19.11.2009 23:35

Allt að róast í sveitinni - bráðum.

 Já, tíðarfarið er búið að vera virkilega fínt undanfarið og þó lognið hafi verið á ákaflega góðri siglingu undanfarna daga lygndi í gær. Það kom sér vel,  því loksins var plægingu lokið þetta haustið og plógurinn því þrifinn og smurður . Hann fær síðan vetrarvist í upphitaðri vélageymslu enda snilldarverkfæri sem á bara það besta skilið.


 Pöttingerinn er meiriháttar skemmtilegur í plægingunni en þar sem mýrarakrarnir  verða stundum mjúkir yfirferðar var valin extra léttbyggður og meðfærilegur  vendiplógur. Vökvaskekkingunni og öllu óþarfa prjáli sleppt þó vökvaútslættinum væri haldið.

 Haughúsdælan var tekin upp í leiðinni, og þrifin .  Nú ákváðum við að setja örflóru í haughúsið og verðum gaman að sjá hvort það hefur einhver áhrif þegar kemur að því að hræra upp í apríl.

 Plæginguna endaði ég á um 5 ha. túni sem væntanlega verður í byggrækt næstu tvö árin .

 Nú er loksins verið að ýta út ruðningum á spildum sem verið er að taka undir bygg til að byrja með en munu enda sem tún. Það verk hefur átt að vinnast síðustu tvö haust.



 Ef tekst að ljúka því í haust munu bætast við akrana um níu ha. Það gæti þýtt verulega aukningu í byggrækt næsta árs.

 Ef áætlanirnar ganga upp með afsetninguna á umframhálminum í vetur, munu hálmurinn og gæsaveiðin skjóta styrkari stoðum undir þessa ræktun og auka verulega líkurnar á bærilegri afkomu.

 Já, þó mesta hauststressið sé búið hefur dregist of lengi að kippa ullinni af lömbum og veturgömlum.
 Hópurinn er ekki stór en þegar kemur að rúningnum verða bændurnir aumir í baki og öxlum og nefndu það bara.
 
Enda frestur á illu bestur eins og allir sannir bændur vita. 

  En allir frestir taka enda og nú styttist í að reifin fjúki af fénu og allt verði tekið á hús, enda  fengitíð og sæðingar að bresta á.

 En ekki fyrr en eftir helgi því nú er endalaus gleði framundan.emoticon

17.11.2009 08:35

Refaveiðarnar. Ríkið, möppudýrin og mófuglinn sem tjónast.

 Nú stefnir í að ríkið hætti að taka þátt í refaveiðunum.

 Það hlálega við þennan " sparnað" er það að við grenjavinnsluna vinna undantekningarlítið verktakar sem skila ríkissjóði VSK af öllum reikningum. Sýnt hefur verið fram á að tekjur ríkisisins af  virðisaukaskatti vegna refaveiðanna er meiri en þessar millur sem hafa farið í endurgreiðsluna.

 Enda er það gamalt baráttumál sveitarfélaganna að fá endurgreiddan vaskinn vegna veiðanna.



Verði þetta að veruleika mun margt breytast í refaveiðinni. Hluti sveitarfélaganna mun halda áfram veiðunum en þjarma að veiðimönnunum með greiðslur fyrir verkið.

 Önnur munu leggja af skipulegar veiðar og bændur og áhugasamir veiðimenn sinna þessu skipulagslaust.

 Þetta mun þýða það að skýrsluhald umhverfisstofnunar vegna veiðanna mun leggjast af, því forsendur endurgreiðslunnar voru nákvæmar veiðiskýrslur  frá veiðimönnum/sveitarfélögum.

 Ekkert sveitarfélag mun skila inn veiðiskýrslum vegna refaveiða komi þetta til framkvæmda .


 Í þessu  greni hefur framleiðslan verið 5-8 hvolpar á ári. Það sést fljótt á umhverfinu þegar þeir fara að berjast fyrir lífinu

 Ég þekki persónulega vel hvað skeður, þegar stærð refastofnsins takmarkast af afkomumöguleikum þeirra á veiðisvæðinu / óðalinu sínu sem minnkar sífellt eftir því sem fjölgunin verður meiri.

 Mófuglinn þurrkast fljótlega út því þó rebbinn sé klókur um margt rányrkir hann fuglinn og hreinsar gjörsamlega upp egg og unga.
 Mér hefur sýnst að mófuglinn sé ótrúlega staðbundinn, því það tekur mörg ár fyrir svona svæði að ná sér upp eftir að búið er að koma refastofni svæðisins í skaplegt horf.

Þegar svona " offjölgun" verður og mófuglinn þrotinn er stutt í að rebbi snúi sér að lömbum og síðan fullorðnu þegar kemur fram á haustið.











Dýrbitið lamb sem hefur ekki verið bráðfeigt.
Mynd af kelduhverfi.is
 
 Skynsamlegt væri hjá þessari krísuríkisstjórn ef halda á því til streitu að hætta aðkomu að refaveiðum að taka upp endurgreiðslu virðisaukaskatts af veiðunum.

 Með því myndi kostnaður margra sveitarfélaganna standa í stað og veiðiskýrslurnar skila sér inn.

 Ef niðurstaðan verður hinsvegar sú að skipuleg refaveiði leggist af í mörgum sveitarfélögum væri skynsamlegt að setja pening og atvinnulaus möppudýr í að fylgjast með  hvað gerist úti á mörkinni þegar rebbanum fjölgar.

En nú um stundir er það víst ekki skynsemin heldur örvæntingin sem ræður ríkjum.   emoticon

 Og hetjur lyklaborðanna munu fara á því meiri kostum um málið, sem þeir vita minna um lífríkið.

16.11.2009 08:30

Sunnanvert Snæfellsnes og grunnskólinn.

  Laugargerðis og Lýsuhólsskóli hafa sinnt grunnskólaþjónustunni á sunnanverðu nesinu af mikilli alúð í árabil. Nú eru hinsvegar blikur á lofti  í þeim málaflokki þar, eins og víðar.

 Línuritið fyrir nemendafjöldann er á niðurleið í augnablikinu og rekstrarstaða sveitarfélaganna krefst lækkunar á kostnaðarliðum þó að þó sú krafa sé missterk eftir sveitarfélögum.

  Eyja og Miklaholtshreppur og Kolbeinstaðarhreppur, nú Borgarbyggð hafa rekið Laugargerði samkvæmt helmingaskiftareglu í talsverðan tíma en nú stefnir í breytingar á því.

 Formlegar viðræður um samstarfið eru að hefjast og skal engu spáð um niðurstöðu þeirra.

Þó er ljóst að  breytingar munu verða í framhaldinu, í versta falli dregur Borgarbyggð sig útúr samstarfinu. Í besta falli mun rekstrarformið breytast án þess að nemendur verði þess beint varir en uppstokkun á rekstrinum mun bæði koma við starfsmenn skólans og rekstur Eyja og Miklaholtshrepps.

 Hvernig sem þessar viðræður fara, er nokkuð ljóst að enginn bilbugur er á sveitamönnunum að reka skóla  áfram enda aldir upp við það að vandamálin séu til að leysa þau.


  Breiðablik er nokkuð miðsvæðis á nesinu og kannski  verður á einhverjum tímapunkti  skoðað  að kenna hér.

 Vegalengdirnar í næstu þéttbýlisskóla eru einfaldlega þær, af nánast öllu sunnanverðu nesinu að akstur með nemendur þangað er vond lausn. 

 Að leggja upp með að aka börnum allt uppí 60- 70 km. vegalengd með tilheyrandi stoppum og akstri um misjafna hliðarvegi fimm daga í viku ætti að vaxa öllum í augum. Líka foreldrunum í þéttbýlinu sem krefjast þess að dreifbýlisskólarnir leggist af svo hægt sé að setja peninginn í þéttbýlisskólana.

 Ekki er ólíklegt að innan nokkurra ára verði farið að skoða heildarlausn grunnskólans á sunnanverðu Snæfellsnesi með hagmuni nemenda leiðarljósi.

Þeir hagsmunir geta hugsanlega slegið aðeins á hreppamörkin sem eru nú í rauninni aðeins strik á korti og auðvitað í talsverðri útrýmingarhættu.emoticon 
 
Flettingar í dag: 60
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581523
Samtals gestir: 52773
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 01:30:56
clockhere