegur hluti af fjárraginu að nota hunda sem ráðast á fé að tilefnislausu.

 Meira að segja á öfugan enda emoticon

Og jafnvel á forystufé. emoticon.

31.03.2015 07:53

Upplagið, uppeldið og allt hitt.

 Hundarnir/tíkurnar sem eru að detta inn hjá mér öðruhvoru eru jafn misjöfn og þau eru mörg.

   Annarsvegar ákaflega misjöfn að upplagi til þess sem þau eru ræktuð til og hinsvegar hafa þau hlotið ákaflega misjafnt uppeldi. 

  Upplagið er allt frá því að vera með innbyggt allt sem þarf til að vera  afbragðs fjárhundar. Aðeins þarf að komast í samband við þau og kenna þeim að þessi skipun þýði þetta og hin hitt. 



Korka frá Miðhrauni var með allan genapakkann kláran í kollinum.

   Í  hinum endanum eru þau sem allt eða margt þarf að kenna svo þau nýtist sem fjárhundar.

 Svo er allt til þar á milli

 Misjafnt hvað vantar.  

  Til dæmis hafa þau kannski ekki mikinn áhuga á að stoppa kindurnar af , splundra hópnum í stað þess að halda honum saman . Leitast við að vinna alveg ofaní í kindunum o.sv.frv. 

 Uppeldið er síðan alveg frá því að hundurinn er mikið agaður og taminn,  í að hafa alist upp í algjöru sjálfdæmi. Bara fengið að éta  og kannski verið bundinn meira og minna. 

Slík dæmi eru samt að verða nánast óþekkt í dag. 

Þau mest öguðu flugteymast og kunna helling af allskonar fídusum sem koma smölun kannski ekkert við.  

En ögunin nýtist vel við tamninguna

  Ef það fer saman að upplagið er gott og uppeldinu hefur verið vel sinnt  verða allir hamingjusamir.

 Hundurinn hlustar vel og er fljótur að læra , vinnubrögðin meðfædd og á 3 - 4 vikum verður til fjárhundur sem eigandinn þarf einungis að komast í samband við með skipanirnar og allt er klárt í smalamennskuna. emoticon


 Dáð frá Móskógum í kindur í fyrsta sinn. Ekki komin með rétta áhugann eins og sést á skottstöðunni. Nokkrum mánuðum seinna var þetta allt komið.emoticon


 Hundurinn sem hinsvegar þarf að læra mismikinn hluta af vinnubrögðunum og er illa undirbúinn í nám vegna slaks og óagaðs  uppeldis kemur öðruvísi út. Það fer mismikill tími í að koma á góðu sambandi og síðan fer það mikið eftir vinnuáhuganum hversu hratt eða vel gengur að koma honum í vinnuhæft form .

 Ef það gengur á annað borð. 

Í sumum tilvikum þarf síðan að laga eða rétta af mistök sem hafa orðið í uppeldinum. Það tekur yfirleitt mun lengri tíma að rétta af slík mistök heldur en að gera þau. 

 Það eru t.d. langoftast alvarleg grundvallarmistök að fara með lítið eða ótaminn hund í smalamennsku. emoticon


 Sem betur fer verður það sífellt sjaldgæfara að hundar hafi verið vandir af að fara framfyrir eða bara fara í kindur yfirhöfuð. 

 Sífellt fleiri átta sig á því að ef hundurinn er farinn að sýna óæskilega hegðun við kindur áður en kemur að tamningu er honum bara haldið frá kindunum þar til kemur að tamningunni.

 En svona til að vera  jákvæður hefur orðið mjög mikil breyting á því seinni árin að það sem dettur inn hjá mér er langoftast óskemmt og yfirleitt með uppeldið í góðu lagi.

 En genapakkinn er alltaf jafn fjölbreytilegur emoticon .
Flettingar í dag: 293
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581756
Samtals gestir: 52780
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 02:57:58
clockhere