23.01.2012 23:53

Fagurt á fjöllum.- Oftast.

  Ég er löngu hættur að velta því fyrir mér hvers vegna tilveran breytist við það að ég kemst uppfyrir túngarðinn hjá mér.

Hún gerir það bara.

Það var tekin salíbuna í dag til að tappa aðeins af manni láglendishrollinum.



 Færið var alveg svakalega flott og hér er horft til suðurs út til faxaflóans og Löngufjöru.



 Hér sést ósinn á Haffjarðaránni og Kolviðarnesið til vinstri og Suðurey fremst til hægri. Toppurinn á Dalsmynnisfellinu næst á myndinni.



 Kolbeinsstaðar og Fagraskógarfjallið vöktu yfir vinum mínum á Austurbakkanum sem aldrei fyrr. Það sést ofan/aftan á Geldingaborgina fyrir miðri mynd.



 Undir þessum hvíta hjúp kúrir Svartafjall.


 Og ég svo hef súmmað fullmikið á Hestinn en það er makkinn og lendin á honum hinu megin við borgina á miðri myndinni.



 Fararskjótarnir bíða þolinmóðir gamlir og lífsreyndir.



 Og sólin braust í gegnum skýin öðru hvoru til að fullkomna þennan klukkutíma ofan túngarðs.
 

20.01.2012 08:19

Að selja hvolp. - eða selja ekki hvolp?

 Þú ert bara alveg eins og Gösli í röddinni, sagði konan þegar hún hafði kynnt sig í símanum.

Ég var að tala við hann og spyrja hvort það væri ekki óhætt að hringja í þig bætti hún við.
  Maðurinn minn missti hundinn sinn í sumar og var nú búinn að fallast á að fá sér ekki hund aftur. 
Hann langar samt alltaf í hund og ég er að hugsa um að gefa honum hvolp í afmælisgjöf.

Ert þú nokkuð með hvolp núna?

 Ég kannaðist aðeins við manninn sem var hættur búskap vegna aldurs en átti trúlega nokkrar kindur.
 Það kom dálítil þögn í símann meðan ég melti ræðuna og velti því fyrir mér hvernig ég sneri mig útúr þessu.

Svo viðukenndi ég að það væri nú væntanlegt got eftir 2 - 3 vikur, en ég er nú ekki viss um að Border Collieinn henti ykkur bætti ég hikandi við.

 Konan reyndist hinsvegar vita jafnlangt nefi sínu því hún spurði hvort ég reiknaði með að þetta yrðu ofvirkir eða erfiðir hundar sem kæmu úr þessu goti.
Nú gerði ég mér ljóst að ég var orðinn heimaskítsmát í málinu því ekki gæti ég farið að úthúða ræktuninni hjá mér sem í þessu tilviki gekk einmitt út á að ná fram góðum en sérlega meðfærilegum hundum.
 Eftir að hafa rætt málið nokkuð áttaði ég mig á því að konan varð því ákveðnari sem tínd voru til fleiri mótrök fyrir viðskiptum en það er mjög algengt í þessum bransa.
Niðurstaðan varð sú að ég hefði samband að afstöðnu goti, enda lagði ég áherslu á að óvíst væri að eitthvað yrði til sölu umfram pantanir.



 Það var hinsvegar komið dálítið hik á konuna þegar ég hafði samband í vikunni.

Ég skynjaði það strax og spurði varkár hvort hún væri ekki komin með hvolp handa bóndanum.

Konan neitaði því en sagðist nú vera orðin dálítið tvístígandi í málinu.
Reyndar væri hún eiginlega hætt við að gefa honum hvolp.

Þau gætu hvergi haft hann nema inni hjá sér því það væri of heitt í geymslunni.
Ég tók strax undir það að hundum liði illa í miklum hita.

 Svo bætti konan við að eiginmaðurinn myndi ekkert temja hundinn, þetta færi örugglega bara í vitleysu hjá honum. Eins gott að hann er nýfarinn út, því ég sagði honum aldrei frá þessu bætt hún við í trúnaðarróm.
 Ég kepptist við að vera konunni algjörlega sammála og þetta væri allt hárrétt hjá henni.

Það er óvist hvort okkar var ánægðara þegar við slitum talinu.

Og ég sem vildi ekki selja henni hvolp komst hjá því að segja henni ósatt um stöðuna hjá mér.

 Ekki á það syndaregistur bætandi.

16.01.2012 21:11

Flott fjárhús. Haukatunga Syðri 2.

 Nú eru breyttir tímar í hönnun fjárhúsa .

 Þessi stöðluðu hefðbundnu fjárhús sem öll voru nánast eins í den, sjást varla byggð lengur og fjölbreytileikinn í þeim nýbyggðu er næstum endalaus.



 Hér er verið að taka út nýleg fjárhús í Haukatungu Syðri 2 sem eru bæði glæsileg og ágætlega hönnuð.


Þar sem bændurnir voru ekki mættir bauð Þorri okkur velkomin en þetta er kúlulaus öðlingur á öðrum vetri.


  Ég ætla ekkert að hafa það eftir sem kötturinn var að segja þarna.

 Fjárhúsin eru hólfuð niður í 10 hólf með 5 gjafagrindum og það eru um 40 kindur í hólfi.
 Gjafagrindin er ekki með hreyfanlegar hliðar og þarf því að færa síðustu tugguna að kindunum.



 Rögunargangar við sitthvorn enda stíanna.



 Og alltaf sér maður einhverja nýja útfærslu á innréttingunum.



 Þarna hefur bændunum tekist að ná ótrúlegum framförum í ræktuninni á síðustu árum enda áhuginn gríðarlegur.

 

 Gjafabúnaðurinn klár í slaginn.



 Hér er aðal umferðaræð hússins og stíur fyrir hrúta, nýbornar og eitt og annað sem taka þarf frá.



 Hér er Arnar að gauka einhverju að þeim félögunum Þorra og Manga.



 Já , Mangi var held ég bara nokkuð feginn þegar hann sá á eftir okkur yfirgefa svæðið.

Flettingar í dag: 592
Gestir í dag: 72
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579285
Samtals gestir: 52632
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 07:59:30
clockhere