28.12.2008 09:53

Rigninguna út, snjóinn inn.


   Jólasnjórinn er löngu horfinn og það er dimmt yfir þessa hlýju vetrardaga. Hrossin kumruðu á móti mér óþolinmóð eftir gjöfinni þegar ég birtist þeim í morgun. Ég byrjaði á því að ganga um húsið og þegar kom að folaldastíunni mundi ég eftir því að folöldunum hafði fækkað um eitt þegar ég kom að gefa í gærkvöldi. Þar sem um " aðkomugrip " var að ræða hafði ég ekki velt þessu mikið fyrir mér og gleymt að hringja í eigandann til að kanna málið. Hann hafði kannski verið að færa Önnu Margréti það sem jólagjöf? Eftir á að hyggja fannst mér þetta þó mikil ósvífni og óskammfeilni, að  gera þetta án samráðs við settan bústjóra. Já, það þarf að taka rækilega á þessu virðingarleysi, en samt þó eins gott að réttur eigandi hafi hirt það?

  Rigningin sem koma átti í gær kom aldrei og hrossin höfðu því öll komist út í gerði. Það var eins gott því nú er farið að rigna og lá við að blotnaði í mér við að koma rúllunni inn á Sjeffanum, því nú þurfti að bæta á fóðurvagninn.

  Mér varð hugsað til sýkingarinna á Kjalarnesinu þar sem 21. hross er dautt og 6 veik enn.
Þetta er álíka fjöldi og hér var verið að gefa og þó gömlum sveitarmanni blöskri þegar hann les í fréttum um málið að hrossin hafi látist og eða  andast, er það kannski réttlætanlegt orðafar í svona tilvikum.
  Ekki er ótrúlegt að sú hörmungarsaga vekji kröftuga umræðu um dreifingarform búfjáráburðar, og nýtingu landsins í framhaldinu, þegar búið verður að staðfesta hvað þarna gerðist.

 Svo er vonandi að nú fari að slá á þessa umhleypinga sem fara illa með útiganginn.

Hér með er því óskað eftir stillum með hæfilegu frosti og snjó því nú eru fjöllin farin að bíða eftir mér.



  Og yngri bóndann farið að klæja í benzínputtann.

26.12.2008 20:50

Hestamiðstöðin. Nýjasta tækni og vísindi.


  Þessa helgina er ég bústjóri hestamiðstöðvarinnar. Svo heppilega vill til að það er lítið verið að leggja á um helgar, svo ég slepp létt út úr þeim þætti rekstursins.

 Þegar Einar var að byggja hestamiðstöðina upp, nýtti hann vel allan mannauðinn í grönnunum sem þekktu allt til gegningarvinnu og skítmoksturs og vissu hvað bar að varast í þeim málaflokkum. Meira að segja yfirsmiðurinn vissi nákvæmlega hvernig var að burðast um með fangið fullt af heyi.
Niðurstaðan var einföld og látlaus bæði í skítmokstri og gegningarvinnunni.

 

  Sjefferinn kemur með rúlluna inn og sker hana á vagninn. Hann er laufléttur í gjöfinni svo meir að segja ég fer létt með hann um húsið.



 Aðstaðan fyrir hey og hálm er í enda reiðhallarinnar og vagnarnar koma beint hér inn á ganginn.



  Það var að sjálfsögðu skilyrt við helgarráðninguna að hálmun yrði nýlokið og myndi duga um helgina.


Kjarnfóðurvagninn er hrein snilld og bygghólfið er til marks um hvaða fóður virkar best fyrir þau hross sem eru í stífri þjálfun. Áfram Ísland.

                            Já, já, Einar minn, ég endaði náttúrulega á því að sópa.

 Allir vagnarnir voru smíðaðir af yngri bóndanum í Dalsmynni og hönnunin, já það má nú deila um það hversu stóran hlut sá eldri á í henni. En sem sagt , einfalt, sparneytið, þægilegt og viðhaldið á græjunum vigtar lítið ennþá.

  Nú er bara að vona að rigni eldi og brennisteini á morgun, svo ekki þurfi að setja allt út í gerði.emoticon

25.12.2008 13:55

Jólastemmingin.


   Það kemur óneitanlega upp gamla góða jólastemmingin þegar barnabörnin mæta í jólaskreytinguna og pakkahasarinn.



  Þessi var nú ekki svona brött í skreytingunum í fyrra.



   Þetta virðist vera eitthvað meðfætt og erfist örugglega ekki frá afa í Dalsmynni.




  Þessir pakkar eiga víst að fara undir jólatréð.



  Ég var nú bara að prófa stólinn hans Arons og lenti í smáógöngum.



 Ég ætla nú að benda ykkur á að ég er hérna líka. Það gæti svo verið ágætt að fá sólgleraugu ef þessir blossar hætta ekki.



 Hérna færð þú pakka Aron minn. Það þýðir ekkert að snúa uppá sig, þó hann sé mjúkur.



   Svo er það frænku og jólakossinn. Og maður var orðinn dauðþreyttur þegar búið var að opna alla þessa pakka.


Flettingar í dag: 792
Gestir í dag: 72
Flettingar í gær: 1149
Gestir í gær: 139
Samtals flettingar: 435474
Samtals gestir: 40201
Tölur uppfærðar: 11.5.2024 19:09:50
clockhere