25.11.2009 23:38

Refur,minkur,elítan og ruglið.

Nú sér fyrir endann á nokkurra ára rannsóknum á minknum. Fyrst atferlisrannsóknir og síðan rannsókn/tilraun á því hvort hægt sé að útrýma honum úr íslenskri náttúru.

 Reyndar er útrýmingarverkefnið nú kynnt sem rannsókn á því, hverju aukið veiðiálag skilar !!!

  Sú stefnubreyting hefur trúlega verið tekin eftir að klúðrið hér á Nesinu varð mönnum ljóst.
 
Það er held ég útilokað að rökstyðja það, að á Snæfellsnesi  hafi verið gerð alvöru tilraun til að útrýma minknum enda stór svæði sáralítið eða óveidd.  Skipulagið í upphafi og eftirfylgni þeirra sem bera ábyrgð á framkvæmd útrýmingarátaksins  er þannig, að efasemdir vakna um að nokkurtímann hafi verið stefnt að útrýmingu villiminks hér á Nesinu.

 Reyndar þarf  heljarlangt blogg til að fara yfir það sem manni finnst hafa farið úrskeiðis í átakinu á Snæfellsnesi.

 Þegar við, sem þekkjum til minkaveiða gluggum í skýrslurnar, er reyndar ekkert sem kemur á óvart varðandi þær niðurstöður sem þó liggja fyrir.

 Það er að sjálfsögðu löngu vitað að mikið veiðiálag heldur minknum svo til alveg niðri.

Það eru síðan til á landinu stór svæði sem ötulir veiðimenn halda algjörlega minklausum.

Þar þurfti engar rannsóknir , bara ákvörðum manna í héraði að gera það.



 Í framhaldi af niðurskurði ríkisins á málamyndaframlagi þess til refaveiði, er hafinn mikill söngur hjá rannsóknarelítunni að nú þurfi að rannsaka ýmislegt varðandi refinn.

 Ég er nokkuð öruggur á því að ef farið yrði í þær rannsóknir, kæmu niðurstöðurnar fjölmörgum nákvæmlega ekkert á óvart.

 Þeir eru býsna margir sem vita hvað gerist þegar það er orðinn innan við 1 km. milli grenja og slatti af gelddýrum, til viðbótar á svæðinu.

 Þó frjósemin minnki er svæðið samt algjörlega ofsetið og þar sem enginn ungi kemst upp, sér nokkuð fljótt á fuglalífinu. Og vitið þið það, að ótrúlega margir átta sig á því að hér er borðleggjandi niðurstaða   án     " rannsókna".


Þessir tveir í felulitunum voru á nýju greni og fuglalífið var enn í fínu lagi í kring. Og verður líka næsta vor.


 Menn vita alveg hvernig fuglalífið á Hornströndum er komið þó elítan skjóti sér á bakvið það að engar    " rannsóknir " hafi verið gerðar þar fyrir friðun refsins. 

Því sé " ekkert " vitað um áhrif refafjölgunar á fuglalífið þarna.

 Menn sem gjörþekkja þetta svæði fyrir og eftir rebbafriðun eru að vísu  eitthvað að tala um algjöra útrýmingu mófugls á svæðinu.
  Reyndar halda þeir því líka fram að þar sem áður voru þéttsetin fuglabjörg, sé nú einungis bjargfugl í þeim hluta bjargsins sem tófan kemst ekki um. 
 Þetta eru náttúrulega  ekki  " rannsóknir"  og lítið mark takandi á einhverjum villimönnum sem ólust upp fyrir norðan hníf og gaffal.

 Og meira að segja elítan í Fuglaverndunarfélagi Íslands hefur ekki skoðun á því hvort hætta eigi refaveiðum, vegna þess að áhrif þess á fuglalífið hafi ekki verið "rannsökuð".

Þar heggur sá er hlífa skyldi.

 Þó þeir skipti  hundruðum Íslendingarnir sem þekkja þennan málaflokk býsna vel og vita hvað veruleg minnkun  veiðiálags á rebbanum þýðir, þá hafa þeir náttúrulega engar  " rannsóknir " á bakvið þekkingu sína á atferli rebba kallsins og hvað veruleg fjölgun hans þýðir.
 
Sumarbústaðaeigendurnir sem skilja ekkert í því að allur fugl er horfinn, eru meira að segja að uppgötva hvað þeir eru að fá í staðinn, þegar þeir missa svefn vegna gaggandi yrðlinga.
 
  Leiðin útúr þessu rugli er einföld.

 Sveitarfélögin taka algjörlega yfir refaveiðarnar, kosta þær og ákveða hvernig að þeim skuli staðið.

 Ríkið tekur hinsvegar yfir minkaveiðarnar á landsvísu og kostar þær.

Til að hámarka nýtingu á peningum, og árangur minkaveiðanna, myndi ég ráðleggja Umhverfisstofnun sem væntanlega tæki þetta yfir, að halda sig við veiðimennina sem ráðgjafa og umsjónarmenn minkaveiðanna.
 
Rannsóknarelítuna ætti að setja í eitthvað sem hún ræður við og hefur vit á. emoticon

24.11.2009 23:38

Fauskáskelda, steinar, Vikur eða Nykurtjörn?

 Ég var mættur  á slaginu 10 í morgun í Landlínum að setja landamerki Dalsmynnis inná kort  og ákveða hvar þörf væri á hnitsetningum til öryggis.

 Það reyndist nú bara vera á einum stað þar sem sjónlínur mætast í stein í austanverðu Dalsmynnisfellinu sem talin var þörf á hnitsetningu, hitt væri allt nokkuð ljóst.

 Þó manni hafi verið bent á landamerkin í bernsku hafði nú aldrei verið legið yfir landamerkjabréfum og örnefnum tengdum þeim og ekki laust við að manni þætti orðalagið stundum skrýtið  á sumum bréfanna sem legið var yfir í dag.


 Landamerkjabréf fjallajarðanna hér í sveitinni lokuðust alltaf með línum í einhverja fjallstoppa  og síðan " eftir fjallseggjum " eins og sagði gjarnan í bréfunum.

 
Eftir að hafa lokið minni hlið á merkjum  Dalsmynnis heimsótti ég gamlan sveitunga, því ég hafði tekið að mér að koma inn landamerkjum á aðalskipulagstillögurnar, fyrir 4 eyðijarðir í austurhluta sveitarinnar. Ég hafði áður verið fullvissaður um að slík landamerki á aðalskipulagi hefðu ekkert lagalegt gildi gagnvart seinni tíma kynslóðum.

 Eftir að hafa farið yfir landamerkjabréfin ákvað ég að fá fyrrverandi Höfðabónda, Sigga Odds í lið með mér frekar en fara um svæðið og dýrka upp gömul örnefni sem ég vissi ekki nákvæmlega hvar voru.

 Enda varð okkur ekki skotaskuld úr því að strika nokkrar línur á kort þrautreyndir í því frá gamalli tíð,  ýmist að búa til vandamál eða leysa þau.

 Og ég held að línurnar hafi flestar verið býsna nærri lagi hjá okkur.



 Hér í lægðinni í hrauninu rennur Fannáin sem skiptir landi milli Y. Rauðamels og Gerðubergs.
Samkvæmt landamerkjabréfinu kemur hún úr Vikurtjörn. Það er held ég óumdeilt að hún kemur úr Nykurtjörn.

Lang - lang stærst þessara jarða er Ytri - Rauðimelur sem er ein af landstærstu jörðum  á Vesturlandi og blóðugt að hún skuli hafa verið lögð í eyði.
  Á landamerkjabréfi fyrir vesturhlið Rauðmels var syðsta örnefnið Fauskáskelda, norðar var svo vitnað í Skálmarkeldu sem lá frá  Miklholti og uppundir  "þjóðveg" .

 Við Siggi vorum nú  harðir á því að Skálmarkeldan og Miklholtið lægi ofar , norðar þjóðvegar og skildum ekkert í þessu, fyrr en lesin var dagsetningin á landamerkjabréfinu sem var frá 1885. Samkvæmt því hefur þjóðleiðin meðfram Gerðuberginu á þeim tíma verið kallaður þjóðvegur.

Og flóinn sem núverandi þjóðvegur liggur um var náttúrulega ósnortið votlendi á þeim tíma.,

 Já það er öruggast fyrir landeigendur að drífa í því að hnitsetja
landamerki áður en örnefnin týnast.emoticon

22.11.2009 23:39

Hundalíf og h....... rok.

Sem betur fer hefur hitastigið haldið sig yfir frostmarki að deginum í þessu hávaðaroki sem er að hamast á okkur  sem búum í sælunni á sunnanverðu Nesinu,  þessa dagana.

 Næsta vika á svo að verða síðasta stressvikan í haust enda hefur mörgu verið komið í verk, aldrei þessu vant. Svo er góðu tíðinni fyrir að þakka.

 Og hundarnir sem oft væru búnir að svitna í haust ef þeir á annað borð gætu það, sjá líka fram á rólegri daga.



 :Þó Vaskur megi ekki taka þátt í að smala kúnum í biðplássið fylgist hann alltaf vel með því ef eitthvað skyldi nú bjáta á. 

 Alltaf jafn áhugasamur þó skrokkurinn sé ekki til jafn mikilla afreka og fyrrum.



 Og þrátt fyrir að Snilld sé vel af guði gerð hvað fótagerð varðar ( Dalsmynnisræktunin) og verður aldrei sárfætt hvað sem á gengur, tjónaðist hún í dag.



 Hún lenti í því að koma vitinu fyrir heilaskert fyrirbrigði af Austurbakkanum og er það hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem þess gerist þörf.

 Þetta kostaði allnokkur átök og  nú er farið um á þremur og gott að eigandinn á hunda til skiptanna í lokasprett fjárragsins.



 Og hérna sjáið þið alvöru fótagerð sem aldrei verður sárfætt þrátt fyrir óhugnanleg átök sem þessum fótum hefur verið boðið upp á gegnum tíðina.



 Ég ætla svo engu að spá um hvernigi fótagerðin hér fyrir ofan á eftir að reynast en margt bendir til  þess að það eigi eftir að reyna duglega á þessa fætur  áður en lýkur.


 Kannski verður svo júgurgerð landnámskúnna tekin fyrir fljótlega.emoticon



Flettingar í dag: 1649
Gestir í dag: 128
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 580342
Samtals gestir: 52688
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 17:55:03
clockhere